fbpx
Þriðjudagur 07.maí 2024
Fréttir

Eldri hjón kærðu húsbrot eftir að leigusali tæmdi húsið – „Við vorum eins og ein fjölskylda“

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 24. febrúar 2024 09:00

Eystra Fíflholt Í Landeyjum. Mynd/aðsend

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eldri hjónum sem bjuggu á Eystra Fíflholti í Landeyjum brá heldur betur í brún þegar þau sneru heim úr ferðalagi til Vestmannaeyja í maí árið 2022. Búið var að tæma húsið þeirra, skipta um lása og setja hestakerru fyrir hurðina.

Hjónin höfðu gert samning um að fá að búa í húsinu svo lengi sem þau vildu, það var hluti af kaupsamningi býlisins. En hinir nýju kaupendur riftu samningnum einhliða og viku eldri hjónunum í burt.

Hjónin hafa krafist ógildingar á kaupsamningnum. Einnig hafa þau kært málið til Lögreglustjórans á Suðurlandi. Lögreglustjóri vildi fyrst ekki rannsaka málið. Eftir skipun frá Ríkissaksóknara hófst rannsóknin en hefur gengið mjög hægt. Á meðan búa hjónin í öðru húsi á Hellu og hafa enn ekki fengið búslóðina sína.

Miðpunkturinn í sveitinni

„Þó ég segi sjálfur frá þá var þetta með glæsilegustu búum á stóru svæði,“ segir Þorsteinn Markússon sem hefur ásamt eiginkonu sinni, Þóru Gissurardóttur, kært þetta mál. Þau eru nú á áttræðisaldri.

Þorsteinn og Þóra keyptu Eystra Fíflholt árið 2000 og byggðu það upp. Reistu hús og ræktuðu landið. Jörðinni fylgdu 150 hektara tún og í fjósinu gáfu 60 kýr 400 þúsund lítra af mjólk.

Ávallt var glatt á hjalla. Mynd tekin í sumarhúsi á jörðinni. Mynd/aðsend

Að sögn Þorsteins var býlið eins konar miðpunktur í sveitinni. Hestamenn og fleiri komu við til að spjalla og fá kaffisopa.

Eins og fjölskylda

Þegar leið á flutti til þeirra ungt fólk til að vinna, Friðrik Sveinn Björnsson og Sunna Björk Guðmundsdóttir.

„Þau reyndust okkur vel, voru með tvö lítil börn og eitt eldra. Við vorum eins og ein fjölskylda,“ segir Þorsteinn.

Þegar Þorsteinn og Þóra fóru að eldast sáu þau fram á að hætta búskap. Þá stóðu þau frammi fyrir tveimur kostum. Annað hvort að selja býlið og Friðrik og Sunna þyrftu þá að fara. Eða þá að þau tækju við búinu. Seinni kosturinn varð úr. En með honum sáu Þorsteinn og Þóra einnig fram á að geta búið í Eystra Fíflholti áfram.

Samningur undirritaður

Gengið var frá sölusamningi á búinu Eystra Fíflholti árið 2015. Ekki var greitt neitt fyrir í peningum heldur með yfirtöku tveggja lána upp á samanlagt tæpar 127 milljónir króna. Einnig tók búið á sig 20 milljón króna veðskuldabréf sem átti að greiðast á sex ára tímabili en greiðslur áttu ekki að hefjast strax.

Þetta skuldabréf var vegna kaupa á íbúðarhúsnæði sem byggt var á jörðinni árið 2012 og Þorsteinn og Þóra bjuggu í. Samið var um að Friðrik og Sunna eignuðust húsið en Þorsteinn og Þóra fengju að leigja þar endurgjaldslaust „svo lengi sem þau kjósa.“

Sambúðin súrnaði

Framan af gekk þetta vel. Þorsteinn og Þóra bjuggu leigulaust í húsinu og hjálpuðu stundum við búskapinn, til dæmis í fríum, enda höfðu þau enn þá heilsu til.

