Í myndbandi, sem úkraínska lögreglan birti nýlega, segir konan, sem heitir Lidia Stepanivna, að hún hafi gengið þessa leið án þess að hafa mat eða vatn með sér. Hún segist hafa dottið nokkrum sinnum en „persónuleiki“ hennar hafi haldið henni gangandi.
„Ég lifði síðari heimsstyrjöldina af og ég mun lifa þetta stríð af. Ég á ekkert en ég yfirgaf mína Úkraínu fótgangandi,“ segir hún í myndbandinu.
Hún yfirgaf heimili sitt í Ocheretyne í Donetsk og segir að stríðsrekstur Rússa í Úkraínu minni ekkert á það sem gerðist í síðari heimsstyrjöldinni. „Hús brenna og tré rifna upp með rótum,“ segir hún í myndbandinu að sögn Independent.
Á heimasíðu úkraínska innanríkisráðuneytisins kemur fram að úkraínskir hermenn hafi komið auga á Stepanivna að kvöldi til og hafi komið henni til aðstoðar og komið í umsjá lögreglunnar sem reyni nú að hafa uppi á ættingjum hennar.