Þrír leikir fóru fram í Bestu deild kvenna í kvöld og flestra augu voru í Kópavoginum þar sem Breiðablik tók á móti Stjörnunni.
Þar fór allt fjörið fram í fyrri hálfleik. Á fyrstu fimm mínútum leiksns komu Agla María Albertsdóttir og Andrea Rut Bjarnadóttir Blikum í 2-0, auk þess sem Gyða Kristín Gunnarsdóttir minnkaði muninn fyrir Stjörnuna. Eftir um stundarfjórðung skoraði Vigdís Lilja Kristjánsdóttir þriðja mark Blika og Birta Georgsdóttir kom þeim svo í 4-1. Agla skoraði annað mark sitt á 38. mínútu og lokatölur 5-1.
Breiðablik er með fullt hús stiga á toppi deildarinnar eftir fjóra leiki en Stjarnan er í áttunda sæti með aðeins 3 stig.
Valur heimsótti þá Keflavík og vann endurkomusigur. Fanney Inga Birkisdóttir, markvörður Vals, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 35. mínútu og leiddu heimakonur í hálfleik. Fanndís Friðriksdóttir og Nadía Atladóttir sneru þó dæminu við fyrir Val með mörkum á fyrsta stundarfjórðungi seinni hálfleiks.
Valur er með fullt hús stiga eins og Blikar en Keflavík er án stiga eftir fjóra leiki.
Loks vann FH 1-0 sigur á Þrótti R. Leikurinn var fremur lokaður en Breukelen Lachelle Woodard skoraði sigurmarkið seint í uppbótartíma.
FH er í fjórða sæti með 6 stig en Þróttur er með 1 stig í næstneðsta sæti.