Verðmætur gítar sem stolið var af heimili málmenntafræðingsins Guðmundar Edgarssonar er kominn í leitirnar. Guðmundur er þakklátur þeim sem lýstu eftir gítarnum og brýnir fyrir fólki að læsa öllum hurðum og gluggum áður en gengið er til náða eða farið af heimilinu.
DV greindi frá því í morgun að Martin gítar, sem er metinn á hálfa milljón króna, hafi verið stolið af heimili Guðmundar í Grafarvoginum aðfaranótt fimmtudags. Mætti hann þjófnum sem hljóp burt með gítarinn og iPad.
Lögreglan fann þýfi úr öðrum innbrotum í poka í ruslageymslu húsnæðisins en ekki eigur Guðmundar. Bað hann fólk um að fylgjast með hvort hann myndi dúkka upp á sölusíðum.
Nú hefur Guðmundur greint frá því að gítarinn sé fundinn og er hann himinlifandi yfir því.
„Lögreglan hafði samband við mig um hádegið og tjáði mér að Martin gítarinn, sem var stolinn frá mér í innbroti s.l. fimmtudagsnótt, væri fundinn,“ segir hann í færslu. „Hann hafði verið skilinn eftir í geymslu eftir annað innbrot í Grafarvoginum. Í kjölfar birtingar DV um þjófnaðinn á gítarnum kom í ljós að um sama gítar væri að ræða.“
Hins vegar sé þjófurinn sem Guðmundur sá hlaupa í burtu enn þá ófundinn.
„Ég er því í ævarandi skuld við hinn fróma miðil, DV, fyrir að hafa átt lykilþátt í að endurheimta dýrgripinn. Einnig þakka ég öllum þeim fjölmörgu vinum mínum á Facebook fyrir að deila pósti mínum um gítarstuldinn,“ segir hann og minnir fólk á að hafa varann á. „Að lokum vill ég aftur brýna fyrir ykkur öllum að læsa kyrfilega öllum hurðum og gluggum þegar heimilið er yfirgefið eða gengið til náða.“