Karl Arnar gerir það nýlegt viðtal við Guðlaug Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í Morgunblaðinu að umtalsefni en þar var rætt við hann um nýafstaðið útboð á loftmyndatöku af Íslandi.
„Ráðherra mærir þar niðurstöður útboðsins en dregur upp mynd sem stenst enga skoðun. Að bera kostnaðartölur eins og ráðherra gerir vegna núverandi samnings við Loftmyndir ehf. saman við niðurstöður útboðsins er algjörlega út í hött því um gjörólíka hluti er að ræða. Annars vegar er um að ræða kaup á þjónustu þar sem allt er innifalið en hins vegar illa skilgreinda óvissuferð á kostnað skattgreiðenda sem enginn veit hvað kemur til með að kosta þegar upp er staðið. Engar fjárheimildir frá Alþingi eru til verksins og með öllu óljóst hvernig á að fjármagna það.“
Karl Arnar segir það misskilning að útboðið snúist um að taka nýjar loftmyndir af öllu Íslandi.
„Þau erlendu fyrirtæki sem samið var við munu hafa hér viðveru í allt að þrjá mánuði á ári næstu þrjú árin og á þeim tíma verður reynt að mynda eins mikið og hægt er. Kannski verður ráðherra heppinn og íslensk sumur næstu árin verða einstaklega veðursæl en áhættan er mikil og eftirtekjan gæti orðið rýr. Til samanburðar tók það Loftmyndir ehf. níu ár að klára að mynda allt Ísland.“
Karl vísar svo í skýrslu frá Landmælingum Íslands árið 2019 þar sem áætlað var að stofnkostnaður við að taka loftmyndir af öllu Íslandi væri á núvirði 700-750 milljónir og eftir það 160 milljónir á ári í viðhaldskostnað.
„Núverandi samningur við Loftmyndir ehf. kostar ríkið árlega minna en bara áætlaður viðhaldskostnaður af hinum nýja ríkisgrunni. Núna segist ráðherra hafa fundið leið til að vinna verkið fyrir aðeins brot af þessum kostnaði. Það gerir hann með því að bjóða aðeins út hluta verksins til að koma málinu af stað. Með samanburði á núverandi fyrirkomulagi við það sem boðið var út má öllum vera ljóst að „díllinn“ er súr og á endanum mun kostnaður ríkissjóðs verða umtalsvert hærri en niðurstöður útboðsins gefa til kynna.“
Með grein Karls fylgir tafla þar sem sést, svart á hvítu, hver munurinn er á þjónustunni sem ríkið fær í dag og því sem til stendur að innleiða. Hann segir að fleira sé athugavert í málflutningi ráðherra.
„Hann leggur að jöfnu upphæðir með og án virðisaukaskatts og tekur ekki með í reikninginn að erlenda fyrirtækið hefur enga starfsemi á Íslandi en innlend fyrirtæki og starfsfólk þess greiða hér skatta og gjöld. Ef tekið er tillit til þessara atriða er núverandi þjónustusamningur mun hagstæðari fyrir ríkissjóð en niðurstöður útboðsins.“
Karl segir að málið varði einnig öryggi Íslands og innlent viðbragð. Auk loftmyndanna sjálfra hafi Loftmyndir ehf. unnið úr þeim mjög nákvæm hæðargögn fyrir allt Ísland sem notuð eru í mannvirkjahönnun og neyðarstjórnun. Sambærileg gögn séu ekki til annars staðar. Ráðherra viti að slík gögn þurfi að vera til og gefur í skyn að það verði unnið síðar. Enginn viti hvað það kemur til með að kosta.
„Frá árinu 1996 hafa Loftmyndir ehf. tekið loftmyndir af öllu Íslandi sem allir geta skoðað á www.map.is. Teknar eru myndir með 20 cm upplausn af landinu öllu og af yfir 90 þéttbýlissvæðum með 10 cm upplausn. Þessum myndum er viðhaldið með reglubundnum hætti og allar stofnanir ríkisins, sveitarfélög, orkufyrirtæki o.fl. hafa að þeim aðgang til allra sinna verkefna. Í nýlegu útboði ríkisins stendur aðeins til að taka loftmyndir með 10 cm upplausn af höfuðborgarsvæðinu, Akranesi og Keflavík en öðrum þéttbýlisstöðum sleppt. Fyrirséð er að öðrum stöðum verður bætt inn síðar með ófyrirséðum kostnaði.“
Karl er augljóslega ekki sáttur við þetta.
„Það er snúið fyrir einkafyrirtæki að standa í samkeppni við djúpa vasa ríkisins. Stjórnmálaflokkur ráðherra hefur hingað til gefið sig út fyrir að standa með einkaframtakinu en ekki berjast gegn því eins og í þessu máli. Íslendingar hafa fram að þessu verið í þeirri öfundsverðu stöðu að hið opinbera hefur ekki þurft að fjárfesta í að safna loftmyndum en hefur tryggt sér afnot af þeim með lágmarkskostnaði. Þessu vill sjálfstæðismaðurinn Guðlaugur Þór nú breyta og ríkisvæða starfsemina og skjóta þannig sterkari stoðum undir vöxt ríkisbáknsins.“
Karl segir að lokum að loftmyndir af öllu Íslandi séu þegar til og það ættu að vera augljósir hagsmunir ríkisins að þurfa ekki að vinna verkefnið aftur.
„Þrjátíu ára saga loftmyndatöku sem í dag er öllum opin á www.map.is er í óvissu og það er ábyrgðarhluti að líta fram hjá mikilvægi þeirrar sögu. Fjárhagsleg rök eins og enginn stofnkostnaður, engin óvissa og allt landið tilbúið ættu að duga til að ræða möguleika á samstarfi en ráðherra stendur fastur fyrir í brúnni með kíkinn fyrir blinda auganu og svarar ekki erindum um samtal.“