Furðulegustu ákvæðin í samningum knattspyrnumanna
Samningar sem knattspyrnumenn gera við félagslið um víða veröld kveða ekki bara á um laun og bónusa. Alls konar misgáfulegum ákvæðum er troðið inn í samningana. Þetta er gert til að tryggja að liðin fái sem mest út úr leikmönnum og auðvitað vilja leikmenn einnig tryggja sína hagsmuni sem best þeir geta. Hér gefur að líta yfirlit yfir nokkur furðuleg ákvæði sem ratað hafa í samninga á undanförnum árum og áratugum.
Enski varnarjaxlinn Neil Ruddock átti blómlegan feril á Englandi með liðum eins og Southampton, Tottenham og Liverpool þar sem hann átti sín bestu ár. Ruddock þótti stundum heldur þungur og undir lok ferils síns samdi hann við Crystal Palace á frjálsri sölu. Þetta var árið 2000 en þá var Ruddock orðinn 32 ára og kominn nokkuð yfir sitt besta. Á þessum tíma var Simon Jordan stjórnarformaður Palace og lét hann sérstakt ákvæði í samning Ruddocks sem kvað á um að hann mætti ekki vega meira en 99,8 kíló meðan Ruddock var samningsbundinn liðinu. Ef það gerðist fékk hann sekt. Ruddock er sagður hafa átt erfitt með að halda sig innan þessa ramma og fékk hann sekt í nokkur skipti. Ruddock spilaði eitt tímabil með Palace og lék 20 leiki í það heila.
Líbanski kaupsýslumaðurinn Sam Hammam átti stóran þátt í uppgangi Wimbledon á níunda og tíunda áratug liðinnar aldar. Hammam þótti nokkuð litríkur karakter líkt og leikmenn liðsins sem þóttu býsna harðir í horn á taka. Árið 1987 réð hann Bobby Gould sem knattspyrnustjóra liðsins og segir sagan að Hammam hafi sett nokkuð umdeilt ákvæði í samninginn. Samkvæmt því mátti Hammam gera breytingar á byrjunarliðinu allt að 45 mínútum fyrir hvern leik liðsins. Gould sagði síðar frá því að aldrei hefði komið til þess að Hammam nýtti sér ákvæðið.
Norski bakvörðurinn Stig Inge Bjørnebye gerði garðinn frægan með Liverpool á tíunda áratugnum. Norðmenn eru margir hverjir miklir skíðaáhugamenn og var Bjørnebye þar engin undantekning. Faðir hans var mikilsvirtur skíðastökkvari og keppti meðal annars á Ólympíuleikum í íþróttinni. Á þeim átta árum sem Bjørnebye lék með Liverpool mátti hann ekki koma nálægt skíðum af þeirri ástæðu að forsvarsmenn Liverpool vildu ekki að hann slasaði sig. Því var meira að segja haldið fram að Bjørnebye mætti ekki koma nálægt skíðabrekku en líklega er það ekki sannleikanum samkvæmt.
Svíinn Stefan Schwarz þótti býsna öflugur knattspyrnumaður og lék hann með liðum eins og Arsenal, Benfica, Valencia, Bayer Leverkusen og Fiorentina á ferli sínum. Hann samdi við sitt síðasta lið á ferlinum, Sunderland, árið 1999 og skrifaði undir fjögurra ára samning. Um þetta leyti komust forsvarsmenn Sunderland að því að ráðgjafi Schwarz hefði bókað ferðalag út í geim, en fara átti í ferðina árið 2002. Forsvarsmenn Sunderland höfðu áhyggjur af því að Schwarz myndi slást í för með ráðgjafanum og settu ákvæði í samninginn sem bannaði honum að fara út í geim.
Þjóðverjinn Giuseppe Reina kynntist því af eigin raun að það borgar sig að orða hlutina nákvæmlega þegar samið er við nýtt lið. Sagan segir að þegar hann samdi við Arminia Bielefeld árið 1996 hafi hann samið á þann veg að hann fengi nýtt hús fyrir hvert tímabil. Með öðrum orðum þyrfti félagið að láta byggja nýtt hús fyrir hann. Þar sem hann útlistaði ekki nákvæmlega hvernig húsið ætti að vera segir sagan að félagið hafi látið hann hafa lítið hús úr Lego-kubbum fyrir hvert tímabil. Reina skoraði 22 mörk í 97 leikjum fyrir Bielefeld áður en hann samdi við Borussia Dortmund árið 1999.
Brasilíumaðurinn Neymar er án nokkurs vafa einn allra besti knattspyrnumaður heims um þessar mundir. Þegar hann samdi við Barcelona árið 2013 var ýmsum ákvæðum komið fyrir í samningnum, bæði af hans hálfu og hálfu Barcelona. Þannig má Neymar ekki mótmæla því ef stjóri liðsins lætur hann spila stöðu á vellinum sem hann kann ekki við. Ef svo ólíklega vill til að Luis Enrique láti Neymar í miðvörðinn í næsta leik má Neymar ekki mótmæla því. Brassinn samdi svo við Barcelona á þann veg að hann má bjóða vinum sínum frá Brasilíu í heimsókn til Spánar á tveggja mánaða fresti og er allur kostnaður greiddur úr vösum Barcelona.
Hollenski knattspyrnumaðurinn Dennis Bergkamp, sem er í guðatölu hjá stuðningsmönnum Arsenal, ferðaðist aldrei með flugvél í leiki liðsins. Bergkamp er flughræddur og stígur ekki fæti upp í flugvél enn þann dag í dag. Þegar hann samdi við Arsenal árið 1995 var ákvæði í samningi hans sem kvað á um að hann þyrfti ekki að ferðast með liðinu í leiki ef liðið notaði flugvél sem fararskjóta. Átti þetta til dæmis við leiki liðsins á útivöllum í Evrópukeppnum. Bergkamp spilaði þó marga þessara leikja en hann ók þá á milli staða eða notaði lest.