fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Mannasaur í gólfdúknum – „Þetta er eins og geymsla sem enginn nennir að taka til í“

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 11. maí 2019 10:42

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ár er síðan húsnæðislausu fólk sem dvaldi á tjaldsvæðinu í Laugardal var hvatt til að flytja inn í herbergi í Víðinesi. Um helmingur þáði það en margt hefur farið úr skorðum og flutningurinn virðist hafa verið gerður í flýti. „Þetta er eins og geymsla sem enginn nennir að taka til í,“ sagði gestur hjá einum íbúanum sem tekið hefur að sér að elda fyrir nokkra íbúa. Í dag eru níu einstaklingar í Víðinesi.

Sumir mannanna eru sáttir við vistina í Víðinesi, eins og Svanur Elíasson sem DV ræddi við þann 5. apríl síðastliðinn. En aðrir síður og ástandið er mjög misjafnt eftir göngunum. Svanur býr á minni ganginum sem er mun betur hirtur en sá stærri. Líkt og aðrir kvartaði Svanur þó yfir þeirri óvissu sem ríkir um staðinn.

Þrif eru lamasessi, vegurinn slæmur, rafmagnið stopult, nagdýr plaga íbúana og ekkert fyrir þá að gera. Þar að auki vita íbúarnir ekki hverjar framtíðarhorfurnar eru á staðnum því ákvörðun borgarinnar liggur ekki fyrir þó langt sé um liðið.

Sigurlaug Guðný Ingólfsdóttir fer fyrir Kærleikssamtökunum, sem hafa þann tilgang að vinna með einstaklingum sem hafa orðið fyrir áföllum í lífinu og ná sér ekki aftur á strik. Hún, ásamt öðrum í samtökunum, hefur krafið borgina um svör og boðið fram aðstoð samtakanna, en fengið litlar undirtektir. DV ræddi við Sigurlaugu og Sigþrúði Erlu Arnardóttur hjá Reykjavíkurborg um málið.

 

Eldhúsið
Saur fastur í gólfdúknum.

Mannlegur úrgangur fastur í dúknum

Víðines var first um sinn hjúkrunarheimili fyrir heilabilaða, um tíma var það áfangaheimili fyrir áfengissjúklinga og síðast bjuggu þar hælisleitendur. Þegar blaðamaður kom inn á stærri ganginn í Víðinesi var þar mjög óþrifalegt, svo vægt sé tekið til orða, og fólki ekki bjóðandi. Stór ástæða fyrir þessu er að í september síðastliðnum brast rotþró og mannlegur úrgangur flæddi upp um öll ræsi, vaska og salerni. Skömmu síðar komu starfsmenn velferðarsviðs og kjörnir fulltrúar Reykjavíkurborgar til þess að kanna aðstæður og þurftu að halda fyrir vit sér vegna ólyktar. Var íbúunum sagt að þrífa, og segjast þeir hafa reynt hvað þeir gátu en úrgangurinn er fastur í dúknum.

Fyrir síðustu jól komu starfsmenn ræstingafyrirtækis með stóra vél en jafnvel hún dugði ekki til að fjarlægja úrganginn. Enn þá sjást mikil ummerki þess sem gerðist á gólfunum og innréttingum á baðherbergi og eldhúsi. Gólfdúkurinn er ónýtur. Auðsjáanlegt er að rífa þyrfti allt inni í þessum herbergjum og leggja nýjan dúk og innréttingar.

 

Sturtan
Mygla kom í gegnum málningu.

Mygla í lofti

Mygla er eitt af vandamálunum í Víðinesi. Sérstaklega er hún áberandi á baðherbergi þar sem íbúar hafa sturtuaðstöðu. Einn telur að málað hafi verið yfir mygluna áður en núverandi íbúar komu þangað. Íbúarnir hafa nú dvalið þarna í um það bil ár og hafa sumir þeirra fundið fyrir einkennum; öndunarfæravandamálum, lungnabólgu, svima, húðvandamálum og slappleika sem þeir kannast ekki við að hafa haft áður. Ekki er þó hægt að fullyrða að svo stöddu að það sé vegna myglunnar, en mygla getur haft mjög slæm áhrif á heilsu fólks. Hafa ber í huga að flestir íbúanna eru ekki í fastri vinnu og Víðines mjög afskekkt. Verja íbúarnir því jafnan mjög miklum tíma innandyra  þar.

