Mennirnir, sem eru frá Afganistan að því er fram kemur í frétt Spiegel, eru sagðir hafa ætlað að fremja skotárás við sænska þinghúsið og skjóta bæði á lögreglumenn og starfsfólk þingsins. Er árásin sögð hafa átt að vera hefnd fyrir kóranbrennur sem voru nokkuð áberandi í Svíþjóð á síðasta ári.
Mennirnir eru sagðir hafa haft tengsl við hryðjuverkasamtökin ISIS-K sem eru einskonar undirhópur ISIS-samtakanna alræmdu.
Í frétt Spiegel kemur fram að mennirnir, 23 ára og 30 ára, hafi átt í nánum samskiptum við fulltrúa ISIS-K um skipulagningu voðaverksins.
Eru mennirnir sagðir hafa skoðað svæðið í nágrenni þinghússins í Stokkhólmi gaumgæfilega og reynt að verða sér úti um skotvopn, en án árangurs.