Fókus

Tíu bestu veitingastaðir höfuðborgarsvæðisins

Notendur Tripadvisor dæma – Skiptir miklu máli fyrir veitingastaðina

Björn Þorfinnsson skrifar
Mánudaginn 24. apríl 2017 09:20

Veitingastaðurinn Restó trónir á toppi lista Tripadvisor yfir bestu veitingastaði Reykjavíkur.
DV hefur árlega fjallað um listann sem er síbreytilegur. Til marks um það miðast úttekt blaðamanns við stöðuna föstudaginn 7. apríl en í vikunni þar á undan hafði annar veitingastaður, Matarkjallarinn, trónað á toppnum. Samkeppnin er því hörð.

Í fyrra var niðurstaðan sú að veitingastaðurinn Friðrik V var í 1. sæti listans. Staðurinn var í eigu hjónanna Friðriks Vals Karlssonar og Arnrúnar Magnúsdóttur en þau ákváðu að loka staðnum þann 1. júní í fyrra. Ástæðan var erfið veikindi Arnrúnar en Friðrik lýsti því yfir í viðtali við DV að hann vildi ekki halda áfram án hennar.](http://www.dv.is/frettir/2016/4/26/eg-vil-ekki-halda-afram-hennar/).

Það skiptir miklu máli fyrir veitingastaði að vera ofarlega á vefsíðunni Tripadvisor. Þar gefa gestir veitingastöðum einkunn og jafnvel umsögn eftir heimsóknina. Hátt sæti á listanum er því til marks um ánægju viðskiptavina og hefur mikil áhrif á rekstur veitingahúsanna. „Við lifum á þessum,“ segir annar eigandi Restó, Jóhann Helgi Jóhannsson.

Af einstakri hógværð segir Jóhann að það sé ofsagt að Restó sé besti veitingastaður landsins. „Að mínu mati snýst listi Tripadvisor um hvar ferðamenn fá mesta virðið fyrir aurinn. Hvað Restó varðar þá er formúlan ekki flókin. Við reynum að búa til góðan mat á sanngjörnu verði og veita alúðlega þjónustu. Við erum líka einstaklega heppin með starfsfólk,“ segir Jóhann Helgi. Afslappaður fjölskylduandi svífur yfir vötnum því eiginkona Jóhanns Helga, Ragnheiður Helen Eðvarsdóttir, rekur staðinn ásamt eiginmanni sínum og er potturinn og pannan í þjónustunni.

Athygli vekur að Dill Restaurant, sem nýlega fékk fyrstu íslensku Michelin-stjörnuna og gerir þar með sterkt tilkall til þess að vera útnefndur besti veitingastaður landsins, er í grennd við 60. sæti á lista Tripadvisor. Það er í samræmi við stöðuna í Kaupmannahöfn en þar er Noma, sem margsinnis hefur verið á lista yfir bestu veitingastaði heims, nálægt 40. sæti í dönsku höfuðborginni. Líklega má draga þá ályktun að þessir staðir séu kannski ekki á ratsjá hins almenna ferðamanns heldur frekar matgæðinga og efnaðri viðskiptavina.

En látum af vangaveltum. Hér eru 10 bestu veitingastaðir höfuðborgarsvæðisins samkvæmt Tripadvisor:

1. Restó, Rauðarárstígur 27–29, 101 Reykjavík

Veitingastaðurinn Restó kom með hvelli inn í íslenska veitingahúsamenningu í lok árs 2014. Í úttekt DV í maí 2015 kom í ljós að staðurinn var efstur á blaði hjá notendum Tripadvisor. „Ég átti nú ekki von á þessum viðtökum því ég er bara gamall melur að reyna að búa mér til skemmtilega vinnu,“ sagði yfirkokkurinn og eigandinn Jóhann Helgi Jóhannsson við það tilefni. Eins og áður segir þá rekur Jóhann Helgi staðinn ásamt eiginkonu sinni, Ragnheiði Helenu, og saman leggja þau áherslu á fiskrétti auk einlægrar þjónustu. „Þetta er ánægjulegt því ég veit að það hefur verið flökt á efstu sætum. Þetta er samt tvíeggja sverð því að toppsætið þýðir mun meiri væntingar viðskiptavina, jafnvel óraunhæfar,“ segir Jóhann Helgi, sáttur við sitt.

