fbpx
Miðvikudagur 23.júlí 2025
Fréttir

„Held að rússnesk stjórnvöld fýsi ekki í frekari styrjaldir í bráð“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 22. júlí 2025 19:00

Vladimir Pútín

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Framferði rússneskra stjórnvalda hefur vakið miklar áhyggjur Evrópuþjóða og stuðlað að áformum um stóraukna vígvæðingu innan NATO. Eftir innrás Rússa í Úkraínu vakna spurningar og vangaveltur um möguleg útþensluáform Rússa.

Hilmar Þór Hilmarsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, telur annars vegar að Rússa fýsi ekki í frekari styrjaldir á næstunni, hins vegar geti átökin í Úkraínu leitt til mikillar spennu á hinum ýmsu svæðum í Evrópu.

„Úkraínustríðið hefur nú staðið yfir í hér um bil þrjú og hálft ár og sér ekki fyrir endann á því, allavega ekki í bráð. Ég held að Úkraínustríðið hafi reynt talsvert á Rússland og ég efast um að stjórnvöld í Rússlandi vilji annað stríð, en það lítur heldur ekki sérstaklega friðsamlega út í Evrópu jafnvel þó átökum í Úkraínu  ljúki með því sem kallað er „frosin átök“ (e. frozen conflict).“

Hilmar telur að svæði þar sem átök gætu brotist út í náinni framtíð séu Svartahafið, Moldóva, Hvíta-Rússland (Belarus), Eystrasalt og Eystrasaltsríkin og Norðurslóðir.

Hann bendir á að Úkraínustríðið snúist að verulegu leyti um yfirráð yfir Svartahafinu. „Að Svartahafinu liggja Búlgaría, Georgía, Rúmenía, Rússland, Tyrkland og Úkraína. Búlgaría, Rúmenía og Tyrkland eru aðilar að NATO og á NATO fundinum fræga í Búkarest í apríl 2008 var talað um að Georgía og Úkraínu færu líka í NATO. Þá hefði Rússland orðið eina landið við Svartahafið sem ekki er í NATO. Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að sjá að Rússlandi, sem ekki lítur á NATO sem varnarbandalag, teldi þetta ógn við sína stöðu við Svartahafið og sitt þjóðaröryggi. Siglingaleiðir um Svartahafið eru líka mikilvægar fyrir Rússland. Viðbrögð rússneskra stjórnvalda yrðu því hörð. Innrás í Georgíu í ágúst 2008 og svo stríðið í Úkraínu sem enn stendur yfir, gefa vísbendingu umþ að. Svartahafið getur orðið vettvangur átaka áfram jafnvel þó stríðinu í Úkraínu ljúki með „frozen conflict“ á landi.“

Viðkvæm svæði

„Moldóva er ásamt Úkraínu umsóknarland að ESB. Stjórnvöld halda áfram að styrkja samstarf sitt við NATO þó landið sé ekki aðildarríki. Nái Rússar hafnarborginni Odessa í Úkraínu mun Moldóva verða í viðkvæmri stöðu. Eftir hrun Sovétríkjanna lýsti héraðið Transnistría, sem er í austurhluta Moldóvu, yfir sjálfstæði en alþjóðlega er Transnistría viðurkennd sem hluti af Moldóvu. Ljóst er að Rússland, sem hefur herlið í Transnistríu, mun ekki fagna ESB aðild Moldóvu verði af henni, enn síður NATO aðild.

Rúmenía á austurlandamæri að Moldóvu og Úkraína vesturlandamæri. Mjög stutt er frá hafnarborginni Odessa í Úkraínu til Moldóvu. Þetta er því viðkvæmt svæði í Evrópu og þarna gætu orðið átök.“

Hvíta-Rússland bandamaður

„Hvíta-Rússland hefur verið bandamaður Rússa í Úkraínustríðinu. Náin samvinna hefur verið milli Aleksandr Lukashenko, forseta Hvíta-Rússlands, og Vladimir Pútin forseta Rússalands. Verði pólitískur óstöðugleiki innan Hvíta-Rússlands skapast óvissa innan Evrópu sem getur leitt til átaka. Pólland, Litáen og Lettland, allt NATO ríki, eiga austurlandamæri við Hvíta-Rússland og Úkraína á norðurlandamæri við landið. Samskipti ESB og NATO við Hvíta-Rússland, sem lengi hafa verið mjög stirð, eru nú nánast engin eftir að Úkraínustríðið hófst. Hvíta-Rússland er í viðskiptabanni hjá Vesturlöndum og landið hefur ekki átt neinn valkost annan en að auka og styrkja tengsl sín við Rússland. Þetta styrkir stöðu Rússlands.“

Eistland í úthverfi St. Pétursborgar

Danmörk, Finnland, Svíþjóð, Eistland, Lettland, Litáen, Pólland, Þýskaland og loks Rússland liggja að Eystrasaltinu. Af þessum níu löndum eru öll NATO ríki nema Rússland. Rússland hefur aðgang að Eystrasalti við St. Pétursborg, milli Finnlands og Eistlands og svo við Kaliningrad, sem er hluti af Rússlandi, á milli Litáen og Póllands.

