Gleðistjarnan er góðgerðarfélag sem stofnað hefur verið til minningar um Þuríði Örnu Óskarsdóttur sem lést 20. mars 2023.
Tilgangur félagsins er að halda uppi minningu Þuríðar með því að gleðja systkini langveikra barna með gleðigjöfum og viðburðum. Félagið aflar fjár til starfsemi sinnar með styrkjum frá fyrirtækjum, félagasamtökum og einstaklingum og með viðburðahaldi.
Þuríður Arna Óskarsdóttir fæddist á Landspítalanum þann 20. maí 2002. Hún lést á heimili sínu í Reykjavík þann 20. mars 2023. Foreldrar Þuríðar eru Óskar Örn Guðbrandsson og Áslaug Ósk Hinriksdóttir. Þuríður eignaðist fjögur systkini Oddnýju Erlu, Theodór Inga, Hinrik Örn og Jóhönnu Ósk.
Tveggja ára gömul greindist Þuríður með illvíga flogaveiki og í framhaldinu fannst góðkynja æxli í heila hennar. Í 18 ár barðist hún hetjulega við meinið, gekk í gegnum erfiðar lyfja- og geislameðferðir og fjórum sinnum gekkst Þuríður undir opnar heilaaðgerðir þar sem reynt var að fjarlægja æxlið. Þrátt fyrir að hafa átt góð ár inn á milli tók meinið sig ávallt upp aftur og að lokum játuðu læknavísindin sig sigruð í júlí 2022. Við tók líknandi meðferð þar sem Þuríður dvaldi á heimili sínu umvafin ást og umhyggju foreldra sinna, systkina og stórs hóps ættingja og vina.
Þrátt fyrir erfið veikindi hóf Þuríður skólagöngu á leikskólanum Hofi og fór í framhaldinu í fyrsta bekk í Norðlingaskóla. Þegar á leikskólaaldri var ljóst að mein Þuríðar hafði veruleg áhrif á þroska hennar og átti hún strax erfitt með að halda í við skólasystkini sín. Þegar kom að sjötta bekk grunnskóla fékk Þuríður inngöngu í Klettaskóla í Öskjuhlíð þar sem hún kláraði grunnskóla. Í framhaldinu fór hún á starfsbraut í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti þaðan sem hún útskrifaðist vorið 2022. Þuríður fékk einnig sín tækifæri á vinnumarkaði þar sem hún starfaði í afgreiðslu hjá TBR í Gnoðavogi með dyggum stuðningi frá móður sinni.
Gleðistjarnan veit hversu mikilvægt það er langveikum börnum og systkinum þeirra að hafa eitthvað til að hlakka til, eitthvað sem brýtur upp tilveruna í þeim erfiðu aðstæðum sem fjölskyldur langveikra barna eru oft í.
Gleðistjarnan hyggst því, í samstarfi við lækna og hjúkrunarfólk á Barnaspítala Hringsins, gefa systkinum langveikra barna gleðigjafir. Í kringum afmælið hennar Þuríðar sem er 20. Maí ætlar Gleðistjarnan að gleðja systkini langveikra barna og mun gera það í samvinnu við teymið á barnaspítalanum.
Því er tilvalið að blása til tónleikaveislu og safna þannig fé fyrir þetta verðuga verkefni.
Tónleikarnir fara fram í Grafarvogskirkju 1. maí og hefjast kl 17. Aðgangseyrir er 3.900 krónur er miðasala hér og við inngang.
Á tónleikunum verður aldeilis frábær hópur en þar koma fram Gissur Páll, Halli Melló, Hanna Þóra, Jóhanna Vilborg, Jón Jónsson, Regína Ósk, Stefán Hilmarsson, Svenni Þór, Sveppi og Una Torfa. Tveir píanóleikarar verða líka en það eru þau Þórir Úlfarsson og Antonía Hevesí. Óhætt að segja að fjölbreytileikinn verði ríkjandi en þarna eru á ferðinni tónlistarfólk sem er að stíga sín fyrstu skref til þaulreynda tónlistarmanna úr ýmsum áttum tónlistar.
Viðburður á Facebook.
Ef þú vilt styrkja Gleðistjörnuna, með frjálsu framlagi, þá getur þú gert það með því að leggja inn á reikning félagsins.
Heiti: Gleðistjarnan fta.
Kennitala: 690623-1610
Reikningsnúmer: 515-26-690623