Undanúrslit Meistaradeildar Evrópu fóru af stað með látum í kvöld þegar Real Madrid heimsótti FC Bayern á Allianz Arena í Þýskalandi.
Vini Jr kom Real Madrid yfir í fyrri hálfleik en fram að markinu hafði Bayern verið miklu sterkari aðili leiksins.
Í síðari hálfleik sýndi Bayern klærnar og Leroy Sane jafnaði leikinn áður en vítaspyrna var dæmd fyrir Bayern.
Á punktinn steig Harry Kane og sýndi mikið öryggi þegar hann setti knöttinn í netið.
Það var svo þegar lítið var eftir af leiknum sem Kim Min-Jae varnarmaður Bayern braut klaufalega af sér í teignum og vítaspyrna var dæmd.
Vini Jr steig aftur á punktinn og skoraði af miklu öryggi og fagnaði vel og innilega. Staðan 2-2 og þannig lauk leiknum en síðari leikurinn fer fram eftir rúma viku á Spáni.