Um 25 prósent íbúa í Eistlandi og Lettlandi eru af rússnesku bergi brotnir, en aðeins tæplega 5 prósent Litáa. Nái Rússland að loka svokölluðu Suwałki Gap, milli Kaliningrad (sem er hluti af Rússlandi) og Póllands, yrðu Eystrasaltsríkin einangruð á landi frá öðrum NATO ríkjum. Þetta er eitt viðkvæmasta svæðið í Evrópu fyrir varnir NATO ríkja. Eistland og Lettland hafa löng austurlandamæri við Rússland en Litáen suðurlandamæri við Kaliningrad. Lettland og Litáen hafa svo austurlandamæri við Hvíta-Rússland.

Stór hluti íbúa í austurhluta Eistlands og Lettlands eru af  rússnesku bergi brotnir og tala rússnesku. Borgin Narva liggur við landamæri Eistlands og Rússlands og tilheyrir Eistlandi. Mikill meirihluti íbúa Narva eru Rússar og í borgum eins og Daugavpils, í austurhluta Lettlands, eru Rússar líka fjölmennir og rússneska mest töluð.

Vilji Rússland láta reyna á 5. grein NATO eru Eistland og Lettland í viðkvæmri stöðu vegna smæðar sinnar og legu auk þess sem viðvera NATO hermanna er ekki mjög mikil. Skemmst er að minnast orða Newt Gingrich, fyrrum forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, sem eitt sinn sagði: „Eistland er í úthverfi Sankti Pétursborgar…Ég er ekki viss um að ég myndi hætta á kjarnorkustríð um einhvern stað sem er úthverfi St. Pétursborgar.“  Veit ekki hvað Donald Trump myndi segja um það mál…“

Norðurslóðir mikilvægari

„Mikilvægi Norðurslóða fer vaxandi m.a. vegna loftslagsbreytinga. Siglingaleiðir eru að opnast og miklar auðlindir sem áður voru óaðgengilegar verða nú nýtanlegar. Í Norðurskautsráðinu eru átta ríki: Bandaríkin, Finnland, Ísland, Kanada, Danmörk, Noregur, Rússland og Svíþjóð. Öll ríkin eru nú NATO-ríki nema Rússland. Þetta er ein ástæða þess að samvinna Rússlands og Kína er orðin náin á þessu svæði og Kína skilgreinir sig nú sem „Near-Arctic State.“ Það má ímynda sér að best væri fyrir Rússland að sitja sem mest eitt að auðlindum sínum á þessum slóðum en þegar þarna eru sjö NATO ríki er skiljanlegt að Rússland leiti bandamanna á þessu svæði.

Kína, sem er útflutningsdrifið hagkerfi, þarf siglingleiðir og hefur augljósa hagsmuni af því að vinna með Rússlandi á Norðurslóðum. Vegna Úkraínustríðsins hafa utanríkisviðskipti milli Rússlands og Kína vaxið mikið og Kína þarf á auðlindum Rússlands að halda og siglingaleiðum. Samvinna Kína og Rússlands hefur styrkt stöðu Kína mikið í stórveldasamkeppninni við Bandaríkin.“

Ekki stríð í bráð

Sem fyrr segir telur Hilmar Rússa vera stríðsmóða og að þá fýsi ekki í frekari átök á næstunni: „Eins og ég sagði þá held ég að rússnesk yfirvöld fýsi ekki í frekari styrjaldir í bráð eftir að Úkraínustríðinu lýkur, en spennan í Evrópu getur að mínu mati leitt til átaka á þessum svæðum sem ég hef talið upp.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Trefjar smíða björgunarbát fyrir Björgunarsveit Hafnarfjarðar

Trefjar smíða björgunarbát fyrir Björgunarsveit Hafnarfjarðar
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

6 hæða hótel mun rísa í Borgartúni 1

6 hæða hótel mun rísa í Borgartúni 1
Fréttir
Í gær

Sakar stjórnarandstöðuna um rógburð og lygar í garð strandveiðisjómanna – „Setja upp hvolpaaugu og ljúga“

Sakar stjórnarandstöðuna um rógburð og lygar í garð strandveiðisjómanna – „Setja upp hvolpaaugu og ljúga“
Fréttir
Í gær

Vopnað rán í Hlíðunum og skartgripaþjófnaður í miðbænum

Vopnað rán í Hlíðunum og skartgripaþjófnaður í miðbænum