Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar og miðað við þær hrynur straumurinn mun fyrr en áður hefur verið talin hætta á. Það eru vel þekktir hollenskir vísindamenn sem gerðu rannsóknina að sögn CNN. Samkvæmt rannsókn þeirra þá geta hafstraumar í norðanverður Atlantshafi hrunið einhvern tímann á tímabilinu frá 2037 til 2064. Meiri líkur en minni eru á að það gerist fyrir 2050.
„Þetta er mikið áhyggjuefni,“ sagði René van Westen, meðhöfundur rannsóknarinnar, í samtali við CNN.
Peter Ditlevsen, prófessor í ís- og loftslagsfræði og jarðeðlisfræði við Kaupmannahafnarháskóla, sagðist í samtali við Jótlandspóstinn vera sammála van Westen. Ditlevsen og fleiri danskir vísindamenn birtu rannsókn á síðasta ári þar sem þeir komust að þeirri niðurstöðu að 95% líkur séu á hruni hafstraumanna fyrir 2095 og líklegast sé að það gerist 2060.
„Þegar rannsóknin okkar var birt, köstuðu allir sér yfir hana. Skiljanlega. Þegar svona róttæk tíðindi berast, þá vilja margir sjá hvort þau standist. Það væri fljótlegt að skjóta þetta í kaf ef það væri hægt. En þvert á móti, höfum við síðan séð fleiri og fleiri rannsóknir sem styðja niðurstöðu okkar,“ sagði hann.
Hafstraumarnir í Norður-Atlantshafi eru afgerandi fyrir loftslagið á heimsvísu. Þeir flytja heitan yfirborðssjó frá suðurhvelinu og miðbaug til norðurhvelsins og dreifa honum á köldum svæðum. Þegar sjórinn kólnar, sekkur hann og streymir aftur til suðurhvelsins sem djúpur hafstraumur.
Kerfið kemur í veg fyrir að suðurhvelið ofhitni og að norðurhvelið verði mjög kalt.
Ef hafstraumarnir hrynja og hætta að flytja heitan sjó á milli hvelanna, mun heimskautaísinn byrja að mjakast í suður og hitastigið í norðvestanverðri Evrópu mun lækka mikið.
Hollensku vísindamennirnir komust að þeirri niðurstöðu í eldri rannsókn að hitastigið á Bretlandseyjum og Skandinavíu muni lækka um allt að 15 gráður á nokkrum áratugum eftir hugsanlegt hrun hafstraumanna.
Ditlevsen sagði að ef straumarnir hrynja, þá megi gera ráð fyrir að loftslagið í Danmörku muni líkjast því sem er í norðurhluta Kanada og Alaska.