fbpx
Mánudagur 21.júlí 2025
Fréttir

Rekinn til Íslands eftir að hafa látið sig hverfa í tveimur löndum

Jakob Snævar Ólafsson
Mánudaginn 21. júlí 2025 14:30

Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landsréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjaness yfir útlendingi sem til stendur að vísa úr landi. Fram kemur í úrskurðinum að maðurinn hafi látið sig hverfa bæði í Danmörku og Sviss þegar vísa átti honum til Íslands. Loks var honum fylgt hingað til lands af lögreglumönnum frá Liechtenstein.

Maðurinn sótti um alþjóðlega vernd á Íslandi í annað sinn í september 2023. Umsókninni var synjað af Útlendingastofnun í janúar 2024. Maðurinn kærði niðurstöðuna til kærunefndar útlendingamála sem vísaði kærunni frá í mars á þessu ári þar sem maðurinn hafði yfirgefið landið og sótt um alþjóðlega vernd í Danmörku.

Útlendingastofnun bað embætti ríkislögreglustjóra að fylgja manninum úr landi í júlí 2024 til heimaríkis síns. Manninum var þá boðin aðstoð við sjálfviljuga brottför. Í ágúst 2024 var beiðni Útlendingastofnunar afturkölluð en ný beiðni var síðan lögð fram í mars 2025.

Þrjú lönd

Maðurinn sótti um alþjóðlega vernd í Danmörku, Sviss og Liechtenstein en þar sem hann sótti fyrst um vernd hér á landi hafa öll þrjú löndin vísað honum hingað á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Í Danmörku og Sviss lét hann sig hverfa áður en hægt var að fylgja honum til Íslands. Lögreglunni í Liechtenstein tókst hins vegar að hafa hendur í hári hans og fyrr í þessum mánuði fylgdu þrír þarlendir lögreglumenn manninum til Íslands. Við komuna til landsins var maðurinn handtekinn.

Í úrskurðinum kemur fram að Heimferða- og fylgdadeild ríkislögreglustjóra hafi þegar hafið undirbúning við framkvæmd á flutningi mannsins til síns heimaríkis. Stefnt sé að því að framkvæma flutninginn þann 22. júlí.

Í kröfu sinni um gæsluvarðhald vísaði embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum til þess að maðurinn dveldi ólöglega á landinu og hefði þar að auki látið sig hverfa í tveimur löndum. Þar af leiðandi væri nauðsynlegt að maðurinn yrði í gæsluvarðhaldi til að tryggja brottvísun hans frá landinu.

Bæði Landsréttur og héraðsdómur tóku undir að vægari úrræði dygðu ekki til að tryggja framkvæmd brottvísunar mannsins og féllust því á kröfu um gæsluvarðhald sem gildir til 28. júlí næstkomandi en eins og áður segir stendur til að manninum verði fylgt til heimaríkis síns fyrir þann tíma.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sex börn Karls Erons í losti eftir að hafa lesið dánartilkynningu Moggans eftir útför hans – „Við vorum ekkert látin vita“

Sex börn Karls Erons í losti eftir að hafa lesið dánartilkynningu Moggans eftir útför hans – „Við vorum ekkert látin vita“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Gosmóða frá eldgosinu nálgast höfuðborgarsvæðið – Getur valdið sleni og höfuðverk

Gosmóða frá eldgosinu nálgast höfuðborgarsvæðið – Getur valdið sleni og höfuðverk