Það vakti athygli árið 2015 þegar Viðar Örn Kjartansson gekk í raðir Jiangsu Sainty frá Valerenga í Noregi.
Viðar rifjaði upp þetta skref á Stöð2 Sport í gær en Viðar kveðst ekki hafa getað sagt nei við tilboðinu sem kom frá Kína. Þessi íslenski landsliðsmaður þénaði í kringum 24 milljónir á ári í Noregi en samkvæmt frétt frá 2015 þénaði hann vel yfir 100 milljónir á ári í Kína.
Þessi íslenski landsliðsmaður hefur farið víða á ferli sínum og leikur í dag með Yeni Malatyaspor í Tyrklandi.
„Það kom mikill áhugi frá Kína og það er meira að segja það en að segja nei við þeim. Það er metnaður í þeim. Maður er að spila í Noregi og maður taldi sig vera höfðingja að vera bjóða systur sinni út að borða. Þegar tölur koma eins og frá Kínverjunum þá hefði ég séð eftir því ansi lengi ef ég hefði sagt nei,“ sagði Viðar við Stöð2 Sport.
„Þetta er fótboltalega séð ekki rétt skref og ég myndi gera þetta öðruvísi í dag en ég sé ekki eftir þessu. Ég hefði líklega aldrei getað sagt nei við þessu sem þau buðu mér. Þetta er ævintýri og allt það en orðinn 25 ára. Ég held ég gæti ekki sagt nei við þessu þó ég gæti breytt einhverju.“