fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
Fréttir

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 17. apríl 2024 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Halla Tómasdóttir, athafnakona og forsetaframbjóðandi, segist halda að einhver hafi séð sér hag í að ráðast á styrkleika hennar eftir að hún tilkynnti framboð sitt til forseta Íslands.

Halla er gestur í nýjasta þætti hlaðvarpsins Chess After Dark þar sem farið er um víðan völl. Mánuður er síðan Halla tilkynnti framboð sitt til forseta Íslands en ekki leið á löngu þar til fór að bera á umræðum á samfélagsmiðlum þar sem ferilskrá hennar var véfengd.

Ýmis atriði tekin saman

Þetta mátti til dæmis lesa í þræði á Reddit þar sem ýmis atriði voru tekin saman. Var bent á að hún hefði ýmist verið sögð hafa útskrifast frá Auburn University eða Auburn University at Montgomery. Þó að nöfn þessara skóla séu svipuð er Auburn University töluvert virtari og almennt talinn meðal 300 bestu háskóla heims. Halla útskrifaðist frá Auburn University of Montgomery sem er í hópi 3000 bestu háskóla heims.

Þá var tiltekið að hún útskrifast með MBA-gráðu frá Thunderbird-háskólanum árið 1995, þó svo að skólinn hefði ekki byrjað að veita MBA-gráður fyrr en árið 2001. Þá var það véfengt að hún hefði verið framkvæmdastjóri knattspyrnuliðs og gert heldur mikið úr störfum sínum fyrir stórfyrirtækin Pepsi og Mars.

Vísir fjallaði meðal annars um Reddit-þráðinn þann 22. mars síðastliðinn og svaraði Halla fyrir þau atriði sem véfengd voru.

Reynir að detta ekki ofan í aurinn

Í Chess After Dark fór Halla nánar út í þessi atriði. Aðspurð sagðist hún hafa heyrt af umræðunni um Reddit-þráðinn ekki lesið hann. „Ég reyni að detta ekki ofan í aurinn þó að einhver hendi honum,“ sagði Halla sem telur að ferilskrá hennar standi styrkum fótum. Allir sem kynni sér hana sjái það.

„Ég held að það sé því miður þannig að þegar þú ferð í framboð þá hafi einhverjir hag af því að reyna að ráðast á styrkleika þinn. Því sé bara plantað. En ég get mjög vel svarað fyrir þetta allt saman,“ sagði Halla sem sagðist aldrei hafa dregið fjöður yfir það að hún hefði stundað nám sitt við Auburn University at Montgomery

„Þar var fótboltalið, þá er ég að tala um evrópskt fótboltalið, ekki í Auburn University. Ég var svokallaður manager sem er framkvæmdastjóri á fótboltaþýðingu fyrir liðið. Þetta var glænýtt lið, ég flutti örugglega um 20-30 íslenska knattspyrnumenn til Alabama á þessum tíma. Það vita allir að ég var í Auburn University í Montgomery,“ sagði Halla og bætti við að margir íslenskir knattspyrnumenn viti að hún hafi verið framkvæmdastjóri.

Mistök í fréttatilkynningu

Halla segir að sennilega sé umræðan um hvar hún stundaði nám sprottin af þeirri staðreynd að í fréttatilkynningu í kringum forsetaframboð hennar hafi orðinu Montgomery verið sleppt út.

„Ég hef aldrei notað annað en Auburn University at Montgomery í mínum ferilskrám og er bara stolt af þeim skóla og því sem ég gerði þar. Ég var besti nemandi skólans, er hann eitthvað síðri heldur en hinn? Það getur vel verið, ég þekki ekki rankings en þetta er sama stjórn yfir báðum skólum. Þetta snýst um hvort borgarnafninu er bætt við,“ sagði Halla meðal annars.

Varðandi MBA-gráðuna sagði Halla að Thunderbird hefði ákveðið að breyta nafninu á náminu.

„Gráðan hét alltaf MIM, eða Master of Internantional Management, sem mér fannst í rauninni flottara en svo breyta þeir gráðunafninu í MBA. Þeir voru alltaf að reyna að vera með sérstöðu,“ sagði Halla en eftir að gráðunni var breytt í MBA ákvað skólinn að senda öllum nemendum þá prófgráðu. „Ég hef notað hana síðan þeir tóku hana upp. Þeir sendu okkur ný útskrifarskírteini. Þetta er bara breyting sem skólinn gerði,“ sagði Halla.

„Við köstum ekki aur í aðra“

Stjórnendur Chess After Dark spurðu hana einnig út í störf hennar fyrir Pepsi og Mars, en í umræddum þræði á Reddit kom fram að sjálf hefði Halla talað um að hún hefði sinnt stjórnendastörfum hjá alþjóðlegum stórfyrirtækjum.

Halla sagði að hjá Mars, sem á þeim tíma var 30 þúsund manna fyrirtæki, hafi hún byrjað í Management Training. „Svo er ég mannauðsstjóri hjá þeim og þegar ég er mannauðsstjóri hjá Pepsi þá er ég fyrir það sem heitir Great West Business Unit sem er svona fjórðungur af Ameríku eða eitthvað þannig. Ég var ekki mannauðsstjóri yfir öllu Pepsi og hef aldrei haldið því fram,“ sagði Halla og bætti við að á þessum tíma hafi starfsmenn Pepsi á heimsvísu verið 300 þúsund.

Halla undirstrikaði það að hún hafi ekkert að fela og ýki ekki eitt eða neitt í sínum bakgrunni. „Svona vinnur fólk stundum í framboði,“ sagði hún og kvaðst hafa lært það árið 2016 að fólk muni reyna að segja allskonar hluti um mann og jafnvel ljúga.

„Þetta er bara hluti af þessu en hins vegar vinn ég ekki svona og ekki mitt framboð. Við vorum ótrúlega ákveðin í því 2016 – og ég er jafn ákveðin í því núna – að við köstum ekki aur í aðra. Ég er alveg örugg í mínu skinni og hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Grindvíkingar hentu 327 tonnum meira af sorpi í sumar en í fyrra

Grindvíkingar hentu 327 tonnum meira af sorpi í sumar en í fyrra
Fréttir
Í gær

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“
Fréttir
Í gær

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg