Skórnir hans Marty McFly orðnir að veruleika – Skynjari á sólanum sér til þess að þeir séu hæfilega aðþrengdir
Sjálfreimandi skór frá íþróttavörumerkinu Nike verða fáanlegir síðar á þessu ári. Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa nú birt myndband þar sem nýju og byltingarkenndu skórnir eru kynntir til leiks.
Skórnir heita Nike HyperAdapt 1.0 og verða fáanlegir fyrir viðskiptavini í Nike+ síðar á þessu ári. Skórnir eru sem fyrr segir sjálfreimandi og mun skynjari á sólanum sjá til þess að þeir séu hæfilega aðþrengdir þegar að stigið er í þá.
Segja má að beðið hafi verið eftir skónum með töluverðri eftirvæntingu frá árinu 1989. Þá klæddist Marty McFly, söguhetja kvikmyndanna Back to the future, sjálfreimandi Nike-skóm í Back to the Future 2. Sú mynd gerist árið 2015 og bjuggust margir við að Nike myndi koma með skónna á markað það ár.
Það gekk hins vegar ekki eftir en nú aðeins örfáum mánuðum eftir að Marty klæddist skónum, árið 2015, er ljóst að þeir séu orðnir að veruleika.