En eftir nokkur ár súrnaði sambýlið mikið. Þorsteinn segir að það hafi gerst þegar Friðrik og Sunna hafi átt að byrja að borga af skuldabréfinu. Hann segir að þau hafi ekki viljað greiða af því og létu Þorsteinn og Þóra þetta eiga sig um stund. En eftir að hafa rætt við erfðaráðgjafa á Hellu var þeim ráðlagt að vekja skuldabréfið, ef þau sýndu tómlæti myndi það daga uppi.

Þorsteinn og Þóra hafa kært málið til lögreglu. Mynd/aðsend

„Við fórum að tala við þau um þetta en þá urðu þau reið og allt fór í háaloft,“ segir Þorsteinn. „Þau neituðu að borga þetta en við settum það samt í innheimtu. Þá hættu þau að tala við okkur og síðan hafa öll samskipti verið í gegnum lögfræðinga.“

Nú var komið árið 2021. Eins og gefur að skilja varð sambúðin í Eystra Fíflholti mjög erfið eftir þetta og upp komu árekstrar.

Þorsteinn segir að rafmagnið hafi verið tekið af húsinu í fjóra daga. Þá sáu þau Þóra að þau þyrftu að hafa eitthvað athvarf annars staðar. Keyptu þau þá hús á Hellu sem þau fjármögnuðu með bankaláni og þeim sjóði sem þau áttu hjá lífeyrissjóðnum sínum.

Hestakerra við dyrnar

Í mars mánuði árið 2022 sendi lögmaður Friðriks og Sunnu þeim Þorsteini og Þóru bréf þar sem sagt var að leigusamningnum væri rift. Ástæðan var sögð sú að Þorsteinn og Þóra hefðu flutt út úr húsnæðinu áður en leigutíma væri lokið án þess að hafa gert nauðsynlegar ráðstafanir til gæslu og verndar þess.

Þrátt fyrir að Þorsteinn og Þóra höfðu keypt hús á Hellu höfðu þau samt ekki flutt lögheimili sitt frá Eystra Fíflholti.

Í maí þetta ár fóru Þorsteinn og Þóra í ferðalag til Vestmannaeyja með eldri borgurum. Þegar þau komu heim í Eystra Fíflholt blasti við þeim óskemmtileg sjón.

„Þegar við komum heim var búið að brjótast inn og hirða allt saman. Búið að læsa og skipta um skrá,“ segir Þorsteinn. „Það var ekki gaman að koma að þessu. Við botnuðum ekkert í þessu. Það var búið að setja hestakerru við dyrnar.“

Búslóðinni yrði fargað

Var nú orðið ljóst að mikil harka var komin í málið og þurfti aðkomu lögmanna og lögreglu til að leysa úr því.

Annað bréf barst frá lögmanni Friðriks og Sunnu sem sagði að Þorsteinn og Þóra gætu sótt búslóð sína í geymsluhúsnæði á Stórólfsvöllum í Rangárþingi eystra fyrir 1. september. Ella yrði henni fargað.

Lögmaður Þorsteins og Þóru svaraði þessu á þann hátt að búslóðin hefði verið fjarlægð með ólögmætum hætti og henni yrði að skila á sama stað.

Kærðu húsbrot

Þorsteinn og Þóra hafa nú farið fram á að kaupsamningnum frá 2015 verði rift. Annað hvort með ógildingu eða greiðslu 133 milljóna króna ásamt vöxtum.

Í kröfunni sem lögmaður þeirra gerði segir að Friðrik og Sunna hafi ekki leitað dóms eða úrskurðar dómara um heimild til útburðar eins og lög áskilja heldur hafi þau framkvæmt útburðinn sjálf. Í samningnum hafi staðið að Þorsteinn og Þóra hafi átt að fá að leigja húsið eins lengi og þau kysu. Kaupsamningurinn hefði því verið brotinn.

Býlið var mikið mjólkurbú með 60 kúm. Mynd/aðsend

Í ágústmánuði árið 2022 kærðu Þorsteinn og Þóra Friðrik og Sunnu til Lögreglustjórans á Suðurlandi fyrir húsbrot.

Lögreglan vildi hins vegar ekki aðhafast í málinu. Í nóvemberbyrjun þetta ár sagði Lögreglustjóri að um væri að ræða einkaréttarmál og ætti því ekki að sæta opinberri rannsókn.

