fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Pressan

Stórtíðindi af flugi MH370 – Sérfræðingar telja sig hafa staðsett flakið

Kristján Kristjánsson
Miðvikudaginn 8. desember 2021 05:46

MH370 hvarf með 239 manns um borð.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hvarf flugs MH370 þann 8. mars 2014 er eitt dularfyllsta flugvélahvarf sögunnar ef ekki það dularfyllsta. Vélin hvarf þegar hún var á leið frá Kuala Lumpur í Malasíu til Peking í Kína. Um borð voru 239 farþegar og áhafnarmeðlimir. Smávegis brak úr vélinni hefur fundist en ekkert annað og þrátt fyrir gríðarlega mikla leit hefur flak vélarinnar ekki fundist. Nú telja sérfræðingar sig hafa fundið staðinn þar sem flak vélarinnar er.

Flakið er ekki fundið en sérfræðingar segjast vita hvar það er. Þetta byggja þeir á notkun nýrrar tækni og þekktum fyrirbærum á borð við hafstrauma. Þeir telja að flakið sá á um 4.000 metra dýpi á hafsvæði sem kallast Broken Ridge en það er um 1.900 km vestan við Perth í Ástralíu. Svæðið er mjög hæðótt.

Einn sérfræðinganna er breski verkfræðingurinn Richard Godfrey en hann er einn stofnanda sérfræðingahópsins MH370 Independent Group. Hann telur að staðsetning flaksins verði endanlega ljós á síðari helmingi næsta árs þegar búið verður að senda leitarteymi af stað.

En hvort það muni leysa málið er síðan annað mál. Örlög flugvélarinnar hafa verið stór ráðgáta allt frá upphafi og leitin að henni hefur hvað eftir annað vakið heimsathygli og samsæriskenningar hafa svo sannarlega blómstrað.

Málið hófst með tilkynningu um að flug MH370, frá Malaysia Airlines, hefði horfið yfir Suður-Kínahafi, undan ströndum Víetnam, um klukkustund eftir flugtak frá Kuala Lumpur þann 8. mars 2014 en vélin var á leið til Peking.

Tæpum sólarhring síðar beindist leitið að Indlandshafi því flugvélinni hafði verið snúið við og henni flogið í sikksakk yfir Malasíu, fram hjá Indónesíu og suðureftir yfir Indlandshaf. Hægt var að sjá hluta af flugleiðinni en þess hafði verið gætt að slökkva á staðsetningarbúnaði vélarinnar sem hefði undir eðlilegum kringumstæðum gert að verkum að auðvelt væri að rekja ferðir vélarinnar. Þess í stað voru tölvuforrit látin reikna út hversu lengi vélin hefði getað verið á lofti áður en eldsneytið þraut. En samtímis voru samsæriskenningar á lofti um að vélinni hefði verið lent á Diego Garcia, í fjalllendi í Afganistan og jafnvel í Amsterdam.

Það var ekki fyrr en 18 mánuðum eftir hvarf vélarinnar sem fyrsta brakið úr henni fannst en það var á eyjunni Reunion sem er við austurströnd Afríku. Eftir það fannst brak á Madagaskar, Tansaníu, Máritíus og Suður-Afríku. Nú hafa 33 hlutir úr vélinni fundist svo vitað sé með fullri vissu. Það er því hægt að slá því föstu að vélin, sem var af gerðinni Boeing 777, hrapaði í sjóinn.

En hvernig og af hverju eru spurningar sem enn er ósvarað. Bakgrunnur flugmanna og farþega hefur verið rannsakaður ofan í kjölinn án þess að nokkuð hafi fundist sem geti varpað ljósi á hugsanlega ástæðu þess að einhver þeirra, sem var um borð í vélinni, hafi grandað henni.

Árum saman var leitað að vélinni á gríðarlega stórum hafsvæðum en leitinni var að lokum hætt 2018 en þá var kostnaðurinn við hana kominn upp í sem nemur 20,6 milljarða íslenskra króna. Ríkisstjórnirnar í Ástralíu, Malasíu og Kína ákváðu þá að leit skyldi hætt en hétu því að hefja hana á nýjan leik ef nýjar og áreiðanlegar upplýsingar kæmu fram um hvar vélin sé. Nú virðist sem slíkar upplýsingar séu komnar fram. Einn sérfræðinganna hefur lýst því yfir að hann sé svo viss um að sérfræðingahópurinn hafi rétt fyrir sér að hann sé reiðubúinn að leggja húsið sitt að veði. Richard Godfrey er einnig viss í sinni sök og segist geta fullyrt að vélin hafi skollið í hafið klukkan 08.19.

Hópurinn telur að flakið sé 28-35 km frá jaðri þess svæðis sem síðast var leitað á.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 4 dögum

Unglingur dæmdur í ævilangt fangelsi – Stakk ellilífeyrisþega í hjartað

Unglingur dæmdur í ævilangt fangelsi – Stakk ellilífeyrisþega í hjartað
Pressan
Fyrir 4 dögum

Konur lýstu hegðun hans á Facebook – Nú krefst hann bóta

Konur lýstu hegðun hans á Facebook – Nú krefst hann bóta
Pressan
Fyrir 5 dögum

Stillti sér upp á mynd fyrir eiginmanninn – Andartökum síðar var hún látin

Stillti sér upp á mynd fyrir eiginmanninn – Andartökum síðar var hún látin
Pressan
Fyrir 5 dögum

9 ára stúlka lést eftir astmakast – Foreldrarnir létu renna í bað í stað þess að hringja á neyðarlínuna

9 ára stúlka lést eftir astmakast – Foreldrarnir létu renna í bað í stað þess að hringja á neyðarlínuna