Til gamans má geta þess að blaðamaður DV fékk póst frá óánægðum veitingamanni í tengslum við úttektina 2015. Taldi sá að blaðamaður hefði tekið stikkprufu sína á röngum tíma og að listinn ætti eftir að leiðrétta sig. Sú varð ekki raunin og æ síðan hefur Restó verið við toppinn hjá notendum Tripadvisor. Hann landaði silfrinu í fyrra og hefur því geirneglt stöðu sína á toppnum.

2. Matarkjallarinn – The Food Cellar, Aðalstræti 2, 101 Reykjavík

Matarkjallarinn var opnaður um miðjan maí 2016 í húsnæði sem hýst hefur allnokkra veitingastaði í gegnum árin. Eigendur eru þeir Lárus Gunnar Jónasson, Gústav Axel Gunnlaugsson, Guðmundur Hansson, Valtýr Bergmann og Ari Freyr Valdimarsson, sem er einnig yfirkokkur staðarins ásamt Iðunni Sigurðardóttur. Þau eru, ásamt vöskum hópi starfsfólks, að gera eitthvað rétt því staðurinn hefur verið geysivinsæll frá fyrstu tíð og flaug fljótt upp á toppinn á lista Tripadvisor. „Brasserie matargerð ræður ríkjum í eldamennskunni þar sem áherslan er á íslenskt hráefni,“ segir á heimasíðu Matarkjallarans en á meðan gestir njóta matarins þá hlýða þeir á lifandi tónlist frá Bösendorf-flygli sem var smíðaður árið 1880 í Vínarborg.

Hefur komið sem stormsveipur inn í íslenska veitingahúsamenningu.
2. Matarkjallarinn Hefur komið sem stormsveipur inn í íslenska veitingahúsamenningu.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

3. Ostabúðin, Skólavörðustígur 8, 101 Reykjavík

Fyrir tæpum tveimur árum opnaði Ostabúðin nýjan og endurbættan veitingastað í mun stærra rými auk þess sem sælkeraverslunin er enn á sínum stað. Þá fékk staðurinn loks vínveitingaleyfi og ákveðið var að taka við gestum í kvöldmat. Þar veðjuðu eigendurnir svo sannarlega á réttan hest því æ síðan hefur staðurinn verið feikivinsæll, bæði í hádeginu og að kvöldi til. Ef skoðaðar eru nýjustu umsagnir gesta þá sjást lofsamlegir dómar um þjónustuna og matinn, hvort sem um er að ræða kjöt eða fisk. Einn bandarískur ferðamaður, sem heimsótti staðinn ásamt stærri hóp, lýsir því hvernig félagi hans hafi pantað rétt sem innihélt gæs og að þjónninn hafi varað hann við að högl gætu leynst í kræsingum. Það hafi reynst rétt því alls fann gesturinn fimm högl í réttinum. „Við skemmtum okkur konunglega. Það er svo gaman að ferðast til annarra landa og upplifa mismunandi matarmenningu,“ sagði gesturinn, sem greinilega á ekki að venjast slíku í Bandaríkjunum.

Frá því að staðurinn var stækkaður og fékk vínveitingaleyfi fyrir tveimur árum hefur hann verið meðal þeirra vinsælustu á Tripadvisor.
3. Ostabúðin Frá því að staðurinn var stækkaður og fékk vínveitingaleyfi fyrir tveimur árum hefur hann verið meðal þeirra vinsælustu á Tripadvisor.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

4. Messinn, Lækjargata 6b, 101 Reykjavík

Annar nýliði í hópi hinna bestu, Messinn, var opnaður formlega þann 21. júní 2016. Þar er aðaláherslan lögð á fisk og hefur veitingamaðurinn, Jón Mýrdal, sagt að markmið staðarins sé að fanga anda rómaðs veitingastaðar á Ísafirði, Tjöruhússins. „Ég og Maggi, eigandi Tjöruhússins, erum systkinabörn og ég kokkaði þar í dálítinn tíma. Hann hefur lagt blessun sína yfir staðinn og ætlar meira að segja að koma í heimsókn og elda fyrir okkur,“ sagði Jón í viðtali við Veitingageirann þegar Messinn var opnaður.

