Fred miðjumaður Manchester United átti mjög erfitt fyrsta ár hjá félaginu, hann kom til United sumarið 2018 frá Shaktar.
Fred hafnaði Manchester City til að ganga í raðir United, hann segist hafa viljað spila fyrir Jose Mourinho frekar en Pep Guardiola.
Fred kostaði United 52 milljónir punda og miðað við fyrsta tímabilið héldu flestir að hann færi fljótt aftur. Hann hefur hins vegar stimplað sig vel inn á þessu tímabili og verið jafn besti miðjumaður liðsins.
,,Fyrsta tímabilið reyndist mér mjög erfitt, ég þurfti að aðlagast en það voru líka hlutir í persónulega lífinu,“ sagði Fred.
,,Ég eignaðist son minn, það voru margar ástæður fyrir því að ég átti ömurlegt fyrsta tímabil. Mér líður ótrúlega vel hérna núna.“