Athafnamaðurinn og fyrrum samskiptastjóri Hvíta hússins, Anthony Scaramucci, segir að bandarísk stjórnmál hafi verið lögð í rúst með þremur grundvallarbreytingum sem hafa átt sér stað undanfarna áratugi. Þessar breytingar hafi gert að verkum að kjósendur hafa ekki það vald sem þeim var upphaflega ætlað. Scaramucci starfaði fyrir fyrri ríkisstjórn Trump, en hann hafði áður starfað á Wall Street.
„Við glímum við leiðtogakrísu, og til að gæta sanngirni og hlutleysis þá er þetta áfellisdómur yfir báðum flokkunum,“ segir Scaramucci í nýlegu myndbandi sem hefur vakið mikla athygli.
Þrennt hafi átt sér stað til að skapa þetta vandamál. Það fyrsta átti sér stað árið 1992 þegar Ross Perot bauð sig fram til forseta.
„Bill Clinton var í kosningabaráttunni með George Herbert Walker Bush og hann [Ross Perot] hræddi líftóruna úr þessum tveimur flokkum. Hann fékk 19,9 prósent atkvæða.“
Þetta varð til þess að lagabreytingar áttu sér stað í ríkjum Bandaríkjanna og eftir þessar breytingar er nánast ómögulegt fyrir aðila sem hvorki tilheyrir demókrötum eða repúblikönum að komast á kjörseðil í öllum ríkjum.
„Og það er orðið ómögulegt að bjóða sig fram utan flokks jafnvel þó hlutfall kjósenda sem eru utan flokks hafi aldrei verið hærra, næstum 40 prósent skráðra kjósenda.“
Það næsta sem átti sér stað er að stjórnmálaflokkarnir tveir fóru að stunda það sem á ensku kallast gerrymandering, eða kjördæmahagræðingu. Þar nýta flokkarnir sér þau ríki þar sem þeir eru við völd og teikna kjördæmin þar upp á nýtt til að tryggja áframhaldandi völd eða í það minnsta stórauka líkurnar á því. Áður hafi kjördæmin verið teiknuð rúmfræðilega. Nú minni þau heldur á krass á blaði.
„Erum við raunverulega lýðveldi ef stjórnmálamennirnir fá að velja kjósendur sína. Ég hélt að kjósendur ættu að velja stjórnmálamennina.“
Það þriðja sem Scaramucci nefnir, og er að hans mati stærsti vandi bandarískra stjórnmála, eru hæstaréttardómur sem kallast Citizen United, eða „Sameinaðir borgarar“.
„Þetta er dómur Hæstaréttar sem féll í janúar árið 2010 þar sem hæstaréttardómarinn [Antonin] Scalia sagði: „Sko þið vitið að ef þið eigið peninga þá hafið þið stjórnarskrárbundinn rétt til að ráðstafa peningum ótakmarkað til ykkar stjórnmálamanna eða til að styrkja ykkar málstað, hver sem hann er“.“
Scaramucci segir að frá því að þessi dómur féll hafi löggjöf í Bandaríkjunum verið óvenjuhliðholl hagsmunum stórfyrirtækja og auðmanna.
Gott dæmi sé fjárlagafrumvarp Donald Trumps, stóra fallega fjárlagafrumvarpið. Það endurspegli þessa þróun vel. Samkvæmt frumvarpinu græða þeir mest á því sem mest þéna en þeir sem minnst þéna tapa.
„Ef þú þénar milljón dala á ári þá fékkstu 7 þúsund dali í ívilnanir í þessu frumvarpi. En ef þú þénar 50 þúsund dali eða minna, þá tapar þú 700 dala ívilnunum. Þegar frumvarp þetta var leitt í lög var stuðningur við það aðeins 38 prósent meðal kjósenda. Stuðningurinn er nú 31 prósent. En stjórnmálamönnunum er sama því þeir geta haldið áfram að ná endurkjöri með þessum grundvallarbreytingum sem hafa orðið á kerfinu.“
View this post on Instagram