Þessi ákvörðun var kærð og í lok sama mánaðar lagði Ríkissaksóknari það fyrir Lögreglustjóra að taka málið til rannsóknar.

Vafasöm skilaboð út í leigumarkaðinn

Síðan þá hefur málið hins vegar lítið hreyfst þrátt fyrir endurteknar fyrirspurnir. Sífellt er borið við manneklu og erli hjá lögreglunni. Meðal annars vegna morðmáls á Selfossi og mönnunar við fund Evrópuráðsins í Hörpu.

Fyrir hönd Þorsteins og Þóru sendi lögmaður þeirra ítrekun til Lögreglustjórans á Suðurlandi í ágúst. Óskað var eftir því að málinu yrði hraðað og ákæra gefin út.

Í bréfinu segir að með því að rifta leigusamningnum og fyrirvaralaust skipta um lyklaskrár og fjarlæga búslóðina hefðu leigusalarnir brotið stjórnarskrárvarin rétt til friðhelgi og fjölskyldu. Einnig væri þetta brot á 231. grein hegningarlaga, sem lýtur að því að ryðjast inn á heimili fólks.

„Nú er svo komið að rétt um ár er liðið frá því kæra í málinu var lögð fram, en að umbjóðendum mínum vitandi hefur lítið sem ekkert verið unnið í málinu,“ segir í bréfinu. Væri þetta látið óátalið myndi það senda mjög vafasöm skilaboð út á leigumarkaðinn. Það er að leigusalar gætu án úrskurðar borið leigjendur sína út og fjarlægt búslóðir þeirra.

Endalausar tafir

Þorsteinn sjálfur hefur einnig margsinnis spurst sjálfur fyrir um málið hjá Lögreglunni á Suðurlandi. Í maí síðastliðnum sagði yfirlögregluþjónn að málið myndi klárast á næstu vikum og niðurstaða fást í það. Í júní var sagt að vonast yrði til þess að rannsókn yrði lokið innan fjögurra vikna.

Hins vegar fóru skýrslutökur ekki fram fyrr en í ágúst og síðustu gögn voru að berast til embættisins í október. Þá fór málið inn á ákærusvið.

Þá hafa Þorsteinn og Þóra í tvígang sent erindi til Umboðsmanns Alþingis vegna tafa á málinu.

Í desember kom svo lögreglukona til að taka skýrslu hjá Þorsteini og Þóru. Hún hafði enga vitneskju um málið áður og var að hætta störfum hjá embættinu.

Það nýjasta sem Þorsteinn hefur heyrt, frá því fyrr í þessum mánuði, er að viðbótarrannsókn hafi hafist hjá lögreglu. Yfirlögregluþjónn hafi hins vegar ekki viljað segja þeim um hvað hún snerist.

Vill ekki tjá sig

Þorsteinn segir að búskapurinn hafi verið lagður niður á Eystra Fíflholti og tækin seld. Húsið sem þau bjuggu í og sumarhús á lóðinni séu nú leigð út. Hann segist sjá eftir því góða mjólkurbúi sem þau Þóra byggðu upp.

DV hafði samband við Friðrik Svein Björnsson fyrir vinnslu þessarar fréttar en hann vildi ekki tjá sig um málið.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sakar Katrínu um að svíkja börnin á Gaza – „Hennar skömm er sérstaklega mikil þar sem hún vissi betur“

Sakar Katrínu um að svíkja börnin á Gaza – „Hennar skömm er sérstaklega mikil þar sem hún vissi betur“
Fréttir
Í gær

Katrín áfram efst hjá veðbanka þrátt fyrir dalandi fylgi – Þetta eru stuðlarnir

Katrín áfram efst hjá veðbanka þrátt fyrir dalandi fylgi – Þetta eru stuðlarnir
Fréttir
Í gær

„Það er orðið sérlega óheppilegt þegar við erum farin að beita ofbeldi í þágu sjálfrar baráttunnar gegn ofbeldi“

„Það er orðið sérlega óheppilegt þegar við erum farin að beita ofbeldi í þágu sjálfrar baráttunnar gegn ofbeldi“
Fréttir
Í gær

Fangi fannst látinn á Litla-Hrauni

Fangi fannst látinn á Litla-Hrauni