Flugvél breska flugfélagsins Virgin Airlines þurfti að gera neyðarlendingu á Keflavíkurflugvelli á sunnudag, 21. september. Ástæðan var veikindi farþega.
Vélin var á leið frá Orlando í Flórídafylki til Manchester í Bretlandi þegar veikindin komu upp. En um er að ræða langt flug, rúma átta klukkutíma.
Næsti flugvöllur var Keflavíkurflugvöllur og var flugvélinni því flogið þangað. Þar tók sjúkralið á móti vélinni og sinnti farþeganum.
„Öryggi og velferð viðskiptavina okkar er ávallt forgangsatriði og við biðjumst velvirðingar á öllum þeim óþægindum sem þetta olli,“ segir í tilkynningu Virgin Airlines.
Eftir það hélt vélin aftur af stað til Manchester eins og áætlað var. Eins og gefur að skilja lengdi þetta ferðina umtalsvert.