fbpx
Laugardagur 12.október 2024
Fréttir

Stunginn í bakið af yfirmanni sínum fyrir að segja sannleikann – „Við erum að horfa upp á þöggun og hún er að beinast að mér“

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 11. ágúst 2024 12:34

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, er afar ósáttur við framgöngu Sigríðar J. Friðjónsdóttur, ríkissaksóknara, gegn honum. Þau hafi verið kollegar í um 25 ár og starfað saman í embættum sínum í um 13 ár og upplifir Helgi Magnús að Sigríður hafi nú stungið hann í bakið.

Ríkissaksóknari hefur krafist þess að dómsmálaráðherra veiti Helga lausn frá embætti um stundarsakir. Málið er til meðferðar hjá ráðherra og Helgi hefur nú skilað greinargerð í málinu þar sem hann mótmælir málsmeðferðinni og krefst þess að ráðherra hafni erindi ríkissaksóknara, enda telur hann engan grundvöll fyrir því.

Helgi segir í Sprengisandi í dag að hann að í bréfinu reki hann og lögmaður hans, Alma Möller, það sem geti aðeins talist vera grundvallar lögfræði, eða lögfræði 101, sem eigi að leiða til þess að ráðherra kasti málinu út. Hann njóti tjáningarfrelsis og vel geti verið að hann hafi mátt betur gæta að orðalagi sínu en skoða verði málið í því ljósi að hann var ekki að tjá sig sem vararíkissaksóknari heldur sem þolandi ítrekaðra líflátshótana. Hann hafi aðeins sagt sannleikann um þá breyttu stöðu sem upp sé komin í samfélaginu og þessa tjáningu hans noti aktívistar til að reyna að þagga niður í umræðunni.

Dropinn holar steininn

Það var þjóðþekkti glæpamaðurinn Mohamad Thor Jóhannesson, áður Kourini, sem ofsótti Helga Magnús í rúm 3 ár með stöðugum líflátshótunum sem beindust bæði gegn honum og fjölskyldu hans. Kourani var nýlega dæmdur í 8 ára fangelsi fyrir alvarlega árás í OK Market, en Helgi segir þann dóm sýna að fullt tilefni var til að taka hótunum hans alvarlega.

Helgi hafi ýmislegt reynt á sínum ferli og tekist á við marga færustu lögmenn landsins í erfiðum málum. Hann taldi sig því öllu vanur. Það er ekki fyrr en nú sem hann hefur áttað sig á því að hótanir Kourani tóku mun meira á hann en hann gerði sér grein fyrir fyrst.

„Börnin mín eru náttúrulega það dýrmætasta sem maður á og maður hugsaði þetta þannig að maður myndi tækla þetta eins og allt annað en ég held að dropinn holi nú steininn og ég upplifi það eftir á að ég hafi tekið þetta nærri mér heldur en ég vildi viðurkenna.“

Engan stuðning frá Sigríði

Hann var svo staddur í sumarleyfi þegar hann fékk tölvupóst um að vinnuframlags hans væri ekki óskað og að Sigríður hefði leitast eftir því að ráðherra veitti honum lausn frá embætti um stundarsakir. Helgi segir þetta hafa komið honum að óvörum. Hann taldi sig og Sigríði vera vini, enda hafi þau starfað saman í um 25 ár og setið í embættum sínum saman í um 13 ár. Hún hafi engan stuðning veitt honum í máli Kourani.

„Þetta hlaut enga athygli hjá yfirmanni mínum eða neinn stuðning. Ég kom mér sjálfur upp myndavélakerfi til að fylgjast með húsinu heima til þess að vita hvort maðurinn væri að sniglast þar eitthvað og varaði börnin mín við að fara ekki til dyra nema skoða myndavélina.“

Kourani hafi í þrígang komið upp í vinnu til hans þar sem hann öskraði á Helga að hann ætlaði að drepa hann.

Í staðinn fyrir stuðning fékk Helgi Magnús bara tölvupóst frá Sigríði og samtímis var samstarfsmönnum hans tilkynnt um málið. Þar sem Helgi var í sumarleyfi las hann tölvupóstinn ekki fyrr en 90 mínútum eftir að hann barst og því fengu margir samstarfsmenn hans að vita um málið á undan honum. Þetta þykir Helga særandi og ljóst að hann og Sigríður eru ekki þeir vinir sem hann taldi þau vera.

„Ég hef ekkert sagt annað en sannleikann með þeim orðum sem eru mjög pen til þess að gera og hef ekki verið með nein stóryrði um nokkurn skapaðan hlut.“

Fólk þakkar honum fyrir

Varðandi bréfið sem hann hefur sent dómsmálaráðherra þá tekur Helgi Magnús fram að grundvöllur þess að krefjast lausnar um stundarsakir sé að áminning hafi fyrst verið veitt. Hann hafi verið áminntur fyrir um tveimur árum síðar og sú áminning hafi ekkert gildi í dag. Bara við það eitt falli málið um sjálft sig.

