fbpx
Fimmtudagur 24.júlí 2025
Fréttir

Íslendingar af erlendum uppruna búnir að fá nóg – „Þau eru ekki ógn við samfélagið“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 23. júlí 2025 18:00

Jasmina Vajzovic, Nichole Leigh Mosty og Ian McDonald (mynd: Efling) eru fædd og að mestu uppalin í öðrum löndum en hafa öll búið í mörg ár á Íslandi og eru orðin Íslendingar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nokkrir Íslendingar af erlendum uppruna gagnrýna harðlega aukna andúð hér á landi í garð útlendinga sem tekið hafa upp búsetu hér og margir hverjir orðið íslenskir ríkisborgarar. Segjast þeir hafa fengið endanlega nóg af þróuninni eftir stofnun samtakanna Skjöldur Íslands sem samanstanda af aðallega karlmönnum, en sumir þeirra hafa hlotið dóma fyrir ofbeldisbrot, sem segjast ætla að vernda landsmenn fyrir ofbeldi af hálfu útlendinga. Liðsmenn samtakanna eru sérstaklega gagnrýndir fyrir að nota sem einkennismerki sitt tákn sem þykir vera með fasísku ívafi.

Jasmina Vajzovic er fædd í Bosníu Hersegóvínu en kom hingað til lands sem flóttamaður þegar hún var 15 ára í kjölfar stríðsátakanna í landinu á tíunda áratug síðustu aldar og hefur búið hér síðan og er fyrir löngu orðin íslenskur ríkisborgari. Hún starfar í dag sem ráðgjafi og hefur unnið mikið að málefnum landsmanna af erlendum uppruna. Jasmina hefur einnig verið bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ og boðið sig fram til Alþingis fyrir Viðreisn en hlaut ekki brautargengi í flokknum. Hún hefur verið mjög virkur þátttakandi í umræðum um málefni fólks af erlendum uppruna hér á landi, í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum.

Alltaf kennt um

Jasmina gagnrýnir til að mynda hvernig fólki af erlendum uppruna sé iðulega kennt um öll helstu vandamál samfélagsins og hversu illa hefur gengið að gera þennan hóp að virkum hluta samfélagsins.

Meðal annars þess sem fram kemur í einni af færslum Jasminu á samfélagsmiðlum er að hún hafi fyrr í vikunni hlustað á útvarpsþátt þar sem glæpir „útlendinga“ hafi verið til umræðu hjá hlustendum sem hringdu inn í þáttinn:

„Þrír þeirra kenndu „útlendingum“ um glæpi, fíkniefni, hnífsstungur og vaxandi ofbeldi í samfélaginu. Einn sagði orðrétt: „Útlendingar keyra fíkniefni og gefa íslensku börnunum okkar.“ Þegar stjórnandi þáttarins minnti á að Íslendingar sjálfir selji einnig fíkniefni, svaraði viðmælandinn: „Ekki blanda Íslendingum í málið – þau eru ekki til umræðu hér.“ En við skulum blanda Íslendingum í málið. Það þarf nefnilega að leiðrétta hrópandi ranghugmyndir með staðreyndum.“

Jasmina vísar til niðurstaðna rannsókna Margrétar Valdimarsdóttur þar sem fram kemur meðal annars að afbrotum hafi ekki fjölgað á Íslandi og segir því ekki standast að með auknum fjöla innflytjenda fjölgi glæpum. Hún bætir við um rannsóknir Margétar:

„Margrét bendir líka á að ungt fólk með innflytjendabakgrunn upplifir sig utanveltu og mætir fordómum og félagslegri útilokun – ekki öfugt. Þau eru ekki ógn við samfélagið; samfélagið hefur ítrekað sýnt þeim að þau séu ekki velkomin. Og þegar þau heyra aftur og aftur að þau séu vandamálið, þá er það ekki skrítið að einhverjir hverfi inn í skugga jaðarsetningar – en sú leið er ekki valin, heldur þröngvað upp á þau.“

Skjöldurinn

Jasmina gerir samtökin Skjöldur Íslands að umtalsefni en það er eins og áður segir hópur manna sem segist ætla að verja almenning fyrir ofbeldi útlendinga en liðsmenn þeirra hafi sumir hverjir hlotið dóma fyrir ofbeldi:

„Þetta eru einstaklingar sem samkvæmt eigin orðum hafa tengst undirheimum, hótunum og vopnaburði – en nú eru þeir að setja sig í hlutverk „verndara þjóðarinnar. … Saklaus ungmenni með innflytjendabakgrunn eru stöðugt sett undir grun vegna mennsku sinnar, vegna tungumáls, húðlitar eða uppruna. Glæpamenn með íslenskan bakgrunn eru teknir alvarlega þegar þeir tala um að „bjarga þjóðinni.“ … Af hverju eru þeir sem brjóta lög og ógna öryggi annarra teknir í sátt ef þeir eru Íslendingar – en hinir útilokaðir fyrir það eitt að vera til? Það þarf að stöðva þessa orðræðu. Ekki með aukinni „samræðu um fjölmenningu“ – heldur með því að neita að taka þátt í þessu viðbjóði. Fotdæma hart og opinberlega þessari þróun.“

