Nú þegar hefur einn farandverkamaður látið lífið í tengslum við framkvæmdirnar. Þetta kemur fram í tveimur nýjum skýrslum frá mannréttindasamtökunum Human Rights Watch og FairSquare.
Skýrslunar byggjast á umfangsmiklum rannsóknum á um 50 vinnuslysum, þar sem fólk lést, í Sádi-Arabíu. Einnig voru tekin viðtöl við fjölskyldur 31 farandverkamanns.
„Þetta er rosalega hættulegt vinnuumhverfi. Af hverju er það ekki stór og alvarlegur rauður fáni fyrir FIFA?“ sagði Michael Page, forstjóri Human Rights Watch í Miðausturlöndum og Norður-Afríku, á fréttamannafundi í síðustu viku. Ekstra Bladet skýrir frá þessu.
Samtökin segja að farandverkamenn hafi meðal annars látist af völdum rafstuðs, hrapað til bana eða lent undir þungum vélum. Samtökin segja einnig að farandverkamennirnir fái enga vernd gegn því að vinna í öfgahitum og hafi margir orðið fyrir nýrnabilun vegna þess og aðrir hafi látist.
Fjölskyldur hinna látnu fá engar bætur því sádi-arabísk yfirvöld hafi fundið glufu í löggjöfinni og geti þannig komist hjá því að greiða bætur.
Sum dauðsföllin eru þess utan skráð sem „af náttúrulegum orsökum“ en engar bætur eru greiddar vegna slíkra dauðsfalla.
The Guardian skýrði frá því í mars að pakistanski farandverkamaðurinn Muhammad Arshad hafi fallið niður af þaki og látist. Hann var að vinna við byggingu tengda HM 2034.
Skemmst er að minnast þess að rúmlega 6.500 farandverkamenn létust við undirbúning HM í Katar 2022.