Þar að auki hafi hann ekki beint ummælum sínum að tilteknum hópum heldur talað almennt um að samfélagið okkar væri að taka breytingum og hingað væru að koma hópar sem kannski virða ekki samfélagssáttmála okkar. Þær ályktanir sem fólk dregur af orðum hans þurfi það sjálft að bera ábyrgð á.

„Þetta sem ég er að segja er bara satt og rétt, það vita þetta allir, og þess vegna er fólk að snúa sér að mér í Hagkaup og Bónus og annar staðar og senda mér skilaboð í hundraðavís á netinu og þakka mér fyrir.“

Vissulega hefði hann getað orðað ummæli sín með öðrum hætti en það sé gjarnan svo að þegar fólk ræðir beint við blaðamenn þá hefur fólk ekki tíma til að leggja. mat á hvert orð.

„Auðvitað verðum við að gæta orða okkar og ég held ég hafi gert það. Stend á því fastar en nokkru að ég hafi nú verið tiltölulega penn í þessu. Auðvitað notar maður kannski myndlíkingar og ég gæti þá notað þá myndlíkingu að mér finnst ég hafa verið stunginn í bakið af yfirmanni mínum og ég hefði átt að hljóta stuðning þar heldur en að það væri hlaupið eftir einhverjum tilskrifum frá aktívistum úti í bæ sem notuðu stór orð og upphrópanir sem voru svo teknar upp í bréf ríkissaksóknara til dómsmálaráðherra . En væri ég þá að segja að ég hefði bókstaflega verið stunginn í bakið? Eða er það þá orðalag sem má ekki nota vegna þess að fólk lítur þá á að ég sé að halda því fram að hún hafi stungið mig með hníf?“

Reynt að þagga niður umræðuna

Vissulega hafi hann getað orðað þetta betur, en þá hefðu orð hans ekkert vægi haft fyrir umræðuna.

„Ég viðurkenni það alveg, ég hefði getað orðað þetta betur, þannig að það sem ég sagði hefði ekki fengið neina athygli hjá neinum, engar hugrenningar um að hlutirnir væru kannski ekki alveg á sama stað núna og þeir voru fyrir 10-15 árum síðar og mín tjáning væri þá bara meira og minna gagnslaus, sykurhúðuð, lituð kannski af þeirri sömu hræðslu og er oft í þessari umræðu að menn þora ekki að segja það sem þeir vita.“

Um sé að ræða aðferðafræði aktívista til að þagga niður umræðu um tiltekin málefni.

„Við erum að horfa upp á þöggun og hún er að beinast að mér og þöggunin er fólgin í því að það er verið að reyna að losa mig úr starfi til þess að það sé nú öruggt að það komi einhver annar sem er þá lafhræddur við að tjá sig og muni ekki segja þessa hluti en það er ekki vegna þess að þeir eru rangir. Hvernig í ósköpunum getur það verið efni til þess að maður missi starfi að hann segi sannleikann um það sem er að gerast í kringum hann?“

Helgi telur ummæli hans ekki hafa varpað rýrð á starf hans eða gefið tilefni til að draga heilindi hans í starfi í efa. Ef einhver ætti að skoða sinn hlut þá sé það Sigríður.

„Ég er bara að segja ef það er einhver sem þarf að hafa áhyggjur af orðsporinu sínu í þessu máli þá er það ríkissaksóknari í þessu efni miðað við hvernig umræðan hefur verið í samfélaginu um þessa ákvörðun hennar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Er ríkisstjórnin að springa? Segir að Bjarni gæti freistast til að boða til kosninga á næstu dögum

Er ríkisstjórnin að springa? Segir að Bjarni gæti freistast til að boða til kosninga á næstu dögum
Fréttir
Í gær

Maður hátt á sjötugsaldri dæmdur í 20 mánaða fangelsi

Maður hátt á sjötugsaldri dæmdur í 20 mánaða fangelsi
Fréttir
Í gær

Guðbjörn um dóminn yfir Albert – „Sæti fótboltastrákurinn er enn þarna úti og sennilega enn nauðgandi“

Guðbjörn um dóminn yfir Albert – „Sæti fótboltastrákurinn er enn þarna úti og sennilega enn nauðgandi“
Fréttir
Í gær

Minnist banaslyssins í Breiðamerkurjökli og hraunar yfir ferðaþjónustufyrirtæki – „Margur verður af aurum api“

Minnist banaslyssins í Breiðamerkurjökli og hraunar yfir ferðaþjónustufyrirtæki – „Margur verður af aurum api“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stefán skiptir um skoðun og vill vera áfram

Stefán skiptir um skoðun og vill vera áfram
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fréttamaður fékk fljúgandi rusl í andlitið – Áhorfendur CNN mjög áhyggjufullir | Myndband

Fréttamaður fékk fljúgandi rusl í andlitið – Áhorfendur CNN mjög áhyggjufullir | Myndband