Viðskiptavinir lofsama réttina sem í boði eru sem og þjónustuna. Sérstaklega virðist fiskipanna, þar sem koli er í aðalhlutverki, vera vinsæl. Þá þykja skammtastærðir ríflegar og verðið sanngjarnt.

Þar var ætlunin að fanga einstakan anda Tjöruhússins á Ísafirði. Það virðist hafa tekist afar vel.
4. Messinn Þar var ætlunin að fanga einstakan anda Tjöruhússins á Ísafirði. Það virðist hafa tekist afar vel.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

5. Kaffivagninn, Grandagarður 10, 101 Reykjavík

Kaffivagninn gekk í endurnýjun lífdaga þegar matreiðslumeistarinn Guðmundur Viðarsson og eiginkona hans, Mjöll Daníelsdóttir, keyptu staðinn í lok árs 2013. Þau breyttu áherslum staðarins og síðan þá hefur hann notið mikilla vinsælda. Kaffivagninn nýtur þeirrar sérstöðu á listanum að þar er aðeins opið til kl.18.00 á hverjum degi. Veitingastaðurinn einblínir því á morgun- og hádegismat auk kaffiveitinga þess á milli. Erlendir gestir virðast afar hrifnir af því að innlendir viðskiptavinir eru áberandi í flóru matargesta.

Skammtastærðir eru sagðar ríflegar og verðið afar hóflegt miðað við aðra íslenska veitingastaði. Þá er gestum tíðrætt um „fish & chips“-rétt staðarins sem á að vera sérstaklega ljúffengur.

Þar er dyrum lokað klukkan 18.00 og því er áherslan lögð á morgun- og hádegisverð.
5. Kaffivagninn Þar er dyrum lokað klukkan 18.00 og því er áherslan lögð á morgun- og hádegisverð.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

6. Matur og drykkur, Grandagarður 2, 101 Reykjavík

Matur og drykkur var opnaður í janúar 2015 og vakti staðurinn strax athygli fyrir frumlegar útgáfur af hefðbundnum íslenskum réttum. Íslenskt hráefni er í hávegum haft en á matseðlinum má meðal annars sjá harðfiskflögur, rifið lambahjarta með rófum og krækiberjum og kleinur með mysingskremi, svo eitthvað sé nefnt. Síðustu umsagnir viðskiptavina um staðinn eru lofsamlegar í meira lagi og virðist vera sérstaklega vinsælt að velja sér fimm rétta matseðla. Þá virðist útlitshönnun staðarins vera sér kapítuli út af fyrir sig því flestir gestir minnast sérstaklega á hversu flottur hann er.

Frumlegar útgáfur af íslenskum réttum falla vel í kramið hjá viðskiptavinum.
6. Matur og drykkur Frumlegar útgáfur af íslenskum réttum falla vel í kramið hjá viðskiptavinum.

Mynd: © Karl Petersson 2015

7. Old Iceland Restaurant, Laugavegur 72, 101 Reykjavík

Old Iceland var opnaður í desember 2014. Um fjölskyldustað er að ræða sem er í eigu þriggja bræðra en aðeins einn af þeim sér um daglegan rekstur, yfirkokkurinn Þorsteinn Guðmundsson. Ferskt íslenskt hráefni leikur lykilhlutverk á matseðlinum og er höfuðáherslan lögð á ýmsa fiskrétti. Þá má sjá glitta í klassíska íslenska rétti eins og kjötsúpu og hjónabandssælu. Samkvæmt heimildum DV sér móðir eigendanna um að baka hjónabandssæluna!

