fbpx
Þriðjudagur 10.september 2024
Fréttir

Ungur maður fastur í úrræðaleysi íslenska geðheilbrigðiskerfisins – Sagður betur settur á svissneskri geðdeild

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 8. ágúst 2024 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjölskylda íslensks manns á fertugsaldri sem á við alvarleg geðræn veikindi að stríða segir að úrræðaleysi geðheilbrigðiskerfisins hér á landi í málum hans sé algjört. Steininn tók úr fyrir nokkrum vikum þegar lögregla var kölluð til eftir að maðurinn fór í geðrof og hótaði í kjölfarið fjölskyldu sinni lífláti. Að sögn bróður mannsins var lögregla treg til að fjarlægja manninn, sem bjó hjá móður sinni, af heimilinu en gerði það loks en sleppti honum þó fljótlega úr haldi. Segir bróðir mannsins að lögreglan hafi ekki talið taka því að flytja manninn á geðdeild Landspítalans þar sem hann yrði áreiðanlega fljótt útskrifaður. Í kjölfarið hafi maðurinn keypt sér flugmiða til Ítalíu. Þar hafi hann fljótlega endað á geðdeild. Hann hafi verið útskrifaður þaðan en hafi einhvern veginn náð að koma sér með lest til Sviss og þar sé hann nú vistaður á geðdeild. Ættingi mannsins starfar í heilbrigðiskerfinu hér á landi en að sögn bróður mannsins hefur ættinginn látið þau orð falla að maðurinn væri betur settur að vera áfram á geðdeildinni í Sviss fremur en á geðdeild Landspítalans.

Fjölskylda mannsins hafði samband við DV til að koma á framfæri algjöru úrræðaleysi geðheilbrigðiskerfisins í hans málum. Fjölskyldan segist ekki tilbúin til að stíga fram undir nafni.

Eins og að tala við vegg

Maðurinn hefur átt við alvarleg geðræn veikindi að stríða undanfarin ár. Í mörg misseri var hann langt niðri og lokaði sig nánast alfarið af og neytti áfengis í miklu magni. Í kjölfar þess að hann flutti til móður sinnar og leitaði sér lækninga virtist hann vera á réttri leið en fyrir nokkrum vikum fór honum hins vegar hratt versnandi.

Í samtali við DV segir bróðir mannsins að í kjölfarið hafi maðurinn verið kominn í svo mikið geðrof að hann hafi hótað móður þeirra, honum og fleiri fjölskyldumeðlimum ítrekað lífláti. Maðurinn hafi enn fremur verið haldinn miklum ranghugmyndum. Fjölskyldan hafi tekið athæfi mannsins upp á myndbönd og kallað til lögreglu. Bróðir mannsins segir að skiljanlega hafi móðir bræðranna ekki treyst sér til að hafa manninn áfram á heimilinu. Hann segir lögregluna hafa verið trega til að fjarlægja manninn sem hafi á grunni ranghugmynda sinna fullyrt við lögreglumenn að hann hefði verið beittur ofbeldi af fjölskyldu sinni. Ítreka ber að slíkar fullyrðingar eiga sér enga stoð í raunveruleikanum.

Bróðir mannsins segir að lögreglan hafi sýnt því lítinn áhuga að sjá upptökurnar af hegðun og hótunum mannsins og raunar sýnt af sér dónaskap þegar hann hafi óskað eftir því við lögreglumenn á vettvangi að þeir myndu skoða upptökurnar. Hann segir að það hafi verið eins og að tala við vegg að reyna að sannfæra lögreglumennina um að maðurinn væri alvarlega veikur á geði og fara þyrfti með hann strax á geðdeild. Lögreglan hafi þó loks látið tilleiðast og flutt manninn á lögreglustöð en sleppt honum fljótlega á þeim grundvelli að það tæki því ekki að flytja hann á geðdeild Landspítalans þar sem hann yrði hvort sem er fljótlega útskrifaður þaðan.

