Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins, leggur til tilraunaverkefni á umferðargötum borgarinnar til að kanna hvaða áhrif fyrirhuguð borgarlína mun hafa. Segir hann tilraunina bæði raunhæfa og skynsamlega áður en farið er af stað með dýra samgönguframkvæmd.
Í grein sinni í Morgunblaðinu í dag segist Bergþór sammála Staksteinum á miðvikudag þar sem tekið var undir þingsályktun sem þingmenn Miðflokksins lögðu fram á þingi um borgarlínu.
„Eða öllu heldur afleiðingar borgarlínu á almenna umferð hefðbundinna ökutækja. Í ályktuninni leggjum við til að farið verði í tilraunaverkefni á veghlutum þar sem á að taka rými frá almennri umferð undir akrein fyrir borgarlínu. Þannig að veghlutinn verði tímabundið lokaður fyrir almennri umferð, með keilum eða öðrum lausnum sem henta.“
Segir Bergþór Suðurlandsbraut nærtækasta dæmið þar sem á að taka eina akrein í hvora átt frá almennri umferð, en dæmin eru fleiri.
„Ýmsir hafa hrokkið af hjörunum og sagt tillöguna fráleita, sagt hana óraunhæfa. Skoðum þetta nú aðeins betur: Forsendur samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins gera ráð fyrir því í meginsviðsmynd sinni að áframhaldandi vöxtur umferðar á höfuðborgarsvæðinu verði 1,7% á ári. Ef við gefum okkur, jafn ólíklegt og það kann að vera, að ÖLL markmið áhugamanna um nýtingu borgarlínu náist: hlutfall farinna ferða með borgarlínu/strætó verði 12% en ekki 4-5% eins og verið hefur um langa hríð og að öll aukningin verði vegna fólks sem áður fór ferða sinna á fjölskyldubílnum en ekki til dæmis gangandi eða hjólandi. Miðað við 1,7% árlegan vöxt umferðar þá mun taka 7-8 ár að ná almennri umferð á götum borgarinnar á sama stað og er í dag.“
Segir Bergþór það blasa við að tilraunin sé ekki bara raunhæf, heldur sé skynsamlegt fyrir okkur að gera þessa tilraun í raunheimum.
„Framkvæmum hana áður en lagt er af stað í dýrustu samgönguframkvæmd Íslandssögunnar, borgarlínu, sem í ofanálag hefur það að markmiði að þrengja að almennri umferð. Borgarskipulagið og taktur okkar sem hér búum er þannig að við verðum aldrei litlaBerlín. Skutl hins daglega amsturs verður ekki leyst með strætóferðum. Verslunarferðin á leiðinni heim úr vinnu ekki heldur. Skutlið á leikskólann. Í íþróttir. Skyndiheimsóknin til afa og ömmu. Svo er það veðrið. Hraglandinn. Rokið. Þið vitið hvert ég er að fara.
Hættum þessari vitleysu. Göngum til verka sem liðka fyrir umferð í stað þess að þrengja að henni. Hættum að leggja fjölskyldubílinn í einelti og þá sem þurfa raunverulega að nota þarfasta þjóninn. Með þeirri tilraun sem við í Miðflokknum leggjum nú til fáum við glögga mynd af því hvernig raunveruleikinn mun blasa við okkur að nokkrum árum liðnum. Við höfum gott af að sjá áhrifin og finna fyrir þeim. Í framhaldinu getum við tekið nýja ákvörðun, verði niðurstaðan sú að neikvæðu áhrifin verða meiri en ráð var fyrir gert. Allir vinna.“