Höfðingi flýgur að heiman

Handsamaður fyrir 11 dögum - Flýgur frjáls að nýju

Mynd: Höskuldur Birkir Erlingsson

Höskuldur Birkir Erlingsson, lögreglumaður, áhugaljósmyndari og söngvari hafði veður af því á miðvikudag að haförn hefði sést við höfnina á Blönduósi og ákvað hann að kanna það í gær. „Ég renndi niður á höfn upp á von og óvon, og þar sat hann í þessu fína myndavélafæri,“ segir Höskuldur.

Mynd: Höskuldur Birkir Erlingsson

Í dag fékk Höskuldur staðfest að um er að ræða örninn Höfðingja sem Þórarinn Óli Rafnsson á Staðarbakka handsamaði 28. janúar síðastliðinn og gaf nafn. Lögreglumenn á Blönduósi fóru þá og hittu Þórarinn og örninn og þar sem ástand fuglsins þótti athugunarvert var farið með hann til sérfræðinga Náttúrufræðistofnunar Íslands til aðhlynningar. Höfðingi braggaðist fljótt og var fluttur aftur á heimaslóðir sínar 1. febrúar síðastliðinn, þar sem hann hóf sig strax til flugs.

Mynd: Höskuldur Birkir Erlingsson

Mynd: Höskuldur Birkir Erlingsson

Það merkilega við örninn er að hann er elstur allra þeirra arna, sem fundist hafa á Íslandi. Var hann merktur við Breiðafjörð árið 1993, sem ungi og ekki sést síðan.

Á myndinni sem Höskuldur tók af Höfðingja í gær sést merkið vel. „Örninn er greinilega í flottu formi og búinn að fljúga næstum því 50 km í beinni loftlínu síðan honum var sleppt. Höfðingi saknar mín greinilega,“ segir Höskuldur glettinn um þennan góðkunningja sinn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.