Það fór fram gríðarlega skemmtilegur leikur í Bestu deild karla í gær er Víkingur Reykjavík tók á móti Val. Víkingar töpuðu í gær sínum fyrsta leik í deildinni og fengu á sig þrjú mörk en höfðu aðeins fengið á sig tvö fyrir viðureignina.
Valur skellti sér í annað sætið með 3-2 sigri á Víkingvelli þar sem Tryggvi Hrafn Haraldsson skoraði tvennu. Aron Jóhannsson var einnig á meðal markaskorara Vals sem hafa nú skorað heil 26 mörk í aðeins tíu leikjum.
Aron Jóhannsson lagði upp annað mark Tryggva Hrafns í leiknum en hann hamraði boltanum í svæðið með vinstri fætinum.
„Sendingin hjá Aroni Jó í öðru markinu er út úr kortinu,“ sagði Mikael Nikulásson þjálfari KFA í Þungavigtinni í gærkvöldi.
Ríkharð Óskar Guðnason stýrir þættinum en hann lýsti þessum skemmtilega leik. „Ég og Atli Viðar fengum aðeins í hann í lýsaraboxinu, ég get alveg viðurkennt það,“ sagði Ríkharð.
Þessa stoðsendingu Arons má sjá hér að neðan.