fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Kynning

„Lífleg“ jarðarför á Ströndum

Kynning
Jóhanna María Einarsdóttir
Fimmtudaginn 28. nóvember 2019 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sá ágæti tónlistarkennari og kórstjóri, Guðmundur Norðdahl, starfaði eitt sinn í Þingeyjarþingi og stýrði m.a. karlakórnum Hreimi. Hann starfaði á árum áður í Djúpuvík á Ströndum meðan hjól atvinnulífsins snerust af krafti þar í sveit. 

Bar þá eitt sinn við á Ströndum að maður, sem mun hafa verið síðasti dannebrogsmaður landsins, hvarf yfir móðuna miklu og þurfti því að hola kallinum niður. Þegar þetta gerist er organisti þeirra Strandamanna staddur erlendis og því enginn slíkur til að annast spilverk við útförina.

Einhverjir höfðu orðið þess áskynja að Guðmundur væri liðtækur tónlistarmaður (reyndar á blásturshljóðfæri), og úr varð að haft var samband við hann og það fært í tal hvort hann gæti, þó ekki væri nema spilað hljómana við þessa algengustu útfararsálma á kirkjuorgelið. Guðmundur taldi að það gæti blessast fyrst málið væri ekki flóknara en svo, en kvaðst þó lítið hafa fengist við orgelleik.

Hefst svo útförin í Árneskirkju og Guðmundur spilar hljóma undir með kirkjukórnum og allt gengur áfallalaust. Að loknum sálmasöng skellir kallinn aftur lokinu á orgelinu og hrósar hróðugur happi yfir afrekum sínum. En það var skammgóður vermir því stuttu síðar er hnippt í afleysingaorganistann og hvíslað: „Eftirspilið, maður! Eftirspilið!“

Guðmundur sviptir í ofboði upp lokinu á orgelinu, hugsar sig um smá stund og síðan hljómaði af miklum krafti yfir forviða jarðarfarargesti:

„Við göngum svo léttir í lundu, því lífsgleði blasir oss við!“

Þessa sögu og margar fleiri er að finna í nýútkominni bók 105 „SANNAR“ ÞINGEYSKAR LYGASÖGUR, í samantekt hins eitursnjalla ritstjóra á Húsavík, Jóhannesar Sigurjónssonar.

 

*

Þar er þessa sögu einnig að finna og gefum við nú Bjarna Hafþóri Helgasyni orðið og rifjar hann hér upp eftirminnilega danskennslu hjá hinni nafntoguðu Rigmor Hansen sem fór um landið á sínum tíma oig kenndi ungmennum danslistina:

„Ég fór í tíma hjá Rigmor en man því miður ekkert af því sem fram fór. Það eina sem situr fast í minninu er að fyrir síðasta tímann setti pabbi á mig Old Spice úr hvítri flösku. Þó lyktin væri strax yfirþyrmandi í baðherberginu í Grafarbakka man ég miklu betur eftir því hvernig hann klappaði vökvann í andlitið á mér. Hann hafði stóra hramma sem nánast umluktu á mér höfuðið og vandaði sig mikið, gerði þetta þannig að útilokað væri að vökvinn læki nokkurn tímann niður af andlitinu á mér. Í danstímanum leit fólk flóttalega í allar áttir og spurði hvort það væri nýbúið að mála salinn.“

 

*

Börkur Hrólfsson segir í bókinni frá heimsókn Margrétar Þórhildar Danadrottningar til Mývatnssveitar á síðustu öld:

„Boðið var uppá hádegisverð í Hótel Reynihlíð og skyldi hinn víðfrægi Mývatnssilungur vera aðalrétturinn. En það var einn hængur á. Veiði var afarslök í Mývatni og ekki til nægur Mývatnssilungur. Hvað var til ráða?

Jú, haft var samband við Gautapilta á Gautlöndum og þeir beðnir um að bjarga heiðri Mývetninga. Við æddum vestur á heiði og lögðum net – fyrir Danadrottningu. Og veiddum vel, enda veiðin í Sandvatni með besta móti þessi árin. 

Við höfum það fyrir satt að drottning hafi svo fengið nýveiddan Sandvatnssilung á diskinn sinn. Og átti hin eðla frú varla til orð til að lýsa hrifningu sinni á „Mývatnssilungnum“ og sagði þetta besta fisk, sem hún hafði nokkurntíma etið!“

105 „SANNAR“ ÞINGEYSKAR LYGASÖGUR fæst í öllum bókabúðum og einnig í nokkrum verslunum stórmarkaðanna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Kynning
13.12.2023

Hlífðarpúðar sem aðlagast líkamanum vegna einstakrar tækni

Hlífðarpúðar sem aðlagast líkamanum vegna einstakrar tækni
Kynning
28.11.2023

Skúli fann heilsuna aftur í Póllandi – „Lífsgæði mín löguðust umtalsvert frá því að vera algjör sjúklingur eða öryrki yfir í að komast aftur á vinnumarkaðinn“

Skúli fann heilsuna aftur í Póllandi – „Lífsgæði mín löguðust umtalsvert frá því að vera algjör sjúklingur eða öryrki yfir í að komast aftur á vinnumarkaðinn“
Kynning
31.03.2023

Glæsilegir vinningar í Páskaleik DV: Taktu þátt fyrir 5. apríl

Glæsilegir vinningar í Páskaleik DV: Taktu þátt fyrir 5. apríl
Kynning
29.03.2023

Miklu meiri lífsgæði með Protis Liðum

Miklu meiri lífsgæði með Protis Liðum