Nichole Leigh Mosty tekur heilshugar undir með Jasminu. Nichole er upprunalega frá Bandaríkjunum en hefur búið á Íslandi síðan 1999. Hún hefur meðal annars setið á Alþingi fyrir Bjarta Framtíð og verið forstöðukona Fjölmenningarseturs. Í færslu á samfélagsmiðlum skrifar Nichole um Skjöld Íslands:

„Ég er komin með nóg og veit að ég stend ekki ein. Ég las viðbrögð fólks, flest íslenskt, hér á samfélagsmiðlum í gær vegna vondrar þróunar sem hefur sprottið upp hjá hópi sem vill kalla sig „verndara Íslands“. Þetta er komið á mjög hættulega slóð … Hvað haldið þið að ferðamenn upplifi við að sjá svona hóp með þetta merki ganga um götur að nóttu til? Ég sat í starfshópi fyrrverandi forsætisráðherra um hatursorðræðu… kannski ágætt að klára þá vinnu. Innflytjendur (óháð hvernig þeir hafa fengið landvistarleyfi) hafa bætt íslenskt samfélag en það að íslenskt samfélag og yfirvöld hafa ekki lagt nóg í að tryggja inngildingu allra skilur eftir gjá sem menn vilja fylla með tortryggni, fordómum og rangfærslum.“

Nóg

Í aðsendri grein á Vísi, sem ber titilinn Hverjir eru komnir með nóg?, nefnir Nichole ýmis dæmi um fólk af erlendum uppruna á Íslandi sem sé mögulega komið með nóg af ástandinu:

„Kannski er það leigubílstjórinn sem var beittur ofbeldi vegna þess að hann er ekki fæddur á Íslandi. … Kannski er það maður sem hefur sótt fjögur íslenskunámskeið en mætir fólki á hverjum degi sem talar bara ensku við hann, þó að hann sé sjálfur ekki enskumælandi. … Kannski er það ég sem er orðin þreytt. Ég tala hér fyrir stóra hópa þegar ég segi við höfum margoft upplifað það að við séum vanmetin og munum alltaf vera það, eingöngu vegna okkar uppruna. Við erum orðin þreytt af því að það skiptir ekki máli hversu mikið við vinnum, hversu hratt við hlaupum, hversu mikið við lærum og reynum að bæta okkur, það mun alltaf vera hluti af samfélaginu sem vill fá okkur burt, sem vill gera okkar tilveru tortryggileg.“

Um Skjöld Íslands segir Nicole í greininni:

„Ég held að það séu fleiri sem standa með mér í að segja… við erum komnir með nóg, leyfa lögreglunni að sinna öryggismálum og gefa okkar svigrúm til að huga að bjartara, réttmætara, fríðsemdara og fordómalausa samfélagi fyrir alla.“

Götugengi

Ian McDonald er frá Bretlandi en hefur búið á Íslandi síðustu 10 ár og greindi hann frá því fyrir nokkrum dögum að hann hefði fengið íslenskan ríkisborgararétt. Ian sem situr í stjórn Eflingar hefur ekki verið feiminn við að gagnrýna útlendingaandúð á Íslandi og verið gagnrýninn á stöðu innflytjenda. Hann segir í aðsendri grein á Vísi að Skjöldur Íslands sé ekkert annað en rasískt götugengi:

„Og það er engin tilviljun að Skjöldur Íslands skuli hafa komið fram núna. Ísland er að ganga í gegnum sömu eitruðu bylgju kynþáttafordóma og ótta gagnvart innflytjendum sem er að breiðast út um alla Evrópu. Stjórnmálamenn og áhrifavaldar hoppa á vagninn með fordóma til að fá læk, fylgjendur og atkvæði. Þeir hafa lært að ótti er góður fyrir þátttöku. Og hópar eins og þessi eru afleiðingin.“

Hann vísar til ofbeldis í Bretlandi í garð hælisleitenda og segir að það skipti ekki máli þótt Skjöldur Íslands snerti ekki eina manneskju:

„Þessir gaurar þurfa ekki að slá til að valda skaða. Nærvera þeirra er ofbeldið. Öll framkoma þeirra er hönnuð til að gera fólk hrætt. Og þeir vita það.“

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íslendingar lýsa heimilisinnbrotum – „Ég spjallaði smá stund við manninn, bauð honum kex og kvaddi hann með handabandi“

Íslendingar lýsa heimilisinnbrotum – „Ég spjallaði smá stund við manninn, bauð honum kex og kvaddi hann með handabandi“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fólk passi upp á dýrin í dag – Brennisteinsmengun og gosmóða liggur yfir öllu

Fólk passi upp á dýrin í dag – Brennisteinsmengun og gosmóða liggur yfir öllu