Fókus

Góð ráð fyrir matarinnkaupin

Sparaðu bæði tíma og peninga með skipulagningu

Ritstjórn DV skrifar
Mánudaginn 1. janúar 2018 15:30

Hver kannast ekki við að fara að versla í matinn og enda svo á að kaupa fullt af óþarfa matvöru og eyða allt of miklu fé. Hér eru nokkur góð ráð fyrir matarinnkaupin.

1. Farðu hvorki of oft né of sjaldan

Það er mjög algengt að fólk skreppi út í búð á nánast hverjum degi til að kaupa inn það sem verður í matinn um kvöldið. Þetta er ekki góð leið til að versla því afar auðvelt er að missa sjónar á kostnaði við innkaupin sé farið svo oft. Hins vegar er ekki heldur gott að fara of sjaldan því þó svo að það gefi betri yfirsýn yfir kostnaðinn að gera innkaupalista fyrir heila viku eða jafnvel lengri tíma er hætta á að fólk kaupi mat sem endist lengur og þannig ratar gjarnan færra ferskmeti ofan í körfuna.

2. Vertu með innkaupalista

Afar nauðsynlegt er að vera búinn að gera lista yfir það sem á að kaupa inn. Þannig má forðast að kaupa eitthvað sem ekki vantar á heimilið en á það til að lenda ofan í körfunni, en þetta á sérstaklega við um óhollustu af ýmsu tagi, auk þess sem það að gera lista minnka líkurnar á að eitthvað gleymist.

3. Ekki fara svangur að versla

Það ættu flestir að vita að það er alls ekki gott að fara svangur að versla. Nánast allur matur í búðinni fer að virðast ómissandi í kerruna og hætta er á að maður kaupi allt of mikið af óþarfa matvöru.

4. Verslaðu á réttum dögum

Til að geta verslað sem ferskasta matvöru er best að versla á þeim dögum sem matvöruverslunin þín fær nýjar sendingar af grænmeti og ávöxtum. Þú getur spurst fyrir um þetta í búðinni og skipulagt innkaupin þannig að ferskmetið verði sem best þegar þú kaupir það.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af