Edouard Mendy markvörður Chelsea gæti fært sig um set í London í sumar ef marka má frétt Daily Mail í dag.
Þar segir að Tottenham skoði nú þann kost að sækja Mendy í sumar þegar Hugo Lloris fer frá félaginu.
Lloris er samningslaus og ekkert bendir til þess að hann framlengi dvöl sína hjá Spurs.
Chelsea ætlar að selja haug af leikmönnum í sumar og Mendy er einn þeirra en hann hefur verið mikið á bekknum í vetur.
Mendy byrjaði frábærlega hjá Chelsea og vann Meistaradeildina með liðinu fyrir tveimur árum.