Magnús Haukur Harðarson þjálfari meistaraflokks kvenna hjá Fjölni brast í grát þegar Jurgen Klopp kvaddi Liverpool. Magnús er harður stuðningsmaður Liverpool.
Magnús var gestur í hlaðvarpsþætti Fótbolta.net en þar fór hann yfir sunnudaginn þegar Klopp stýrði Liverpool í síðasta sinn.
„Ég byrjaði fljótlega eftir hádegi, ég geymdi þessi viðtöl við hann fyrir leik þangað til þá. Ég tók þetta allt inn, ég fer ekki í felur með það að það voru tár felld. Oftar en einu sinni, sameiningartákn,“ sagði Magnús Haukur um Klopp.
Hann segir að Klopp hafi sameinað alla sem halda með Liverpool. „Hann vinnur alla titla, gerir það hraðar en flestir. Sem manneskja, þá er skrýtið að tala um 56 ára Þjóðverja og gráta yfir honum. Hann hefur kennt manni gríðarlega margt, maður reynir að vera manneskja sem ber virðingu fyrir leikmönnunum sínum.“
Klopp tilkynnti í upphafi árs að hann ætlaði að hætta, orkan væri tæmd og að hann gæti ekki meira. „Tímabilið breytist mikið, hann var með samning til 2026. Þegar tilkynningin kemur, þá breytist dínamíkin í kringum hann og klúbbinn. Það átti að vinna fernuna. Maður hefði viljað meira en einn bikar og þriðja sætið, en hann kemur liðinu aftur í Meistaradeildina.“
„Þessi sunnudagur var erfiður, þetta er enn að setjast að maður sjái hann ekki aftur sem þjálfara Liverpool.“
Íþróttalýsandinn geðþekki, Hörður Magnússon er faðir Magnúsar en þeir feðgar fóru í eitt sinni fyrir utan heimili Klopp í Liverpool og skoðuðu það.
„Ég hef farið fyrir utan húsið hans, ég fór þarna með pabba. Hann er oft á röltinu með hundinn sinn, fær sér bjór og sígó og fær að vera í friði. Hann er maður fólksins, hann byggði Liverpool aftur.“