fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Pressan

Vinkonurnar hurfu í óbyggðaferðinni – Hver tók dularfullu myndirnar átta dögum síðar?

Pressan
Laugardaginn 9. mars 2024 22:00

Lisa Froon og Kris Kremers.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hvað gerðist í óbyggðaferð Kris Kremers og Lisanne Froon í Panama 2014. Þessar hollensku konur voru aðeins 21 og 22 ára þegar þær hurfu á dularfullan hátt. Mörgum mánuðum síðar fundust líkamsleifar þeirra en málið skýrðist eiginlega ekki við það því bakpokar þeirra fundust einnig. Í þeim var myndavél með myndum úr óbyggðaferðinni. Sumar myndanna voru teknar eftir að konurnar hurfu. Hver tók þær? Voru þær hjálparkall?

Þær höfðu safnað sér lengi fyrir ferðinni sem átti að verða stærsta upplifun lífs þeirra. Þær ætluðu að vera í Panama í sex vikur, læra spænsku og sinna sjálfboðaliðastörfum. Þess á milli ætluðu þær að skoða þetta fallega land. En dvölin endaði hörmulega og þær sneru ekki lifandi heim.

Kris í frumskóginum.

Þær hurfu eins og dögg fyrir sólu þegar þær voru í gönguferð í óbyggðum í apríl 2014. Mörgum mánuðum síðar fundust líkamsleifar þeirra. Hvernig og af hverju þær létust er enn óleyst ráðgáta en vitað er að þær reyndu að hringja eftir aðstoð eftir að þær hurfu.

Atburðarásin

Vinkonurnar komu til Panama þann 15. mars 2014. Þar ætluðu þær að vera í sex vikur. Læra spænsku, sinna sjálfboðaliðastörfum og skoða landið. 1. apríl lögðu þær af stað í ferð sem átti að vera ævintýraleg og skemmtileg gönguferð í frumskóginum nærri bænum Boquete. En þessi ferð endaði hörmulega.

Þær skiluðu sér ekki aftur og fjórum dögum síðar hófst umfangsmikil leit að þeim. Hundar og þyrlur voru notaðar við leitina en án árangurs. Foreldrar þeirra hétu 30.000 dollurum í verðlaun ef þær fyndust. En það var eins og þær hefðu horfið af yfirborði jarðar.

Lisanne i skóginum.

Það var ekki fyrr en eftir 10 vikur sem leitarmenn fundu loks vísbendingu. Eftir að hafa fínkembt ákveðið svæði í átta klukkustundir fundu þeir bakpoka. Í honum voru tveir símar, iPhone og Samsung, nærfatnaður og myndavél. Allt voru þetta munir í eigu stúlknanna. En engin ummerki voru um Lisanne og Kris. Leit var því haldið áfram á svæðinu næstu daga og nokkrum dögum síðar bar hún árangur. Líkamsleifar fundust, meðal annars bein úr mjaðmagrind og skór með leifum af fæti. Rannsókn leiddi í ljós að þetta voru líkamsleifar Lisanne og Kris en ekki var hægt að skera úr um dánarorsök þeirra.

Sumir telja að önnur þeirra, eða jafnvel báðar, hafi dottið og slasast og síðan dáið úr hungri og þorsta. Aðrir telja að dýr hafi orðið þeim að bana.

Munirnir sem fundust.

Rannsókn leiddi í ljós að þær hafi vitað að þær voru í vanda því þær höfðu reynt að hringja í neyðarlínuna nokkrum klukkustundum eftir að þær lögðu af stað í ferðina örlagaríku. Þær náðu ekki sambandi við neyðarlínuna þar sem ekkert farsímasamband var á svæðinu. Einnig kom í ljós að þær höfðu ítrekað kveikt og slökkt á farsímum sínum næstu 10 daga að minnsta kosti. Í síðasta sinn klukkan 10.51 þann 11. apríl. Þá kveiktu þær á síma en slökktu á honum tæpri klukkustund síðar án þess að reyna að hringa á þessum tíma. Þetta var síðasta lífsmarkið frá þeim.

En það voru myndirnar í myndavélum þeirra sem vöktu mesta athygli. Þær höfðu tekið um 100 myndir í gönguferðinni. Á sumum þeirra eru þær glaðar og brosandi í fallegri náttúrunni. Myndir sem áttu að vera góð minning um ferðina. En það voru einnig aðrar og dularfullar myndir á vélunum. Þær voru teknar átta dögum eftir að þær hurfu. Þær voru teknar í niðamyrkri og í raun er ekkert að sjá á þeim. Á einni þeirra er hægt að greina eitthvað annað en landslag, tvo rauða plastpoka.

Ekki er enn vitað hvort þær tóku þessar myndir, hvort þetta var þeirra leið til að segja umheiminum að þær væru á lífi. Eða tóku þær myndirnar til að reyna að sjá eitthvað í myrkrinu? Eða voru það kannski ekki þær sem tóku myndirnar?

Þessum spurningum er enn ósvarað og verður líklega aldrei svarað frekar en spurningunni um hvað varð þeim að bana. Var það slys, voru villidýr að verki eða voru þær myrtar? Rannsókn, sem fór fram 2017, á málinu sáði efasemdum um rannsókn yfirvalda á málinu á sínum tíma og ekki var talið hægt að útiloka að málið tengdist morðum á svæðinu á þessum tíma.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Áttræð kona lét lífið út af bilun í rafmagnsrúmi – „Hún þjáðist allan tímann“

Áttræð kona lét lífið út af bilun í rafmagnsrúmi – „Hún þjáðist allan tímann“
Pressan
Fyrir 2 dögum

Dularfullir drónar herja á New Jersey – Enginn veit hvaðan þeir koma eða hvers vegna þeir eru þarna

Dularfullir drónar herja á New Jersey – Enginn veit hvaðan þeir koma eða hvers vegna þeir eru þarna
Pressan
Fyrir 3 dögum

Tik-Tok-maðurinn dæmdur

Tik-Tok-maðurinn dæmdur
Pressan
Fyrir 3 dögum

Fann bróður sinn eftir 25 ára aðskilnað – Nú hefur sagan tekið óvænta og ljóta stefnu

Fann bróður sinn eftir 25 ára aðskilnað – Nú hefur sagan tekið óvænta og ljóta stefnu