Landsréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjaness yfir útlendingi sem til stendur að vísa úr landi. Fram kemur í úrskurðinum að maðurinn hafi látið sig hverfa bæði í Danmörku og Sviss þegar vísa átti honum til Íslands. Loks var honum fylgt hingað til lands af lögreglumönnum frá Liechtenstein.
Maðurinn sótti um alþjóðlega vernd á Íslandi í annað sinn í september 2023. Umsókninni var synjað af Útlendingastofnun í janúar 2024. Maðurinn kærði niðurstöðuna til kærunefndar útlendingamála sem vísaði kærunni frá í mars á þessu ári þar sem maðurinn hafði yfirgefið landið og sótt um alþjóðlega vernd í Danmörku.
Útlendingastofnun bað embætti ríkislögreglustjóra að fylgja manninum úr landi í júlí 2024 til heimaríkis síns. Manninum var þá boðin aðstoð við sjálfviljuga brottför. Í ágúst 2024 var beiðni Útlendingastofnunar afturkölluð en ný beiðni var síðan lögð fram í mars 2025.
Maðurinn sótti um alþjóðlega vernd í Danmörku, Sviss og Liechtenstein en þar sem hann sótti fyrst um vernd hér á landi hafa öll þrjú löndin vísað honum hingað á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Í Danmörku og Sviss lét hann sig hverfa áður en hægt var að fylgja honum til Íslands. Lögreglunni í Liechtenstein tókst hins vegar að hafa hendur í hári hans og fyrr í þessum mánuði fylgdu þrír þarlendir lögreglumenn manninum til Íslands. Við komuna til landsins var maðurinn handtekinn.
Í úrskurðinum kemur fram að Heimferða- og fylgdadeild ríkislögreglustjóra hafi þegar hafið undirbúning við framkvæmd á flutningi mannsins til síns heimaríkis. Stefnt sé að því að framkvæma flutninginn þann 22. júlí.
Í kröfu sinni um gæsluvarðhald vísaði embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum til þess að maðurinn dveldi ólöglega á landinu og hefði þar að auki látið sig hverfa í tveimur löndum. Þar af leiðandi væri nauðsynlegt að maðurinn yrði í gæsluvarðhaldi til að tryggja brottvísun hans frá landinu.
Bæði Landsréttur og héraðsdómur tóku undir að vægari úrræði dygðu ekki til að tryggja framkvæmd brottvísunar mannsins og féllust því á kröfu um gæsluvarðhald sem gildir til 28. júlí næstkomandi en eins og áður segir stendur til að manninum verði fylgt til heimaríkis síns fyrir þann tíma.