

Árekstur varð milli strætisvagns frá Strætó, sem var að aka leið nr. 1 milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, og rútu Hópbíla sem ekur strætóleið nr. 55, á milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins, við Fjörð í Hafnarfirði fyrr í dag. Nokkrar skemmdir urðu á á báðum ökutækjum en slysið var ekki tilkynnt til lögreglunnar og því virðast ekki hafa orðið nein slys á fólki.
Fjörður er biðstöð fyrir bæði leiðir 55 og 1. Samkvæmt heimildum DV lögðu strætisvagninn og rútan af stað frá stöðinni með skömmu millibili en rútan var aðeins á undan af stað og ökumaður strætisvagnsins hemlaði ekki, að sögn heimildarmanns DV sem var á vettvangi, og mun það hafa endað með því að strætisvagninum var ekið á rútuna.
DV hafði samband við umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og aðalvarðstjóra á lögreglustöðinni í Hafnarfirði en áreksturinn hafði ekki verið tilkynntur til lögreglunnar og því virðist enginn hafa meiðst.
Ekki náðist samband við Jóhannes Svavar Rúnarsson framkvæmdastjóra Strætó.
Eins og sjá má af þessari mynd sem DV fékk senda af vettvangi urðu einhverjar skemmdir á báðum ökutækjum. Rúða hefur brotnað í rútunni og spegill strætisvagnsins skemmst.
