Baldur Þórhallsson forsetaframbjóðandi hefur brugðist við áskorunum um að hann skýri afstöðu sína til málskotsréttar forseta. Dregið hefur verið í efa að hann myndi sem forseti skjóta lagafrumvörpum í þjóðaratkvæðagreiðslu vegna afstöðu hans til Icesave-málsins á sínum. Meðal þeirra sem hafa viðrað slíkar áhyggjur og í raun krafið Baldur svarar um þetta er lögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson.
„Miðað við afstöðu Baldurs til Icesaveskuldauppgjörs og Evrópusambandsins má telja að engin mál sem rata til afgreiðslu á Alþingi frá Evrópusambandinu munu að hans mati teljast svo mikilvæg að þjóðin hafi eitthvað um þau að segja, þó bænaskjal verði sent. Forseti má aldrei óttast handhafa löggjafar- og framkvæmdavalds, eins og reyndin var með Vigdísi Finnbogadóttir, sem ekki treysti sér til að standa með þjóðinni þegar leitað var til hennar með ósk um að vísa lögum um samninginn um hið evrópska efnahagssvæði í þjóðaratkvæði,“ segir Sigurður, og ennfremur:
„Pólitískur forseti stendur væntanlega frammi fyrir þeirri spurningu hvort beita þurfi 26. gr. stjórnarskrárinnar til að forða þjóðinni undan ákvörðunum misvitra stjórnmálamanna, eins og Ólafur Ragnar þurfti þrisvar.“
Af þessu tilefni birtir Baldur yfirlýsingu í stuðningsmannahópi sínum á Facebook. Þar segir hann að forseti verði ávallt að svara kalli þjóðarinnar og megi aldrei vera meðvirkur með ríkisstjórn:
„Ég hef tekið eftir því í umræðunni að fólki leikur forvitni á að vita meira um afstöðu mína og skoðanir á málskotsrétti forseta.
Það var hárrétt af Ólafi Ragnari Grímssyni að vísa ICESAVE málunum til þjóðarinnar á sínum tíma.
Þegar um er að ræða gríðarlega umdeilt mál með svo mikla þjóðarhagsmuni verður forseti að vega og meta hvort að þjóðin eigi að hafi síðasta orðið.
Forseti Íslands má aldrei verða meðvirkur með ríkisstjórn eins og ég fjallaði um í ræðunni á miðvikudag.
Hlutverk fræðimanna er allt annað en forseta en ég hef starfað sem fræðimaður við Háskóla Íslands frá árinu 2000. Fræðimönnum ber meðal annars skylda til að benda á kosti og galla umdeildra mála.
Hlutverk forseta Íslands er að svara kalli þjóðarinnar og tryggja að hún hafi síðasta orðið gangi þingið fram af þjóðinni.
Auk þess á þjóðin að hafa síðasta orðið í stórum og umdeildum málum eins og hugsanlegri aðild að Evrópusambandinu. Það kæmi að mínu mati aldrei til greina að ganga í ESB án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu.
Einnig er mikilvægt að nefna að ef Alþingi einhverra hluta vegna gengur á rétt til málfrelsis, réttindi kvenna eða réttindi hinseginfólks verður forseti að vera tilbúinn að grípa inn í og vísa málum beint til þjóðarinnar.“