Billy er búsettur í Japan og er mikill hlaupagarpur. Hann þekkir skógana í Myoko eins og lófann á sér, en þar hefur eytt ótal klukkustundum í hlaup, þar á meðal svonefnd ofurhlaup sem eru lengri en gengur og gerist.
Það var í byrjun mánaðarins sem Billy var í enn einu hlaupinu í skóginum þegar hann sá nokkuð sem hann hafði aldrei séð áður í hlaupaferðum sínum – í rjóðrinu skammt frá hlaupastígnum kom hann auga á tvo asíska svartbirni.
„Ég vissi strax að ég væri í vanda staddur,“ segir hann í samtali við CNN en í fréttinni kemur fram að árásum bjarndýra hafi fjölgað verulega í Japana á undanförnum misserum. Það sem af er þessu ári hafa yfir 100 manns slasast og að minnsta kosti sjö látist — fleiri en dæmi eru um frá því skráningar hófust árið 2006.
Billy hafði hlaupið langt frá bílastæðinu þar sem hann lagði – og vissi að það þýddi ekkert að snúa aftur. Hann bakkaði rólega í burtu en við það byrjaði annar björninn að ganga í áttina til hans.
„Hann var á stærð við mig og líklega 60 til 70 kíló,“ segir hann. „Ég vissi að ef ég myndi hlaupa myndi hún elta mig, svo ég reyndi að hræða hana í burtu með öskrum.“
Það virkaði ekki og réðst björninn á hann.
„Ég hélt uppi hendinni til að verja andlitið, og hún læsti tönnunum í handleggnum. Ég féll í jörðina og í einu biti var handleggurinn ónýtur,“ segir Billy við CNN.
Hann varð einnig fyrir klórum og bitum á fæti áður en björninn, sem hann telur hafa verið kvendýr, hafði sig á brott.
Billy var hræddur um að bjarndýrið kæmi aftur og brá hann á það ráð að hringja í eiginkonu sína og bað hana að koma að sækja sig. Þrátt fyrir illa brotinn handlegg og laskaðan fót tókst honum að hlaupa um kílómetra til móts við hana, þar sem hans beið sjúkrabíll sem eiginkona hans hafði hringt eftir.
Billy er á batavegi, að því er segir í frétt CNN, en hann hefur legið inni á sjúkrahúsi frá atvikinu og gengist undir þrjár aðgerðir. Í einni aðgerðinni var hluti úr mjaðmarbeini hans fjarlægður til að bæta upp skemmdir sem urðu í handleggnum.
Framundan er löng endurhæfing. Halloran segist þó staðráðinn í að snúa aftur til hlaupa, þótt líkaminn verði aldrei eins og áður.
„Ég verð varfærnari framvegis,“ segir hann. „En veturinn er á næsta leiti – þegar ég hef náð bata ætla ég að fara á snjóbretti, hreinsa hugann og finna aftur tengslin við náttúruna.“