
Þetta segir Grænlendingurinn Jørgen Boassen, eigandi verktakafyrirtækis á eyjunni og ákafur talsmaður slagorðsins „Make Greenland American”, í athyglisverðu viðtali við Daily Mail.
Í upphafi nýs árs hafa yfirlýsingar og hótanir Bandaríkjamanna um yfirráð yfir Grænlandi vakið mikla athygli. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sagt að það sé þjóðaröryggismál að Bandaríkin eignist Grænland.
Á sama tíma hafa yfirvöld í Danmörku og á Grænlandi talað um að Grænland sé ekki til sölu og þeir einu sem hafa lokaorðið um framtíð landsins séu Grænlendingar sjálfir.
Ef marka má ummæli Jørgens í viðtalinu er ákveðinn hópur Grænlendinga þeirrar skoðunar að hagsmunum þeirra sé betur borgið undir stjórn Bandaríkjanna en Danmerkur. Hann segir að mikil harka sé farin að færast í leikinn á milli þeirra sem hallast að Bandaríkjunum og þeirra sem vilja hvorki sjá né heyra af Bandaríkjamönnum.
Jørgen rifjar sjálfur upp að hann varð fyrir tilefnislausri líkamsárás á kokteilbarnum á einu glæsilegasta hóteli landsins, Hans Egede-hótelinu í Nuuk. Hann var sleginn í höfuðið aftan frá með þeim afleiðingum að hann datt af stólnum, en árásarmaðurinn ku hafa verið óhress vegna baráttu Jørgens fyrir Ameríkuvæðingu Grænlands.
Jørgen, sem er 51 árs og fyrrverandi hnefaleikamaður, svaraði fyrir sig í kjölfarið en í viðtalinu við Daily Mail kemur fram að þetta sé ekki fyrsta skiptið sem hann verður fyrir líkamlegri árás síðan hann var fenginn til starfa sem leiðsögumaður og óformlegur sendiherra af bandarískum norðurslóðaerindreka Trumps.
Jørgen dvelur í Danmörku nú um stundir, að eigin sögn vegna ástandsins heima fyrir. Hann segir að spennan hafi magnast svo mikið undanfarnar vikur að hann óttast alvarlega að Grænland sé á barmi „borgarastyrjaldar”.
Hann segir í viðtalinu að heilu fjölskyldurnar hafi sundrast og sjálfur hafi hann neyðst til að flytja frá unnustu sinni vegna andstöðu fjölskyldu hennar við baráttu hans. Þá bendir hann á að það sé engin tilviljun að fyrrverandi kona hans hafi verið rekin úr hátt settri stöðu hjá Air Greenland, fyrirtæki sem hún starfaði fyrir í 30 ár, skömmu eftir að hann heimsótti MAGA-viðburði í Washington í tilefni af innsetningu Trumps í embætti Bandaríkjaforseta.
„Danir stjórna 95 prósentum allra fyrirtækja hér, og þeir eru að elta fólk eins og mig sem dreymir um aukið samstarf við Bandaríkin,“ sagði Boassen við blaðamann Daily Mail. Hann segir einnig að hann hafi neyðst til að loka verktakafyrirtæki sínu þar sem það er komið á svartan lista. „Og það sama er að gerast fyrir önnur fyrirtæki sem sýna Trump stuðning.“
Kuno Fencker, þingmaður og sjálfstæðissinni, segir í viðtali við Daily Mail að klofningurinn á Grænlandi harðni stöðugt og að deilurnar hafi þegar leitt til þess að fjölskyldumeðlimir rjúfi tengsl sín á milli. Fencker telur að langflestir Grænlendingar þrái sjálfstæði og frelsi frá Dönum, en það þýði þó ekki að þeir vilji láta stjórna sér frá Washington.
Sjálfur kveðst Fencker þó vera spenntur fyrir auknum afskiptum Bandaríkjanna og sér hann fyrir sér samning um samstarf á ýmsum sviðum sem kæmi báðum aðilum til góða. Grænland fengi að halda fullveldi sínu, bandarísk fyrirtæki fengju að taka þátt í nýtingu sjaldgæfra málma og bandaríski herinn fengi að halda viðveru sinni og fæla þannig frá Rússa og Kínverja.
En eins og glögglega kemur fram í umfjöllun Daily Mail vilja flestir Grænlendingar ekki sjá afskipti Bandaríkjamanna. Ein þeirra er Hedvig Frederiksen, 65 ára lífeyrisþegi sem býr í íbúð með útsýni yfir flugvöllinn í Nuuk. Hún er óttaslegin um að bandaríski herinn geti komið á hverri stundu og óttast að bandarísk innrás sé yfirvofandi í hvert sinn sem hún heyrir flugvél lenda. Dóttir hennar, Aviaja, tekur í svipaðan streng og segir að móðir hennar sé ekki ein um þetta.
„Mamma hefur líka sett upp flugvélarrakningarforrit í símanum sínum svo hún geti fylgst með flugferðum til og frá Pituffik,” segir hún en þar reka Bandaríkjamenn herstöð. „Margir Grænlendingar eru að gera það sama núna,“ segir hún í viðtalinu.