Bróðir mannsins segir ljóst að maðurinn þurfi á langtímavistun á geðdeild að halda sem standi honum einfaldlega ekki til boða hér á landi. Þessi viðbrögð lögreglunnar krystalli algjört úrræðaleysi sem mæti bróður hans:

„Kerfið hefur brugðist bróður mínum.“

Sé betur settur á svissneskri geðdeild

Bróðir mannsins segir að þegar á lögreglustöðina hafi verið komið hafi maðurinn virst róast en að það hafi aðeins enst í einn dag. Þar sem fjölskylda mannsins taldi alls ekki öruggt að hann kæmi aftur á heimili móður sinnar hafi fjölskyldan greitt fyrir hótelherbergi svo hann yrði ekki að sofa úti þar sem enginn annar staður var fyrir hann að gista á. Geðrofið hafi hins vegar hert tök sín á ný og maðurinn í kjölfarið keypt sér flugmiða til Ítalíu. Hegðun hans þar hafi verið með þeim hætti að hann hafi á endanum verið handtekinn og fluttur á geðdeild. Hann hafi verið útskrifaður af geðdeildinni á Ítalíu og einhvern veginn náð að koma sér með lest til Sviss. Þar hafi hann fljótlega endað á geðdeild og sé enn.

Bróðir mannsins segir hann hafa týnt síma sínum. Hann hafi því ekki aðgang að bankareikningi sínum og hafi enga peninga eða greiðslukort. Maðurinn átti nokkra peningaupphæð eftir að hann seldi íbúð sína en fjölskyldan óttast verulega að hann hafi eytt stórum hluta upphæðarinnar í veikindum sínum. Það er óljóst hvernig maðurinn greiddi fyrir lestarferðina frá Ítalíu til Sviss.

Bróðir mannsins segir að svissnesk heilbrigðisyfirvöld vilji helst koma manninum til Íslands. Ættingi bræðranna, sem starfar í heilbrigðiskerfinu hér á landi, telji hins vegar honum fyrir bestu að hann verði áfram á geðdeildinni í Sviss fremur en að hann komi aftur til Íslands og leggist inn á geðdeild Landspítalans. Séu helstu rökin fyrir þessu að í Sviss verði maðurinn áfram á geðdeildinni þar til læknar telji það öruggt að hann hafi náð nægilegri heilsu til að vera útskrifaður. Það eigi hins vegar ekki við um geðdeild Landspítalans en ættinginn fullyrði að þaðan yrði maðurinn útskrifaður án þess að öruggt væri að geðheilsa hans hefði batnað nægilega mikið.

Endi á götunni án aðstoðar til lengri tíma

Að sögn bróður mannsins er verið að vinna í því að upplýsa utanríkisráðuneytið um stöðu mannsins. Aðspurður segir hann að fjölskyldan hafi skoðað það að fara fram á að maðurinn verði sviptur sjálfræði en það sé afar erfitt að koma því í framkvæmd.

Bróðirinn segir að maðurinn sé svo illa haldinn af veikindum sínum að hann sé í raun óþekkjanlegur. Þetta sé ekki lengur bróðir hans. Hann þurfi mikla þjónustu frá geðheilbrigðiskerfinu. Maðurinn hafi nokkrum sinnum náð að hringja í fjölskyldu sína og hafi spurt hvar hann væri staddur. Verði raunin sú að maðurinn verði fluttur aftur til Íslands og fái ekki langtímaaðstoð í geðheilbrigðiskerfinu sé langlíklegasta niðurstaðan að hann endi á götunni. Fjölskyldan vonist til að geðlæknar sem meðhöndlað hafa manninn í Sviss komi því skýrt á framfæri við íslenska kollega sína að maðurinn þurfi á langtímaaðstoð að halda:

„Annaðhvort tekur kerfið við honum eða hann fer á götuna,“ segir bróðir mannsins að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Gera lítið úr fyrirhuguðum mótmælum: „Þá komu um fjöru­tíu manns á Aust­ur­völl“

Gera lítið úr fyrirhuguðum mótmælum: „Þá komu um fjöru­tíu manns á Aust­ur­völl“
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Geta Vesturlönd sigrað rússneska herinn? Stjórnmálamaður varpar þessari eldfimu spurningu fram

Geta Vesturlönd sigrað rússneska herinn? Stjórnmálamaður varpar þessari eldfimu spurningu fram
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ríkisstörfum fjölgað umfram íbúafjölgun – Mun meiri fjölgun á landsbyggðinni

Ríkisstörfum fjölgað umfram íbúafjölgun – Mun meiri fjölgun á landsbyggðinni
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Daníel fellst á dóm í barnaníðsmáli – Neitar sök

Daníel fellst á dóm í barnaníðsmáli – Neitar sök