Frá klukkan 17:00 í gær, þriðjudaginn 30. apríl til 05:00 að morgni þess 1. maí voru 97 mál afgreidd hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þar af voru fimm mál sem tengdust ökkumönnum sem voru handteknir vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og eða vímuefna.
Talsverður erill var í miðbænum en þrír gistu fangageymslur lögreglu vegna ölvunar. Þá sinnti lögreglan tilkynningu um minniháttar líkamsárás á skemmtistað og á bar í úthverfi Reykjavíkur.
Þá bárust þrjár tilkynningar vegna leigubílstjóra í vandræðum með farþega og aðstoðuðu lögreglumenn við að leysa úr þeim.
Í gærkvöldi var tilkynnt um varðeld í Elliðaárdal og við Hvaleyravatn en þar reyndist vera á ferðinni fólk að grilla. Sama gilti um undarlegasta útkall gærdagsins en þá var tilkynnt um varðeld í bakgarði. Þegar lögreglan kom á vettvang stóðu þar tveir svartklæddir einstaklingar með kattareyru á höfðinu að grilla. Menn spila bara sinn leik.