fbpx
Þriðjudagur 23.september 2025
Fréttir

Davíð ósáttur við umfjöllun um Stuðla – „Þetta er fólkið á gólfinu, þeir sem starfa með börnum sem enginn annar vill fást við“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 23. september 2025 11:30

Davíð Bergmann.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Davíð Bergmann, starfsmaður Fjölsmiðjunnar og fyrrverandi starfsmaður á Stuðlum, bendir á að starfsfólkið á gólfinu á Stuðlum búi við veruleika þar sem ekki sé alltaf hægt að fara eftir reglunum. Það vinni með erfiðustu einstaklingum samfélagsins en fái síðan yfir sig óréttmæta gagnrýni frá blýantsnögurum í Fílabeinsturnum.

Þetta kemur fram í aðsendri grein á Vísi. Davíð segir:

„Þegar starfsfólk hefur engan málsvara er því gert ómögulegt að útskýra sínar hliðar og afleiðingarnar geta verið alvarlegar. Þetta er blákaldur veruleiki fyrir þá sem vinna með erfiðustu einstaklingum samfélagsins, þeim sem verða utanveltu og fá ekki skilning. Þetta er fólkið á gólfinu, þeir sem starfa með börnum sem enginn annar vill fást við. Þetta fólk hefur engan málsvara og það getur ekki svarað fyrir sig. Það er mikilvægt að raddir þeirra heyrist og að þau geti varið sig, því annars verða þau fórnarlamb misskilnings og rangra ályktana.“

Davíð, sem starfaði í meira en einn og hálfan áratug á Stuðlum, blöskrar fréttaflutningur af meðferðarheimilinu. Nýverið var greint frá því að tveir starfsmenn heimilisins væru á meðal sakborninga í rannsókn lögreglu á bruna á Stuðlum í október 2024, en 17 ára piltur lést í brunanum og starfsmaður slasaðist. Mikill fréttaflutningur hefur verið af erfiðu ástandi á heimilinu.

Davíð segir eftirlitsaðila með Stuðlum ekki hafa innsýn inn í þann grjótharða veruleika sem starfsfólkið á gólfinu stendur frammi fyrir á staðnum:

„Ég þekki starfsemina og það frábæra fólk sem starfað hefur þar í áratugi af hreinni hugsjón til að gera sitt besta fyrir þessi börn. Þetta er fólk sem er ekki að naga blýanta við skrifborð í fílabeinsturni eða ganga á milli fundarherbergja með möppu undir hendinni eftir að það var skipað í nefnd. Nei, þetta er fólkið sem þarf að taka á sig þá slagi sem enginn annar vill taka. Það situr nú uppi með þá niðurstöðu að karlar og konur í lakkskóm með skjalatöskur, sem eru í engum tengslum við raunveruleika þessara barna, spyrji hvað fór „úrskeiðis.“

Langflestir af þessum eftirlitsaðilum hafa litla innsýn í veruleika þessara barna, því þeir hafa sótt þekkingu sína í gegnum bækur. Þeir hafa horft á þennan heim úr fílabeinsturnum og dæmt en þeir hafa enga hugmynd um hvað það er að vera í sporum olnbogabarna eða vinna með þeim. Það vita hins vegar margir af þeim starfsmönnum sem vinna með þeim, því þeir hafa verið báðum megin við borðið. Ég þekki það sjálfur vel, en minni æsku var rænt af sams konar fólki sem situr uppi í fílabeinsturnum og talar nú hátt um réttindi barna. Hinn blákaldi veruleiki á gólfinu er þeim ókunnugur. Þeir skilja ekki að baráttan er oft hörð og ekki er alltaf hægt að fylgja reglunum til hins ýtrasta.“

Þarf að setja börnunum mörk

Davíð segir að við þær aðstæður sem oft koma upp á Stuðlum sé spurningin „Hvað fór úrskeiði?“ fáránleg. Lýsir hann einu slíku atviki:

„Eitt atvik var þegar 17 ára drengur, þrjátíu kílóum þyngri og höfðinu hærri en ég, stóð með örbylgjuofn yfir höfði sínu og hótaði að kasta honum í andlitið á mér þegar honum voru sett eðlileg mörk. Sem betur fer endaði ofninn á því að fara í gegnum glugga í eldhúsinu en ekki í andlitið á mér. Í öðru atviki trylltist unglingur, eyðilagði herbergið nánast og stóð með risastórt glerbrot við hurðina, tilbúinn til að stinga hvern sem kæmi inn. Lögreglan þurfti að nota piparúða og skyldi til að yfirbuga hann, rétt eins og þrír lögreglumenn þurftu til að yfirbuga drenginn með örbylgjuofninn.“

Davíð segir að börnin og ungmennin sem koma inn á Stuðla séu ekki alltaf saklaus grey en þeim sé alltaf lýst þannig. Til að tryggja öryggi þeirra og starfsfólksins á gólfinu þurfi að vera hægt að setja þeim mörk. Umræðan um réttindi barna sé hins vegar oft á kostnað heilbrigðrar skynsemi.

Greinina má lesa hér.

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Bíræfinn bílþjófur stökk yfir hengibrú til að komast undan lögreglu – Sjáðu myndbandið

Bíræfinn bílþjófur stökk yfir hengibrú til að komast undan lögreglu – Sjáðu myndbandið
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum gagnrýnd fyrir áform um að tengja parasetamól við einhverfu

Heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum gagnrýnd fyrir áform um að tengja parasetamól við einhverfu
Fréttir
Í gær

Mölvaði rúðu í lögreglubíl með hausnum

Mölvaði rúðu í lögreglubíl með hausnum
Fréttir
Í gær

Lögreglan á Vestfjörðum fær á baukinn fyrir lélega gervigreindarmynd – Fimm fætur og ekkert höfuð

Lögreglan á Vestfjörðum fær á baukinn fyrir lélega gervigreindarmynd – Fimm fætur og ekkert höfuð
Fréttir
Í gær

Helgi Hrafn keypti forláta flíspeysu fjármálaráðherra

Helgi Hrafn keypti forláta flíspeysu fjármálaráðherra