fbpx
Miðvikudagur 09.október 2024
Fréttir

Bæjarfulltrúi Samfylkingar í Árborg skammar Sjálfstæðismenn fyrir skattahækkanirnar – Með tvo bæjarstjóra á fullum launum

Kristinn H. Guðnason
Þriðjudaginn 1. október 2024 10:30

Sigurjón Vídalín segist ætla að berjast fyrir afnámi álagsins.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigurjón Vídalín Guðmundsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar í Árborg, fer hörðum orðum um skattahækkanir meirihlutans sem kynntar voru á dögunum. Ekki hefði þurft að leggja álagið á íbúana.

Þetta segir Sigurjón í aðsendri grein á staðariðlinum Sunnlenska.is í gær.

DV og fleiri miðlar hafa greint frá skattahækkunum meirihluta Sjálfstæðismanna og Áfram Árborgar. Sérstakt álag verður lagt á útsvarið á þessu og næsta ári. Fyrir þetta ár þurfa íbúar að greiða eingreiðslu 1. júní næstkomandi. Í mörgum tilvikum er um að ræða hundruð þúsunda króna rukkun og eru íbúar rjúkandi reiðir út af þessu.

Hefðu átt að nýta covid-úrræðin

Sigurjón segir að ekki hefði þurft að leggja þetta álag á íbúa í Árborg. Að hans mati á hlutverk sveitarfélags að vera skjól fyrir íbúa og halda álögum í lágmarki. Ekki eigi að bæta á fjárhagsleg vandræði fólks þegar illa árar í þjóðfélaginu. Góðæristíma eigi að nota til þess að rétta af hallarekstur og greiða niður skuldir.

„Í jafn slæmu efnahagsástandi og raun hefur verið á síðan í lok covid-19, þ.s. verðbólga fór yfir 10% og stýrivextir í tæp 10% (og eru þar enn) var og er í mínum huga útilokað að auka enn frekar á fjárhagslegar byrgðar íbúanna og þá sérstaklega þá hópa sem eru í viðkvæmri stöðu eins og ungt barnafólk, einstæða foreldra, ellilífeyrisþega og öryrkja,“ segir Sigurjón.

Sjá einnig:

Ólga út af skattahækkunum í Árborg – „Skil ekki hvernig þeir mega þetta“

Nefnir hann að vandi sveitarfélagsins sé fyrst og fremst lausafjárvandi vegna hárra vaxta og verðbólgu. Sveitarfélagið sé langt frá því að vera gjaldþrota og það á eignir langt umfram skuldir.

Vel hefði verið hægt að nýta sér bráðabirgðaheimild í sveitarstjórnarlögum sem sett var á í COVID-19 faraldrinum um að sveitarfélög væru undanþegin 150 prósent skuldahlutfalli. Þessi heimild gildir út árið 2025 en hún var sett á vegna þess að þriðjungur sveitarfélaga voru yfir hlutfallinu.

Raunhæft hefði verið að ná skuldahlutfallinu niður fyrir 150 prósent því það var ekki hærra en 165 prósent fyrir A-hluta árið 2022. Samhliða því hefði átt að fara í samningaviðræður við ríkið og lánasjóð sveitarfélaga um langtíma áætlun.

„Að leggja álag á útsvar hefði átt að vera algjört neyðarúrræði, allra síðasta útspilið en ekki eitt það fyrsta,“ segir Sigurjón.

Sjálfstæðismenn máluðu sig út í horn

Án þess að hafa verið hluti af viðræðum Sjálfstæðismanna og fulltrúa ríkisins segir Sigurjón eitt að fulltrúar eftirlitsnefndar hafi gert þetta álag að tillögu en annað að meirihlutinn hafi samþykkt það.

„Skýringin á því gæti verið sú að bæjarfulltrúar D-listans voru kannski búnir að mála sig út í horn af þeirri einföldu ástæðu að í upphafi kjörtímabilsins voru þeir svo upptekinn af því að reyna að kenna fyrri meirihluta um slæma stöðu bæjarsjóðs að þeir lýstu því margoft yfir í fjölmiðlum að sveitarfélagið væri gjaldþrota,“ segir Sigurjón. „Sú orðræða náði svo hámarki þegar blásið var til íbúafundar með tilheyrandi fjölmiðlaumfjöllun til að koma enn betur til skila meintu gjaldþroti sveitarfélagsins. Það sem þessir ágætu bæjarfulltrúar virðast hins vegar ekki hafa gert sér grein fyrir að með þessari orðræðu eyðilögðu þeir líklega algjörlega samningsstöðu sína gagnvart fjármálamarkaðinum, því hver vill semja við gjaldþrota félag?“

Fólk hefði ekki kosið þessa „björgun“

Segist Sigurjón ekki geta varist þeirri hugsun að ef kjósendur hefðu gert sér grein fyrir því að þegar frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins sögðust ætla að „bjarga“ fjárhag Árborgar hafi hann ekki trúað að jafn margir hefðu kostið listann ef það hefði fylgt sögunni að björgunin yrði fólgin í að vera með tvo bæjarstjóra á fullum launum [Braga Bjarnason og Fjólu Kristinsdóttur], segja upp lægst launaða starfsfólkinu og leggja aukaskatt á íbúa í tvö ár. „Flokkurinn sem aldrei hækkar skatta að eigin sögn,“ segir hann.

„Í komandi fjárhagsáætlunarvinnu fyrir 2025 mun ég því halda áfram að berjast fyrir því að þetta aukaálag verði fellt út og vona ég sannarlega að það muni takast því þessi auka skattheimta kemur sér mjög illa við marga og er að mínu mati afar erfitt að réttlæta,“ segir hann að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt