Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Viljans og fyrrverandi borgarfulltrúi, segir að samkvæmt heimildum megi allt eins búast við því að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra freisti þess á næstu dögum að boða til kosninga sem yrðu þá í lok nóvember næstkomandi.
Ríkisstjórnin kom saman til fundar í morgun og að lokum honum ræddu ráðherrar við fjölmiðla.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sagði við mbl.is að ríkisstjórnarflokkarnir deili ekki sameiginlegri sýn á framtíðina og þeir geri sér grein fyrir því að stjórnin er í brekku. Þegar hann var spurður hvort við værum á síðustu dögum þessarar ríkisstjórnar sagðist Bjarni vera í ríkisstjórninni af fullum krafti þangað til hann er ekki lengur í henni.
„Ég er aldrei að svífa inn til lendingar fyrr en að ég segi stopp. Við vorum að klára ríkisstjórnarfund og ég er í verkefnunum þangað til að ég er ekki lengur í verkefnunum,“ sagði Bjarni við vef Morgunblaðsins.
Svandís Svavarsdóttir, formaður VG, sagði við mbl.is að staðan væri þung og flókin en allir væru sammála um mikilvægi þess að vinna saman. Þá sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, að flokkurinn sé alltaf tilbúinn í kosningar. Hann gaf þó engin skýr svör um það hvort hann teldi að ríkisstjórnin myndi halda út veturinn.
„Við erum með sáttmála og við vitum hve langt kjörtímabilið er. Það er bara verkefni okkar og ríkisstjórnarinnar og oddvita. Það samtal er að eiga sér stað,“ sagði Sigurður Ingi.
Björn Ingi skrifaði pistil um stöðu mála sem birtist á vef Viljans í gærkvöldi og í honum sagði hann að brugðið gæti til beggja vona í ríkisstjórnarsamstarfinu á næstu dögum.
Færi svo að boðað yrði til kosninga á næstu dögum sé ljóst að ekki muni gefast tími til að halda landsfund Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar eins og stefnt hafði verið að. Bjarni myndi þá áfram leiða flokkinn þrátt fyrir erfiða stöðu flokksins í skoðanakönnunum.
Þá segir Björn Ingi í pistlinum að hvorki Viðreisn né Miðflokkurinn séu til í að ganga til liðs við laskaða ríkisstjórnina í stað VG.