 

Mikill munur á göngum

Reykjavíkurborg réði verktaka sem umsjónarmann og býr hann á staðnum. Hann á að sjá um þrif í húsinu en augljóst er að skyldur hans hafa ekki verið uppfylltar. Athygli vekur að langtum þrifalegra er á þeim gangi sem hann dvelur á en stærri ganginum þar sem fleiri leigja. Tveir húsfundir voru haldnir fyrir áramót og var þá falast eftir, af hálfu borgarinnar, að leigjendur tækju sjálfir að sér þrifin. Einstaklingur sem var með verktakasamning umsjónarmannsins undir höndum benti á að umsjónarmaðurinn ætti að sinna þessu og engin niðurstaða varð af fundinum. Ekki hafa verið haldnir húsfundir eftir þetta.

Sigurlaug segir:

„Þegar staðurinn var opnaður sendu Kærleikssamtökin inn erindi og óskuðu eftir því að verða umsjónaraðili hérna, því við vissum að það þyrfti að vera utanumhald. Það var afþakkað af velferðarsviði og núverandi verktaki ráðinn. Okkur vitandandi var ekki auglýst í starfið. Þú sérð hvernig þetta er, það væri alveg eins hægt að sleppa þessu miðað við hvernig þetta hefur gengið.“

Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, segir:

„Varðandi þrif þá er umsjónarmaður á staðnum sem sér um þrif á sameign. Svo er það á höndum íbúa að sjá um sín rými. Rétt fyrir jól voru keypt alþrif og allt almenna rýmið þrifið hátt og lágt.“

Blaðamaður DV leit ekki nema rétt svo inn í herbergin sjálf. Óþrifnaðurinn í almenna rýminu er gríðarlegur eins og myndirnar sýna.

 

Tindur Gabríel
Íbúi í Víðinesi sem lést í bílslysi á veginum.

Banaslys á veginum

Staðsetningin hefur mikið að segja fyrir íbúana í Víðinesi. Húsið er staðsett á Kjalarnesi, handan sorphauganna í Álfsnesi. Langan tíma tekur að keyra í bæinn og aðeins fáir íbúar með bíl til umráða. Á veturna er vegurinn verulega slæmur vegna hálku og oft er hvassviðri á þessum stað. Leigubílar keyra í Mjóddina klukkan 11 og svo aftur til baka klukkan 17. Lítið er um að vera og íbúarnir kvarta yfir leiðindum. Einn hefur tekið upp á því að setja upp verkstæði í sameiginlegu rými á ganginum og gerir þar við vélhjól. Þrír eru færir skákmenn með fjölda ELO-stiga en ekkert skákborð er á staðnum. Þegar DV bar að garði voru margir inni í herbergjum sínum. Hvað varðar samband íbúanna segja þeir það vera ágætt og lítið um alvarlegt ósætti.

Þegar hefur orðið eitt banaslys á veginum sem er mjög holóttur og bugðóttur. Ingimundur Valur Hilmarsson, sem kallaði sig Tind Gabríel, bjó í Víðinesi en hann var þekktur maður úr miðborg Reykjavíkur. Í september var hann á leið frá Víðinesi en keyrði út af, velti bílnum og lést á Landspítalanum af áverkunum.

Annar íbúi stórskemmdi bílinn sinn í einni af ótal holum í innkeyrslunni og á veginum sjálfum. Höfðu íbúar tilkynnt um þessa holu en þær tilkynningar virðast hafa „glatast.“ Miklu máli skiptir að hafa bíl til umráða á svæðinu og missti sá íbúi og fleir því mikla virkni því hann skutlaði mönnum og fór í bíltúra. Málið var kært en útlit er fyrir að íbúinn muni sitja uppi með tjónið.

Sigþrúður Erla viðurkennir að vegurinn að Víðinesi sé óleyst mál og áhöld um hver eigi að sinna viðhaldinu.

„Vegurinn er malarvegur sem Vegagerðin heldur utan um, sem skilaði honum einhliða til Reykjavíkurborgar skömmu eftir 2008 án samþykkis Reykjavíkurborgar.“

 

Miði settur upp
Takmörkun á fundarhöldum.

