Tuttugu og fjórir einstaklingar eru látnir eftir að úrhellisrigning olli hamfaraflóðum í kringum bæinn Kerville í Texas-fylki. Guadalupe-áin, sem rennur í gegnum fylkið og umræddan bæ, óx hratt og hækkaði árbakki hennar um marga metra á örskömmum tíma.
Þá er 23 stúlkna saknað sem dvöldu í kristilegu sumarbúðunum Camp Mystic en alls dvöldu 750 stúlkur í búðunum þegar hamfarirnar gengu yfir.
Mikil leit stendur yfir á svæðinu en yfir 700 björgunarsveitarmenn leita nú að stúlkunum og öðrum sem urðu fyrir flóðunum. Þá kemba fjórtán þyrlur og tólf drónar svæðið úr lofti í von um að finna fleiri einstaklinga á lífi.