Gestir eru líka yfir sig hrifnir af matnum og er andrúmsloft staðarins sagt afslappað og laust við alla tilgerð. Þá eru almannatengsl staðarins til fyrirmyndar því eigendurnir leggja sig alla fram við að svara öllum umsögnum viðskiptavina á Tripadvisor.

Staðurinn er í eigu þriggja bræðra og komast færri að en vilja.
7. Old Iceland Staðurinn er í eigu þriggja bræðra og komast færri að en vilja.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

8. Forréttabarinn, Nýlendugata 14 (gengið inn frá Mýrargötu), 101 Reykjavík

Forréttabarinn var opnaður árið 2011 en fyrir fjórum árum keypti matreiðslumeistarinn Róbert Ólafsson staðinn. Eins og nafnið gefur til kynna þá snýst hugmyndafræði staðarins um forrétti en þá geta viðskiptavinir fengið í tveimur stærðum. Hugmyndin er því sú að máltíðin samanstandi af nokkrum slíkum, eða eins og hæfir matarlyst hvers og eins. Þá er einnig boðið upp á fjögurra rétta matseðil sem nýtur mikill vinsælda.

Umsagnir viðskiptavina eru lofsamlegar. Forréttabarinn gerir mikið út á gott úrval áfengra veiga og í umsögnum gesta má sjá að þeir eru ánægðir með að geta nýtt sér „happy hour“ staðarins til þess að fá fordrykk, jafnvel drykki, á hagstæðu verði.

Hér eru forréttir í forgrunni. Hugmyndafræðin er sú að setjast niður með drykk og panta síðan nokkra rétti. Það fellur vel í kramið hjá erlendum og innlendum gestum.
8. Forréttabarinn Hér eru forréttir í forgrunni. Hugmyndafræðin er sú að setjast niður með drykk og panta síðan nokkra rétti. Það fellur vel í kramið hjá erlendum og innlendum gestum.

9. Fiskmarkaðurinn, Aðalstræti 12, 101 Reykjavík.

Hrefna Sætran opnaði Fiskmarkaðinn þann 28. ágúst 2007 og því fagnar staðurinn 10 ára afmæli á árinu. Hrefna er umsvifamikil í íslensku veitingalífi því hún er einnig einn af eigendum Grillmarkaðarins sem er aðeins einu sæti frá „Topp tíu listanum.“

Á Fiskmarkaðinum er áherslan er lögð á íslenskt hráefni með asísku ívafi sem sést best á innréttingum staðarins þar sem stuðlaberg kallast á við bambus. Viðskiptavinir virðast afar hrifnir af því sem í boði er því frasinn: „Best meal I ever had“ kemur nokkuð reglulega fyrir.

Fagnar 10 ára afmæli sínu á árinu.
9. Fiskmarkaðurinn Fagnar 10 ára afmæli sínu á árinu.

10. Fiskfélagið, Grófartorg, 101 Reykjavík

Veitingastaðurinn Fiskfélagið var opnaður um mitt ár 2009 og hefur notið mikilla vinsælda æ síðan. Staðurinn er hugarfóstur matreiðslumannsins Lárusar Gunnars Jónssonar en auk hans eru Guðmundur Hansson og Þorbjörn Svanþórsson eigendur staðarins. Fiskfélagið leitar víða fanga varðandi áhrif og stefnur. Á matseðlinum má sjá rétti sem eru eyrnamerktir Danmörku, Írlandi, Kanada, Kína og allt til Ástralíu. Þá njóta matseðlar Fiskfélagsins mikilla vinsælda, annars vegar „Ferðalag um Ísland“ og hins vegar „Heimsreisa“. Erlendir gestir fara lofsamlegum orðum um þjónustu og útlit staðarins.

Matseðlar veitingastaðarins njóta mikilla vinsælda, annars vegar „Ferðalag um Ísland“ og hins vegar „Heimsreisa“.
10. Fiskfélagið Matseðlar veitingastaðarins njóta mikilla vinsælda, annars vegar „Ferðalag um Ísland“ og hins vegar „Heimsreisa“.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af