

Rithöfundurinn og fyrrum forsetafrú Íslands, Eliza Reid, óskar þjóðinni til hamingju með dag íslenskrar tungu. Af því tilefni deilir hún bréfi sem hún skrifaði eiginmanni sínum, Guðna Th. Jóhannessyni, um ári eftir að þau hittust fyrst.
Eins og allir vita þá er Eliza kanadísk svo íslenskan hennar var ekki fullkomin árið 1999, enda flutti hún ekki til Íslands fyrr en fjórum árum síðar.
Bréfið hljómar svona:
„Kæri vinur Guðni, Þau eru ljósmyndirnar. Að mínu áliti, þau eru gott. Íslanzkan mín er ekki gott, nema vaninn gefur listina. Eigi að síður ég hef miklar mætur á enskri tungu. Berðu fjölskylda þín kveðju mína. Virðingarfyllst og með ást, Eliza xxx.“
Með bréfinu sendi hún Guðna nokkrar ljósmyndir frá hennar fyrstu ferð til Íslands „og eins og þið sjáið glöggt hafði ég með mér bók með íslenskum setningum og enskum þýðingum.“
Eliza skrifar að íslenskan sé einn þeirra þátta sem skilgreina þjóð okkar.
„Ég veit og dáist að því hversu ákveðið fólk er í að berjast fyrir því að varðveita hana. Ég er bjartsýn á að okkur muni takast það. Hvaða vopn má nota í þeirri baráttu? Til dæmis að gera innflytjendum eins og mér, sem ekki hafa íslensku að móðurmáli, auðveldara að læra, æfa sig og tileinka sér tungumálið, að sýna okkur mildi þegar við gerum mistök en kannski hætta því þegar við höfum náð góðri færni (mér finnst ég aldrei verða „búin“ að læra íslensku) og ekki reyna að fela fordóma og rasisma á bak við meldingar um að við tölum ekki málið alveg nógu vel. Nýir nemendur í íslensku eru ekki ógn við íslenskt mál; þeir eru lifandi og dugandi manneskjur sem geta auðgað hana ef þau fá tækifæri til þess. Stærstu ógnirnar sem steðja að málinu eru gervigreind og netheimurinn – en sem betur fer erum við einnig að breyta þeim áskorunum í tækifæri.
Íslenska er alls konar og Íslendingar eru alls konar – þar á meðal ég. Virðingarfyllst og með ást, Eliza.“