
Hermenn hafa verið kallaðir til aðstoðar við leit að 18 ára stúlku sem saknað hefur í Svíþjóð síðan á þrettándanum. Morðrannsókn hefur verið sett af stað en lögreglan leggur áherslu á að enn sé ekkert komið fram sem bendi til þess að stúlkan hafi verið myrt eða sé þolandi annars konar glæps.
Stúlkan hefur aðeins verið nafngreind með fornafni sínu, Hanna. Hún hvarf frá bænum Uddevalla í Västra Götaland héraði í suðvesturhluta Svíþjóðar en þar búa um 35.000 manns. Hún sást síðast í bænum síðdegis á þrettándanum.

Fram kemur í umfjöllun Aftonbladet að 7. janúar hafi fundist föt utandyra á útivistarsvæði í bænum en lögreglan telur að Hanna eigi þessi föt.
Morðrannsókn hefur verið hafin en lögreglan segir að á þessari stundu sé það aðallega gert til að fjölga úrræðum hennar til að auðvelda leitina en með þessu sé hægt að yfirheyra fólk, leggja hald á hluti sem geta skipt máli og fara inn í hús.
Lögreglan leggur þó áherslu á að enn sem komið er sé ekkert sem liggi fyrir um að Hanna sé þolandi glæps.
Aðstæður við leitina hafa verið erfiðar vegna mikillar snjókomu og hvassvirðis á svæðinu. Snjóþyngslin eru það mikil að gripið hefur verið til þess ráðs að moka snjóinn með skóflum til að leita undir honum að Hönnu. Hermenn hafa verið kallaðir til aðstoðar við það mannaflsfreka verkefni. Hundar og drónar hafa einnig verið nýttir við leitina. Svæðið þar sem fötin fundust er í námunda við rólegt íbúðahverfi í bænum og íbúar þar hafa tjáð Aftonbladet að þeir séu slegnir óhug vegna málsins.