Svona hefst pistill Gríms Atlasonar, framkvæmdastjóra Geðhjálpar, á Facebook síðu hans um yfirtöku Sádi-Araba á knattspyrnuheiminum.
Kveikjan er ofurtilboð Al Hilal í Sádi-Arabíu til bæði Paris Saint-Germain og Kylian Mbappe. Félagið bauð 259 milljónir punda í leikmanninn, sem myndi gera hann að þeim dýrasta í sögunni. Þá myndi Mbappe sjálfur þéna gríðarlega.
Sádi-Arabar hafa látið til sín taka á leikmannamarkaðnum í sumar og fengið fjöldan allan af stórstjörnum til sín. Þá mætti Cristiano Ronaldo í deildina þar í landi síðasta vetur.
Grímur er vægast sagt ekki hrifinn af þessari þróun.
„Sádi Arabía er skelfilegt einræðisríki þar sem mannréttindi eru fótumtroðin og minnihlutahópar eru kúgaðir. Það er afleitt að vera kona í Sádi Arabíu og enn verra að vera samkynhneigður svo ekki sé talað um trans. Yfir landinu drottnar konungsfjölskylda sem hagnast hefur gríðarlega á náttúruauðlindum landsins sem hún telur til sinna eigna. Er auður hennar metinn á um 185 billjarða króna sem er í raun óskiljanleg tala en myndi duga til að reka íslenska ríkið næstu 200 árin eða svo.“
Grímur bendir á morðið á blaðamanninum Jamal Khashoggi. Hann hafði gagnrýnt yfirvöld í Sádi-Arabíu harðlega.
„Mohammed bin Salman, prinsinn hérna á myndinni, lét myrða blaðamanninn Jamal Khashoggi þegar sá síðarnefndi heimsótti sendiráð Sáda í Istanbul 2. október 2018. Sádar höfðu til þessa dags geta losað sig við óþægilegt fólk sérstaklega heima fyrir án nokkurra afleiðinga. Sádar eru bandamenn okkar og mega gera það sem þeim sýnist var viðkvæðið. En þarna í október 2018 virtist sem Salman prins hafi stigið yfir einhver mörk. Samskipti Bandaríkjanna og annarra bandamanna við Sáda virtust verða stirð um hríð. En það var bara leikrit.
Auðvitað breytti þetta morð engu. Ekki frekar en aftökur, pyntingar, skoðanakúgun og kvenfyrirlitning sem óbreyttir borgarar Sádi Arabíu hafa þurft að þola á hverjum degi sl. þúsund ár eða svo. Salman réði til sín her almannatengla og gerði plan. Á þeim tæpu fimm árum sem liðin eru hefur hann svo sannarlega náð að sýna hvar hollsta okkar liggur: við peninga. Á milli áranna 2021 og 2022 þrefölduðust dauðarefsingar í Sádi Arabíu en þegar fréttir á t.d. íslenskum fréttamiðlum eru skoðaðar þá snúast þær nær allar um nýja risa golfmótið í landinu eða alla útbrunnu fótboltamennina sem þangað fara til þess að taka þátt í hvítþvotti þessara mjög svo andstyggilegu stjórnvalda. Það eru u.b.b. 40 fréttir um golf og fótbolta á móti hverri frétt um mannréttindabrot.“
Grímur telur að íþróttahreyfingin þurfi að bregðast við.
Pistilinn í heild má nálgast hér að neðan.