fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fréttir

Ásta Lóa lætur kollega sína á þinginu heyra það: „Ég bara skil þetta ekki“

Einar Þór Sigurðsson
Mánudaginn 27. maí 2024 10:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ásta Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins og formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, var ómyrk í máli í viðtali við Bítið á Bylgjunni í morgun. Þar ræddu þáttastjórnendur við Ástu um stóra vaxtamálið svokallaða en það lýtur að nýlegu áliti EFTA-dómstólsins þess efnis að íslenskum bönkum sé óheimilt að breyta vöxtum á lánum með breytilegum vöxtum á grundvelli þeirra lánaskilmála sem koma fram í skuldabréfum sem bankarnir hafa látið lántakendur undirrita.

Ásta fór í stuttu máli yfir það um hvað málið snýst og benti á að eftir hrun hafi verið farið í fjöldamörg mál þar sem fjallað var um skilmála hrunlánanna. Þeir voru í eðli sínu einfaldir, sagði Ásta, þar sem vextir miðuðu við kjörvexti eða gjaldskrá bankans.

„Þetta var kolólöglegt af því að þetta var geðþáttaákvörðun bankans. Bankarnir fóru í að laga þetta en þá bara komu inn svakalegar orðaflækjur,“ sagði Ásta og benti á að þetta væri ekki nógu skýrt. Álit EFTA-dómstólsins snúi meðal annars að þessu; skilmálar þurfi að vera gagnsæir fyrir neytandann og hann þurfi alltaf að vita að hverju hann gengur og af hverju sé verið að breyta vöxtum. „Það er eitthvað sem er ekki ljóst í íslenskum skilmálum í þessum samningum,“ sagði Ásta og bætti við að EFTA-dómstóllinn setji það í hendur íslenskra dómstóla að fara yfir málið og dæma hvernig skuli fara með þetta.

Hefur litla trú á dómstólum

Ásta segir að íslenskir dómstólar séu ekki bundnir að þessu áliti og þurfi ekki að fara eftir því. „Nei, þeir þurfa þess ekki og hafa ekki gert það áður þegar þeir hafa álit sem hafa verið neytendum í hag. Þeir hafa leitað allra leiða til að komast hjá því að fara eftir álitinu.“

Benti Ásta á að EFTA-dómstóllinn hafi ekki lögsögu hér og þess vegna þurfi íslenskir dómstólar ekki að fara eftir þeim álitum sem þaðan koma. „Ég væri ekkert hissa þó ég sæi þá leita allra leiða til að bankarnir þyrftu ekki að greiða þetta.“

Fáir þingmenn sem tala um heimilin

Ásta gagnrýndi síðan kollega sína á Alþingi og sagði allt of fáa þingmenn láta sig málefni heimilanna varða. Nær öll hennar frumvörp fjalli á einn eða annan hátt um réttindi neytenda. Eitt af því sem hún vill breyta er til dæmis að auka fyrningarréttinn úr fjórum árum í tíu. Þannig sé staðan núna að hafi lántaki greitt upp án fyrir meira en fjórum árum séu kröfur að líkindum fyrndar.

„Ég ætla bara að segja það hér: Ef ég hefði ekki farið inn á þing þá væru málefni heimilanna ekkert sérstaklega á dagskrá þar. Það eru mjög fáir þingmenn sem yfirleitt tala um heimilin, þessu er hent fram öðru hverju. Ég bara skil þetta ekki, heimilin eru undirstaða alls, þau eru auðlind og það er gengið mjög illa um hana,“ sagði Ásta og bætti við að heimilin taki skellinn hvað eftir annað.

„Við hækkum bara þetta og hækkum bara hitt. Náum í meira. Svo þegar heimilin segja að við þurfum að auka við tekjur okkar þá er það bara bannað. Heimilin hafa verið að taka á sig vaxtagreiðslur sem hafa verið að hækka um 200-300 þúsund krónur á hverjum einasta mánuði, þetta er bara glæpur í mínum huga. Það er bara ekkert öðruvísi.“

Hægt er að hlusta á viðtalið við Ástu í heild sinni hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Þetta er góð táknmynd af þeim stóra vanda sem Pútín glímir við

Þetta er góð táknmynd af þeim stóra vanda sem Pútín glímir við