fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
FókusKynning

Æfingafíkn getur verið stórhættuleg eins og þessi unga kona komst að raun um

Hætti að hafa blæðingar og hlaut slæm álagsmeiðsl

Einar Þór Sigurðsson
Þriðjudaginn 2. maí 2017 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það vita það væntanlega allir að hófleg hreyfing er af hinu góða og skiptir þá engu hvort rætt er um göngutúr eða hjólreiðatúra á hverjum degi eða líkamsrækt nokkrum sinnum í viku. En eins og hófleg hreyfing getur verið holl og góð getur of mikil þjálfun haft margvísleg neikvæð áhrif á heilsuna.

Æfði tvisvar til þrisvar á dag

Katherine Schreiber er 28 ára bandarísk kona sem komst að raun um þetta. Í viðtali við ABC fyrir skemmstu sagði Katherine sögu sína í þeirri von að aðrir, sem hugsanlegu eru í svipuðum sporum og hún var í, hugsi sinn gang. Katherine þróaði með sér líkamsræktarfíkn og undir það síðasta var hún farin að stunda ræktina tvisvar til þrisvar á dag.

Það var þegar Katherine var á unglingsárunum að hún byrjaði að stunda líkamsrækt. Hún byrjaði rólega; mætti í ræktina tvisvar í viku og var markmiðið, eins og svo oft, að léttast og líta betur út. Hún jók álagið jafnt og þétt og þegar líkami hennar sagði stopp mætti hún í ræktina allt að tuttugu sinnum í viku. Katherine hefur verið í meðferð að undanförnu við fíkninni sem hefði getað kostað hana heilsuna fyrir fullt og allt.

Hætti að hafa blæðingar

Í viðtalinu segir hún að fyrstu einkenni ofþjálfunar hafi til dæmis verið þau að hún hætti að hafa blæðingar. Hún hlaut álagsmeiðsl, álagsbrot þar á meðal, og brjósklos í baki. Á sama tíma og hún jók æfingaálagið innbyrti hún færri og færri hitaeiningar og þróaði með sér átröskun. Þetta hafði ekki bara áhrif á líkamlegu hliðina því hún einangraðist einnig félagslega.

„Ég gat með engu móti myndað vinatengsl eða viðhaldið þeim. Ég hafði engan tíma fyrir vini eða maka. Líf mitt varð að vera í mjög föstum skorðum því ekkert mátti hafa áhrif á getu mína til að mæta í ræktina,“ segir hún.

Fráhvarfseinkenni

Árið 2015 ákvað Katherine að leita sér hjálpar og naut hún meðal annars aðstoðar frá vísindamönnum við Jacksonville University og High Point University í Norður-Karólínu. Heather Hausenblas, prófessor í hreyfingarfræðum við Jacksonville University, segir við ABC að æfingafíkn sé ekki opinberlega viðurkennd sem geðsjúkdómur þó einkennin geti í vissum tilfellum átt við.

Í umfjöllun ABC kom fram að talið sé að á milli 0,3 til 0,5 prósent alls fólks þjáist af æfingafíkn og allt að 3,2 prósent þeirra sem stunda hreyfingu reglulega. Einkennin eru til dæmis þau að viðkomandi heldur æfingum áfram þó hann finni fyrir sársauka eða meiðslum og fórnar félagslegum tengslum til að stunda æfingar. Fráhvarfseinkenni gera vart við sig ef viðkomandi telur sig ekki hafa uppfyllt þörf sína og getur fólk þá fundið fyrir kvíða, eirðarleysi, svefnsleysi og skorti á einbeitingu.

Æfir áfram en hlustar á líkamann

Í viðtalinu sagði Katherine að meðferðin sem hún hefur gengist undir hafi skilað góðum árangri. Þrátt fyrir að hafa lent á vegg æfir hún enn í um 45 mínútur á degi hverjum. Hún hefur þó lært að hlusta á líkamann, æfa skynsamlega og hvíla þegar hún finnur fyrir meiðslum. Hausenblas segir einmitt að meðferð við æfingafíkn miði ekki að því að fá viðkomandi til að hætta þjálfun, frekar hjálpa fólki að finna leið til að minnka álagið viðkomandi til hagsbóta.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Kynning
13.12.2023

Hlífðarpúðar sem aðlagast líkamanum vegna einstakrar tækni

Hlífðarpúðar sem aðlagast líkamanum vegna einstakrar tækni
Kynning
28.11.2023

Skúli fann heilsuna aftur í Póllandi – „Lífsgæði mín löguðust umtalsvert frá því að vera algjör sjúklingur eða öryrki yfir í að komast aftur á vinnumarkaðinn“

Skúli fann heilsuna aftur í Póllandi – „Lífsgæði mín löguðust umtalsvert frá því að vera algjör sjúklingur eða öryrki yfir í að komast aftur á vinnumarkaðinn“
Kynning
31.03.2023

Glæsilegir vinningar í Páskaleik DV: Taktu þátt fyrir 5. apríl

Glæsilegir vinningar í Páskaleik DV: Taktu þátt fyrir 5. apríl
Kynning
29.03.2023

Miklu meiri lífsgæði með Protis Liðum

Miklu meiri lífsgæði með Protis Liðum