Gríðarlegir áverkar voru á tungubeins, barkakýlis og hringbrjósksvæði sambýlismanns Dagbjartar Rúnarsdóttur. Taldi matsmaður þetta til marks um gríðarlega kraftbeitingu annarrar manneskju gegn hálsi hans. Til dæmis með því að hné hafi verið þrýst á hálsinn.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í dóminum í Héraðsdómi Reykjavíkur frá 24. júlí síðastliðnum en hefur nú verið birtur opinberlega.
Dagbjört var dæmd í 10 ára fangelsi, að frádregnu gæsluvarðhaldi, fyrir líkamsárás en sýknuð af ákæru um manndráp.
Kemur fram að Dagbjört hafi hringt í neyðarlínuna laugardagskvöldið 23. september árið 2023, klukkan 21:17, og óskað eftir aðstoð vegna vinar síns. Þegar lögregla kom á vettvang lá maðurinn í dyragættinni á milli stofunnar og svefnherbergis, klæddur í nærbuxur og peysu.
Hann var blár og marinn og án meðvitundar. Reyndu lögreglumenn endurlífungartilraunir á staðnum. Sagði Dagbjört að hann væri drykkjumaður sem hefði verið orkulaus og slappur síðustu daga. Hann væri sídettandi í jörðina.
Erfitt reyndist hins vegar að fá upplýsingar frá henni um hvað hefði gerst. Hún var óskýr í máli og sífellt að tala um hundinn sinn sem hefði drepist eftir að hafa tekið eitur. Sagði hún sambýlismann sinn líka hafa drukkið eitrað vatn og að hann hefði glímt við heilsufarsvandamál.
Rannsóknarlögreglumaður gaf fyrirmæli um að vettvangur yrði frystur til að vettvangsrannsókn gæti farið fram. Maðurinn var fluttur upp á bráðamóttöku en úrskurðaður látinn klukkan 22:14 eftir að endurlífgunartilraunir báru engan árangur. Sáust þá marblettir og áverkar um allan líkamann og skurðir í andlitinu sem virtust nýlega til komnir. Var Dagbjört handtekin klukkan 00:16.
Við skoðun á Dagbjörtu kom í ljós að hún var með fjóra daufa marbletti á öðrum handleggnum, lyktaði af áfengi og virkaði þreytuleg. Hún hafi þó virst áttuð um stað og stund.
Áverkarnir á manninum reyndust vera gríðarlegir. Brot á nefhrygg kinnkjálka, undirhúðablæðingu undir augum og neðri hluta andlits, efra og neðra varahaft voru slitin, ýmis sár á höfði, miklir áverkar og brot á hálsi og bringu, marblettir á handleggjum og þá einkum á vinstri öxl, marblettir á baki og brjósti, blæðingar í herðablöðum, skrámur á geirvörtum, brotin rif, blæðingar í garnahengi og þvagleiðara, þroti og blæðingar í nára og getnaðarlim og pung, mar og grófar mjúkvefjablæðingar í lærum, brotinn dálk, sár á ökkla og mölbrotna hægri löngutöng og brot á fleiri fingrum svo eitthvað sé nefnt.
Voru samþættar afleiðingar áverkanna að maðurinn lést.
Kemur fram í gögnum málsins að mikil óreiða hafi verið í íbúðinni. Blóð og blóðkám úr manninum var að finna í svefnherbergi, á gólfi, á rúmgafli, sængurfatnaði, baðherbergisgólfi, í fatnaði og viskastykki. Ekkert annað óeðlilegt hefði verið að sjá í íbúðinni. Hafði Dagbjört þrifið eftir sjúkraflutningamenn og sett rusl í poka.
Gerðir voru upptækir símar mannsins og Dagbjartar þar sem fannst myndefni, samtals rúmlega 2 klukkutímar og 20 mínútur. Í myndböndum sjáist hún meðal annars hæðast að manninum sem hún hafi verið í yfirburðastöðu yfir. Hann hafi legið mikið vegna drykkju en svo átt sífellt erfiðara vegna stigmögnunar ofbeldisins. Maðurinn hafi viljað komast út úr íbúðinni en hún ekki leyft honum það.
Á meðal annarra gagna voru símtöl, skýrslur matsmanna og fleira.
Dagbjört neitaði strax sök í málinu. Dómkvaddur geðlæknir mat það svo að hún væri hvorki haldin geðsjúkdómi né öðrum andlegum kvilla.
Í geðrannsókninni kom fram að hún hafi ekki sýnt mikil svipbrigði en svarað spurningum skýrt. Hún hafi þó lítið vilja ræða um hinn látna og tæki andlát hans ekki nærri sér. Þegar dauða hundsins bar á góma fór hún í mikið uppnám og grét mikið.
Að mati dómara var framburður Dagbjartar óskýr um marga hluti, óstöðugur og misvísandi miðað við önnur gögn. Hafi hún lýst sjálfri sér sem fórnarlambi í sambandi þeirra.
Var Dagbjört sakfelld fyrir líkamsárás en dómari taldi það ekki hafa verið markmið Dagbjartar að drepa manninn. Var hún því sýknuð af ákæru um manndráp.
Þó hún hafi verið sakhæf var litið til þess að ýmislegt hafi raskað geðrænu ástandi hennar. Meðal annars dauði hundsins.
Eins og áður segir hlaut hún tíu ára fangelsisdóm að frádregnu gæsluvarðhaldi. Einnig var henni gert að greiða tæpar fimm milljónir króna í lögfræði og málskostnað.