Takmörkun á fundarhöldum

Athygli vekur að við inngang Víðiness var hengdur upp miði þar sem stóð að fundarhöld félagasamtaka í húsinu væru bönnuð nema með leyfi. Eins og sést á myndinni mætti skilja miðann sem svo að leyfið þyrfti að koma frá stýrihóp á vegum borgarinnar. Sigþrúður Erla segir hins vegar að leyfið þyrfti að koma frá öllum íbúum staðarins.

Einnig fór fyrir brjóstið á íbúum að á miðanum stæði „stýrihópur fyrir málefni utangarðsfólks“ og að allir væru settir undir sama hatt.

Einn íbúinn, sem ekki vildi láta geta síns nafns, segir:

„Utangarðsmenn? Þetta er orð sem var notað yfir þá sem voru jarðaðir utan garðs. Þeir voru að minnsta kosti dauðir en ég er lifandi enn þá. Það er verið að sjúkdómsgreina okkur alla með fíknisjúkdóm eða geðsjúkdóm. Ég hef ekki farið ég gegnum greiningu af neinum toga.“

 

Stærri gangurinn
Nagdýr komast auðveldlega inn í herbergin.

Rottur og rafmagnsleysi

Návígið við sorphaugana gerir það að verkum að nagdýr eru daglegir gestir í Víðinesi. Mýsnar koma inn í húsið og komast auðveldlega inn í þröskuldalaus herbergin. Naga þær allt og éta það sem tönn á festir, mat og fatnað. Á svæðinu um kring halda til rottur, sumar á stærð við ketti að sögn íbúa.

Annað sem er bagalegt fyrir íbúana er rafmagns- og eldvarnakerfið. Rafmagnið dettur út og inn og eldvarnakerfið sömuleiðis. Í eitt skipti hefur komið upp eldur herbergi, í ruslagám fyrir utan húsið og gátu íbúar ekki slökkt eldinn með slökkvitæki því það var tómt. Hefur það ekki verið fyllt síðan. En eldvarnakerfið ýlir í tíma og ótíma.

Sigþrúður Erla segir viðhald eignarinnar vera á höndum umhverfis- og skipulagssviðs:

„Rafmagni sló út tvívegis vegna eldingaveðurs og brann þá yfir tengibox á vegum Orku náttúrunnar. Nú hefur verið skipt um það og ætti rafmagn því að vera í lagi.“

Rafmagnið datt stuttlega út á meðan blaðamaður DV heimsótti Víðines.

 

Rannsókn án skýrslu

Sigurlaug segir að í kringum jólin hafi Kærleikssamtökin óskað eftir neyðarfundi vegna ástandsins í Víðinesi, og reyndar líka á tjaldsvæðinu í Laugardalnum. Þá hafi íbúum verið löngu farið að blöskra ástandið. Erindi var sent á velferðarsvið og fleiri aðila innan borgarinnar, borgarfulltrúa, félagsmálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið.

„Sviðstjóri velferðarsviðs brást hratt við og sagði það alvarlegt sem hún var að lesa og málið yrði kannað. Sama dag eða degi seinna var okkur tilkynnt að rannsókn hefði farið fram og engin ástæða til neyðarfundar,“ segir Sigurlaug. „Ég bað um skýrsluna og þurfti að fara í gegnum úrskurðarnefnd upplýsingamála til að fá hana. Þá kom fram að rannsókn hefði farið fram en engin skýrsla gerð,“ segir hún.

Hvað á að gera við Víðines?

Í september síðastliðnum var stofnaður starfshópur til að svara þeirri spurningu hvað eigi að gera við Víðines. Sá hópur skilaði af sér skýrslu um mánaðamótin október-nóvember. Í febrúar var Kærleikssamtökunum og öðrum félagasamtökum sem málin varða kynnt sú hugmynd að opna áfangaheimili í einu húsi á Víðinesi og föst búseta yrði í hinu. Við hlið hússins í Víðinesi stendur annað, mun stærra, autt. Síðan þá hafa málin verið í biðstöðu en níu manns leigja herbergi eins og er.

