fbpx
Föstudagur 09.maí 2025
Fréttir

Þorvaldur Lúðvík íhugar réttarstöðu sína eftir Kastljósið í gær – „Ég hefði engu breytt eða gert öðruvísi“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 8. maí 2025 08:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, viðskiptafræðingur og fyrrverandi bankamaður, segist hljóta að íhuga réttarstöðu sína eftir þátt Kastljóssins í gærkvöldi.

Í þættinum kom fram að á fjórða tug upptaka og hundruð uppskrifta úr símtalshlerunum sé að finna í gögnum úr fórum njósnafyrirtækisins PPP. Eins og fjallað var um fyrir skemmstu var fyrirtækið stofnað af þeim Jóni Óttari Ólafssyni afbrotafræðingi og Guðmundi Hauki Gunnarssyni lögfræðingi sem nú er látinn. Í þættinum kom fram að ekki sé ljóst hvers vegna upptökunum var ekki eytt og enn síður hvers vegna þær voru í höndum fyrrnefnds njósnafyrirtækis.

Rotnir starfshættir

„Kastljós kvöldsins veitti hryllings innsýn í meðhöndlun trúnaðarupplýsinga hjá sérstökum saksóknara, þar sem sem friðhelgi borgaranna er að engu höfð. Gamlir og dæmdir bankamenn hafa löngum æmt um að vinnubrögð og viðhorf innan embættisins hafi verið gildishlaðin og skökk. Nú birtist þetta öllum. Rotnir starfshættir og ríkisrekið ofbeldi gegn borgurunum,“ sagði Þorvaldur Lúðvík í pistli á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi eftir þáttinn.

Þorvaldur var bankastjóri Saga Capital og hlaut hann skilorðsbundinn dóm árið 2015 í Stím-málinu svokallaða.

Sjá einnig: Símhleranir, upptaka persónulegra gagna, húsrannsókn, mannorðsmissir…

Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari og fyrrverandi sérstakur saksóknari, sagði við RÚV, eftir að hafa séð gögnin, að um sé að ræða gögn sem eigi ekki að vera úti í samfélaginu.

„Þetta eru gögn sem eiga að vera bundin trúnaði og hefðu aldrei átt að fara héðan út úr húsi,“ sagði Ólafur meðal annars.

Íhugar réttarstöðu sína

Þorvaldur gengur lengra og segir að auki verði að benda á þá staðreynd að margar af fyrrnefndum upptökum átti aldrei að framkvæma enda hafi hvorki verið fyrir hendi lagaheimildir né rannsóknarhagsmunir.

„Þá er augljóst að embætti sérstaks saksóknara framfylgdi ekki reglum um eyðingu gagna sem svo er aflað, nema auðvitað þegar þeir eyddu “óvart” gögnum sem bentu til sýknu,“ segir Þorvaldur í færslu sinni og bætir svo við:

„Ég veit að ólöglegar upptökur persónulegra símtala úr síma mínum eru á meðal upptakanna sem vitnað er til í afhjúpunum Kastljóss og hlýt ég að íhuga réttarstöðu mína í framhaldinu. Ég ímynda mér að töluverður hópur fólks geri það líka,“ segir hann í færslunni og bætir við að þetta komi til viðbótar við nýlegt mál þar sem tveir fyrrverandi starfsmenn sérstaks saksóknara urðu uppvísir af því að hlera og njósna um einstaklinga í tengslum við „delluerjur“ tveggja auðmanna.

„Óljóst er að hve miklu leyti þeir gerðu þetta í vinnunni hjá Sérstökum eða á vettvangi síns einkafyrirtækis, en ljóst er að embætti sérstaks saksóknara stundaði umgangsmiklar hlustanir sem margar hverjar voru engan veginn í samræmi við lagaheimildir.“

Eins og að hlusta á brennuvarga tjá sig um slökkvistarf

Hann gagnrýnir einnig Grím Grímsson, sem var í forsvari margra rannsókna embættisins en situr nú á þingi, en hann lýsti því í Sprengisandi á Bylgjunni á dögunum að rík skylda hvíldi á lögreglumönnum að fá dómsúrskurð fyrir símahlustunum og rannsaka öll mál jafnt til sýknu sem sakfellingar.

„Ég get rakið í löngu máli í mínu tilviki hvernig því prinsippi var alfarið kastað fram af hömrum réttarríkisins og get vitnað til annarra tilvika og heimilda,“ segir hann og bendir sérstaklega á bók Lárusar Welding.

„Það er því dálítið eins og að hlusta á brennuvarga tjá sig um slökkvistarf í brunarústum þegar Ólafur H. Hauksson og Grímur Grímsson (nú þingmaður), býsnast og hneykslast yfir þessu atferli fyrrum starfsmanna embættisins í fjölmiðlum. Þeim er brugðið,“ segir hann og bætir við að embættið hafi lagt sig í framkróka á sínum tíma að halda frá máli hans gögnum sem sýndu fram á sýknu.

„Það er ljóst að mörgum hljóp kapp í kinn. Margir framalögreglumenn létu einskis ófreistað til að ná fram sakfellingum til að réttlæta tilvist embættisins og fá frekari fjárframlög. Strategískir lekar frá embættinu til fjölmiðla urðu staðreynd og í því andrými sem hér var eftir hrun, var vel tekið á móti einhliða upplýsingum frá embætti Sérstaks saksóknara til að kynda elda hefndar og friðþægingar,“ segir hann og bætir við að þetta allt hafi tekið sextán ár af hans lífi.

„Rannsókn og þrír dómar tóku alls 10 ár og enduðu með 12 mánaða skilorðsbundnum dómi fyrir hlutdeild í meintu broti annars manns í öðrum banka,“ segir hann og nefnir að mál hans sé svo í farvegi hjá Mannréttindadómstól Evrópu. „Það var hátt reitt til höggs og einhverjum dómi varð að ná. Ég segi enn að ég hefði engu breytt eða gert öðruvísi, enda þá fyrst hefði ég verið að bregðast starfsskyldum mínum, lögbundnum sem samningsbundnum.“

Pistil Þorvaldar Lúðvíks má lesa í heild sinni hér að neðan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Sýður á eldri borgurum við Herjólfsgötu vegna saunahúss – „Við viljum að þetta fari“

Sýður á eldri borgurum við Herjólfsgötu vegna saunahúss – „Við viljum að þetta fari“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Róttæk breyting hjá Netflix – Svona mun nýja notendaviðmótið líta út

Róttæk breyting hjá Netflix – Svona mun nýja notendaviðmótið líta út