Staðan í Víðinesi er mjög óljós eins og er og eitt helsta vandamálið er vöntun á skilgreiningu staðarins. Frá borginni hafa heyrst skilgreiningar eins og áfangaheimili, leiguherbergi, skammtíma búsetuúrræði, neyðarúrræði og „hálfgert neyðarúrræði.“ Lagður var fram dvalarsamningur við íbúa sem var sagður sams konar samningur og væri notaður fyrir áfangaheimili. Voru samningarnir kærðir þar sem áfangaheimili eru starfsleyfisskyld starfsemi en almenn leiga er það ekki. Engin endurhæfing eða meðferð fer þar fram..

Aðspurð segir Sigþrúður Erla að Víðines sé skilgreint sem bráðabirgðahúsnæði fyrir einstaklinga sem eru húsnæðislausir, færir um að koma sér sjálfir til og frá staðnum og eru ekki með skilgreindan vímuefnavanda. Þær forsendur hafi verið settar í upphafi þar sem Víðinesið var hugsað sem neyðarúrræði til að bjóða þeim sem voru á tjaldsvæðinu í Laugardal húsaskjól. Hún segir:

„Lögð hefur verið áhersla á að allir íbúar hafi málstjóra, félagsráðgjafa sem vinnur með íbúanum að langtíma lausn í húsnæðismálum. Einnig hefur Reykjavíkurborg boðið einstaklingum upp á stuðning Vettvangs og ráðgjafateymisins (VOR teymisins) sem mætir í Víðines að lágmarki einu sinni í viku. Með því er verið að bjóða upp á aukinn stuðning við að finna framtíðarlausn og auðvelda íbúum tengingu við þjónustumiðstöðvar, óski þeir eftir því.“

Sigurlaug Guðný Ingólfsdóttir
Hjá Kærleikssamtökunum.Engum hleypt inn

Nýlega var haldinn fundur með íbúunum þar sem þeir áttu að fá fréttir af framtíðarskipulaginu en engin endanleg niðurstaða kom fram. Þó fannst þeim eins og líklegt væri að starfsemin yrði þarna lengur og verið væri að leita að rekstraraðila til að taka þetta að sér. Sigþrúður Erla segir að tillögur þess efnis hafi verið lagðar fram á fundi velferðarráðs 25. apríl.

„Tillögurnar hafa verið sendar til umsagnar. Reykjavíkurborg hefur lagt mikið upp úr því að bjóða íbúum aðstoð við að finna framtíðarlausn og fara starfsmenn reglubundið upp í Víðines síðan ljóst var að breytingar væru væntanlegar á framtíðarrekstri hússins. Starfsmenn munu halda því áfram á meðan þörf krefur og íbúar óska eftir því.“

Sigþrúður Erla Arnardóttir
Framkvæmdastjóri þjónustumiðstöðvar.

Eins og DV greindi frá í síðustu viku standa herbergi auð í Víðinesi og borgin vill ekki taka við fleirum þar inn síðan í september. Margir heimilislausir, sem ganga um götur Reykjavíkurborgar, eru búnir að fá sig fullsadda af gistiskýlinu við Lindargötu, enda mikið um sprautufíkla og ofbeldi daglegt brauð. Að sögn Sigurlaugar væru sumir þeirra fegnir að komast í herbergi í Víðinesi. Hún segir:

„Við skiljum ekki forgangsröðunina. Þau segjast ætla að einbeita sér að því að hjálpa þeim sem eru hérna fyrir, en hér er allt í biðstöðu og ekkert að frétta. Það er ekki verið að hjálpa fólkinu hér. Á meðan er fólk á götunni í Reykjavík eða býr í bílunum sínum. Hér hafa allan tímann staðið auð herbergi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum
Fréttir
Í gær

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dönsk stjórnvöld búa sig undir stríð – Hyggjast þvinga fólk til að gegna herþjónustu

Dönsk stjórnvöld búa sig undir stríð – Hyggjast þvinga fólk til að gegna herþjónustu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fullt hús á netöryggisráðstefnu Syndis

Fullt hús á netöryggisráðstefnu Syndis
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fjallar um fordóma gegn Baldri – „Hafa litlu mennirnir fengið háværari rödd?“

Fjallar um fordóma gegn Baldri – „Hafa litlu mennirnir fengið háværari rödd?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Yfirmaður á hjúkrunarheimili snýr til baka úr leyfi í skugga ásakana um áreitni við ungt starfsfólk

Yfirmaður á hjúkrunarheimili snýr til baka úr leyfi í skugga ásakana um áreitni við ungt starfsfólk